Greinar / 6. júní 2018

Heilsulæsi, heilsuhegðun og lýðheilsumat

Heilsulæsi felst í stórum dráttum í getu einstaklingsins til að nálgast, skilja, og hagnýta sér upplýsingar til að stuðla að góðri heilsu.(1) Í hugtakinu felst meira en að geta lesið bækling, bókað tíma hjá heilbrigðisstarfsmanni, skilja innihaldslýsingar eða fara eftir leiðbeiningum. Heilsulæsi nær út fyrir einstaklinginn og fjölskylduna og á jafnt við um starfsumhverfi, félagslegt umhverfi og þjóðfélagið allt. Allir efnahagslegir, félagslegir og umhverfislegir þættir eru undir, og það þýðir að ábyrgðin á heilsulæsi og heilsuhegðun er ekki aðeins einstaklingsins sjálfs heldur samfélagsins alls.

Ábyrgð einstaklingsins felst í að skilja og vera meðvitaður um hvað hefur góð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Sá sem er læs á eigin heilbrigði veit hvað hefur góð áhrif á heilsuna og getur lesið í ýmislegt sem á vegi hans verður og greint á milli þess sem er hollt og hins sem raskar ró hans líkamlega eða andlega. Heilsulæsi byggist þannig á því að skilja, ráða við og sjá tilganginn með hlutunum og hvernig þeir tengjast vellíðan. Með því að horfa á atburði hversdagslífsins með gleraugum heilbrigðisins höfum við skarpari sýn á leiðirnar til heilbrigðis.(2)

Ábyrgð fyrirtækja og félagasamtaka felst ekki síst í að styðja undir heilsuhegðun einstaklinga með ýmsu móti, sama hvort það er að hafa læsta hjólageymslu á vinnustaðnum, setja yfirbyggð kerruskýli við leikskólana, leggja göngustíga, fjarlægja sælgætissjálfsala úr íþróttamiðstöðvum og hætta að nefna íþróttamót eftir gosi og skyndibitum.

Ábyrgð heilbrigðiskerfisins kristallast í að efla stöðu forvarna. Skoða mætti hvort heimila ætti Sjúkratryggingum Íslands að verja fé til beinna forvarna á annan hátt en einungis gegnum heilsugæsluna. Sem dæmi má nefna lýðheilsuverkefnið SÍBS Líf og heilsa þar sem farið er um landið og almenningi boðin ókeypis mæling á blóðþrýstingi, blóðfitu og fleiri gildum. Markmið í starfsáætlun Embættis landlæknis 2017–2018 við að koma á lýðheilsumati er einnig gott dæmi um þetta.

Ábyrgð stjórnvalda hlýtur að teljast að gera lýðheilsu að föstum hluta stjórnsýslunnar. Góð leið til þess er einmitt að koma á formlegu ferli um lýðheilsumat. Þegar er fyrir hendi í lögum um mat á umhverfisáhrifum skilgreining á umhverfi sem innifelur samfélag, heilbrigði og atvinnu engu síður en landslag og lífríki. Að koma á lýðheilsumati er í senn einföld og áhrifarík aðgerð.

Í Lýðheilsustefnu velferðarráðuneytisins frá 2016 kemur fram að Embætti landlæknis muni þróa og staðfæra lýðheilsumat fyrir Ísland um ferli til að leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetningar á lýðheilsu.(3) Reyndar er brýnt að slík kvöð um lýðheilsumat nái út fyrir stjórnsýsluna og löggjafann, og taki einnig til meiri háttar aðgerða lögaðila og einstaklinga sem líkleg eru til að hafa áhrif á lýðheilsu, rétt eins og hefðbundið umhverfismat. Lýðheilsumat má jafnvel fella undir og gera hluta af umhverfismati og samnýta þannig þau ferli og stofnanir sem fyrir eru.

Glötuð góð æviár vegna sjúkdómsbyrði Íslendinga voru tæplega 72 þúsund árið 2016.(4) Miðað við 7,3 milljón króna landsframleiðslu á mann sama ár, nemur samfélagslegur kostnaður vegna sjúkdómsbyrði meira en 500 milljörðum króna á ári, fyrir utan þann mannlega harmleik sem liggur þar að baki. Efling heilsulæsis og heilsuhegðunar er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Heimildir
  1. Nutbeam, Don. 1998. „Health promotion glossary.“ Health Promotion International, 13 (4): 349-364. doi:10.1093/heapro/13.4.349.
  2. Sigrún Gunnarsdóttir. 2002. „Að lesa í eigin heilbrigði – heilsulæsi“. Morgunblaðið, 23. nóvember 2002.
  3. Velferðarráðuneytið. 2016. Lýðheilsustefna og aðgerðaráætlun sem stuðlar að heilsueflandi samfélagi. Velferðarráðuneytið.
  4. Global Burden of Disease Collaborative Network 2017. Global Burden of Disease Study 2016 (GBD 2016) Results. Institute for
  5. Health Metrics and Evaluation (IHME). Sótt 8. júní 2018 á http://ghdx.healthdata.org/gbd-results-tool.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum