Greinar / 5. júní 2018

Hinn beini og breiði...

Það er til sá vegur sem beinir okkur til góðrar heilsu. Við veginn mætti hugsa sér að standi þrír stórir vegvísar sem á er ritað ,,Borðum hollt”, ,,Hreyfum okkur”, og ,,Gætum að streitunni”. Mikilvægi þessara skilaboða fyrir heilsuna dylst engum. Þau eru öll skynsamleg og staðfest með fjölda rannsókna. Vegurinn til góðrar heilsu getur þó verið vandrataður. Við þekkjum það líklegast flest hversu auðvelt er að bruna framhjá vegvísunum og gleyma því að hlýða boðunum.

Líkt og gjarnan á við um lýðheilsuskilaboð hljóma vegvísarnir fremur óspennandi. Svart-hvítar upplýsingar og staðreyndir sem innihalda þurra tölfræði: ,,Gakktu 150 mínútur á viku og þú minnkar líkur á að fá sykursýki um 20%”.

Við sama veg standa önnur áhugaverðari skilti. Þau eru litrík og skemmtileg, með fallegum myndum og auglýsa vörur á borð við ís, gos og sælgæti sem losa boðefni í heilanum sem láta okkur líða vel hér og nú. Við könnumst væntanlega öll við að hafa látið þessi skilti ráða ferðinni oftar en við kærum okkur um að muna.

Ljón í veginum

Það eru ýmsir áhugaverðir kraftar að verki sem toga í okkur á vegferðinni. Þeirra á meðal eru atferlisfræðilegir og þjóðfélagslegir kraftar. Því betur sem við áttum okkur á þeim kröftum sem eru að verki, þeim mun betur getum við stjórnað ferðinni og dregið úr áhættu okkar á lífsstílstengdum kvillum á borð við sykursýki 2 og hjartasjúkdóma.

Beini og breiði 1

Áður en við skoðum hvernig við getum betur fylgt góðu vegvísunum er gott að staldra við, líta fyrst á útsýnið frá veginum, átta okkur á því hvar við erum nú stödd og hvert skal haldið. Tölurnar eru sláandi: Langvinnir lífsstílstengdir sjúkdómar valda um 86% dauðsfalla og allt að 80% heilbrigðiskostnaðar í Evrópu og umfangið vex stöðugt. Árið 1980 hrjáði sykursýki 108 milljón manns í heiminum en nú tæpum fjórum áratugum síðar hefur sú tala ríflega ferfaldast og nemur 422 milljónum manna. Mikill meirihluti þessara tilfella, eða um 90%, er sykursýki 2 (,,áunnin sykursýki”) sem hefur sterk tengsl við hreyfingarleysi, óheilbrigt mataræði, offitu og streitu. Áætlað er að um 60% Íslendinga (155.000 manns) séu í ofþyngd og að um 7% fullorðinna (um 20.000 manns) séu með sykursýki.

Beini og breiði 2

Í nágrannalöndum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi eru um 1 af 3 fullorðnum með forstig sykursýki (e. prediabetes), en það þýðir að blóðsykurinn er byrjaður að hækka og hætta á sykursýki 2 og alvarlegum sjúkdómum eins og hjartaáfalli er aukin. Algengi þessa ástands hefur ekki enn verið metið hér á landi en ef hlutfallið er áþekkt því sem er í nágrannalöndunum má ætla að yfir 80.000 Íslendingar hafi forstig sykursýki. Ef þú átt þrjá vini, þá er líklegt að slíkt eigi við um einn þeirra.

djus.JPG

Góðu fréttirnar eru þær að lífsstílstengdir sjúkdómar eins og sykursýki 2 þróast oftast yfir langan tíma og hægt er að grípa inn í þá þróun og jafnvel snúa henni við með lífsstílsbreytingum. Erlendar rannsóknir sýna að skipulögð lífsstílsmeðferð sem hjálpar til að bæta mataræði, hreyfingu og streitustjórn getur meira en helmingað líkurnar á að þróa með sér sykursýki 2. Lífsstílsmeðferð getur verið tvöfalt árangursríkari í baráttunni við sykursýki en algengasta lyfið sem notað er í þeim tilgangi.

Beini og breiði 3

Ofangreindar tölur sýna að það gætu verið um 100.000 fullorðnir einstaklingar á Íslandi sem hafa annaðhvort sykursýki 2 eða forstig hennar. Ýmsar hindranir standa í vegi lífsstílsbreytinga á stórum skala. Ein slík er ótrúlega algeng en furðu lítið í umræðunni, en það er lágt heilsulæsi. Heilsulæsi er getan til að taka upplýstar ákvarðanir sem byggjast á heilsutengdum upplýsingum. Erlendar rannsóknir sýna að um helmingur fullorðinna á erfitt með að nýta sér heilsuupplýsingar til gagns. Ef upplýsingar innihalda mikið af tölum má ætla að um 60% fullorðinna (155.000 fullorðnir Íslendingar) eigi erfitt með að nýta sér þær til gagns, þar sem þörf fyrir talnalæsi bætist ofan á heilsulæsi.

Það er því nauðsynlegt að taka lágt heilsulæsi með í myndina ef við ætlum að bæta heilsu heillar þjóðar. Hefðbundin lýðheilsuinngrip sem byggjast á upplýsingagjöf (fræðsla og áróður) nýtast fyrst og fremst þeim minnihluta fólks sem hefur gott heilsulæsi. Á sama tíma nýtast svokölluð umhverfisinngrip (s.s. að fækka útsölustöðum áfengis og að setja á sykurskatt) öllum óháð heilsulæsi.

Áhrif streitu

Streita og þreyta hafa áhrif á það hve góðar ákvarðanir við tökum á heilsuvegferð okkar og hvaða vegvísum við veitum athygli. Þegar við erum þreytt og undir álagi reynir heilinn að spara sér orku með því að nota frumstæðari heilastöðvar við ákvarðanatöku. Þessar heilastöðvar eru stundum kallaðar krókódílaheilinn vegna þess að þær líkjast heilastöðvum í skriðdýrum. Þegar við notum þann hluta heilans leiðir það gjarnan til annarrar niðurstöðu en þegar hinn ,,skynsami, upplýsti” hluti heilans (sem situr í framheilanum) er við stjórnvölinn.

Rannsakendurnir Baba Shiv and Alexander Fedorikhin gerðu áhugaverða rannsókn sem sýndi dæmi um þessi áhrif. Þátttakendum í rannsókninni var boðin hressing og máttu þeir velja á milli kökusneiðar og ávaxtasalats. Hjá hluta þátttakenda var búið til álag á úrvinnslugetu heilans með því að biðja þau um að leggja á minnið sjö stafa tölu á meðan þau snæddu hressinguna. Í ljós kom að þegar heilinn var undir slíku álagi voru þátttakendur 50% líklegri til að velja kökusneiðina en þeir sem voru í hvíld.

Vegvísar.JPG

Það getur því verið mikilvægur hluti af heilsueflingu að læra aðferðir til að draga úr og takast á við streitu. Ýmsar leiðir eru til þess svo sem að fara út í göngutúr eða taka sér tíma á hverjum degi til að huga að öndun eða hlusta á slökunaræfingu. Einnig getur verið gott að styðja rökrétta hluta heilans í ,,baráttunni” við krókódílaheilann, svo sem með því að skrifa og fylgja innkaupalista við innkaup þar sem við erum oftar en ekki þreytt og undir margvíslegu álagi þegar haldið er út í búð.

Einnig kemur í ljós að krókódílaheilinn svokallaði reynir gjarnan að stytta sér leið við ákvarðanatöku. Hann leitast til dæmis við að taka ákvarðanir um skammtastærðir með því að miða við þætti í umhverfinu, svo sem stærð og lögun mataríláta. Þannig getum við haft áhrif á heilann án þess að verða þess vör, svo sem með því að nota há og mjó glös fyrir óhollari drykki (til dæmis gosdrykki eða ávaxtasafa) þar sem þau leiða til þess að við drekkum minna en ef glösin eru breið. Einnig er vel þekkt að með því að nota minni diska og önnur matarílát borðum við minna en ef ílátin eru stór.

Læknirinn Susie Pedersen og samstarfsmenn hennar höfðu slíkar niðurstöður í huga þegar þau gerðu rannsókn á meðal hóps fólks með offitu og sykursýki 2. Hluta hópsins voru boðnir nýir og minni diskar sem leiddu til minni matarinntöku. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hópurinn með minni diskana var þrefalt líklegri til að ná þyngdarmarkmiðum sínum og ríflega tvöfalt líklegri til að geta dregið úr notkun sykursýkislyfja. Einfaldlega með því að nota minni diska. Þetta eru góðir vegvísar.

Notkun tækni til að halda okkur á veginum

Þar sem umfang heilsufarsvandans er jafnstórt og áður er rakið þarf að leita allra ráða til hjálpa einstaklingum að haldast á beinu brautinni sem liggur í átt til góðrar heilsu. Nú þegar snjallsímar sitja í flestum vösum opnast fleiri tækifæri en áður hafa boðist. Með slíkri tækni er hægt að bjóða fræðslu, stuðning og þjálfun og verðlauna góðar heilsufarsákvarðanir með því að losa sömu ánægjuvaldandi efni (svo sem dópamín) sem drógu okkur upphaflega af réttri braut.

Tæknin getur þannig leyft okkur að ná meiri árangri og styðja fleiri á sinni heilsuvegferð. Þannig má bæði styðja einstaklinga til betri vegar og hjálpa stjórnendum fyrirtækja og sveitarfélaga að hlúa að heilsu starfsfólks síns, mannauðsins.

Fíll.JPG

Dæmi um slíka notkun á sér stað á meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar. Undanfarið ár hafa yfir 4.000 starfsmenn borgarinnar tekið þátt í margvíslegri heilsueflingu með stuðningi tækninnar. Í endurteknum þriggja vikna heilsuviðburðum er unnið ýmist með næringu, hreyfingu eða geðrækt.

Starfsmenn borgarinnar gerðu samanlagt yfir 500.000 heilsueflandi æfingar á einum slíkum þriggja vikna viðburði. Virkni af þessari stærðargráðu væri erfitt að styðja öðruvísi en með aðstoð tækninnar, nema með miklum tilkostnaði. Starfsmenn fengu á tímabilinu stuðning við að draga úr neyslu á gosi og sælgæti og drógu úr neyslunni um sem nemur samanlagt eitt tonn af sykri á þremur vikum. Einnig gengu þeir vegalengd sem nemur 100 ferðum upp á tind Everestfjalls með því taka stigann í stað lyftu.

Þátttakendum var einnig boðið að meta áhættu sína á sykursýki og öðrum kvillum með aðstoð tækninnar. Þeim sem metnir voru í aukinni áhættu bauðst að taka þátt í 16 vikna lífsstílsþjálfun þar sem þátttakendur voru studdir í gegnum breytingar á mataræði, hreyfingu og streitustjórnun sem geta helmingað þá áhættu.

Niðurlag

Borðum rétt, hreyfum okkur og gætum að streitunni eru allt saman góðir og gildir vegvísar á vegferð okkar til góðrar heilsu. Þeir eru enn betri ef við getum notið ferðalagsins í leiðinni.

Góð heilsa og líðan er undirstaða alls annars í lífinu. Það eru vissulega mörg ljón í veginum til betri heilsu og líðanar og auðvelt getur verið að villast af leið. En ef við leitum eftir réttu vegvísunum og notum ef til vill tæknina til að hjálpa til við leiðsögnina þá er víst að við getum aukið líkurnar á að komast klakklaust á réttan áfangastað og getum jafnvel notið útsýnisins á leiðinni.

Tryggvi Þorgeirsson

Læknir og lýðheilsufræðingur og framkvæmdastjóri SidekickHealth

Nýtt á vefnum