Greinar / 27. febrúar 2019

Fornmaðurinn mætir nútímanum

Líffræðileg hönnun nútímamannsins er um 200 þúsund ára gömul og þegar fyrir 50 þúsund árum hafði homo sapiens þróað með sér alla helstu atferlisþætti nútímamannsins svo sem tungumál, listir, óhlutlæga hugsun og flókna áætlanagerð.1

Þar til fyrir 10 þúsund árum lifði fólk í veiðimanna og safnarasamfélögum sem aðeins innihéldu nokkra tugi einstaklinga en næstu árþúsundin þar á eftir gerði fyrsta landbúnaðarbyltingin það að verkum að það tóku að myndast stærri samfélög og þorp.2

Breski mannfræðingurinn Robert Dunbar hefur áætlað að mannskepnan geti ekki með góðu móti viðhaldið persónulegum tengslum við meira en um 150 einstaklinga „sem þér þætti ekki óviðeigandi að setjast niður með yfir drykk er þú rækist á þá á bar“ eins og hann orðar það.3

Setjum þessar tölur í samhengi við nútímann: Okkar 200.000 ára gamla líffræði og okkar 50.000 ára gamla hugsun þarf skyndilega síðustu áratugina að vinna úr miklu hraðara upplýsingaflæði en nokkru sinni fyrr. Okkar 150 manna persónulega og hægvirka tengslanet hefur stökkbreyst yfir í lausbeislað augnablikssamband við mörg hundruð einstaklinga sem við hittum fæsta augliti til auglitis. Okkar takmarkaða geta þynnist út þegar áreitið eykst með veldisvexti.

Í verstu tilfellum verður fleira undan að láta en athygli og skilningur. Ýmislegt bendir til að ný gerð örorku geti átt rætur að rekja til skjánotkunar: „Hikikomori“- fyrirbærið sem er skilgreint af japanska atvinnu- og velferðarráðneytinu einkennist af óeðlilegri félagsfælni án greinanlegra líkamlegra eða sálrænna sjúkdómsþátta. Í Japan er hálf milljón manna „úr leik“ í samfélaginu vegna þessa.4

Auðvitað er vandséð hvernig lifa megi nútímalífi án skjáa eins og tæknin er í dag, enda sem betur fer engin ástæða til ef rétt er á haldið. Til að komast á sporið er hjálplegt að hætta að einblína á skjánotkunina sjálfa heldur miklu frekar á það sem skjánotkunin ryður burt í krafti þess mikla tíma sem skjávistin tekur frá öðrum þáttum í lífinu: „Skjátími ryður burtu lykilþáttum í heilaþroska: tengslamyndun, hreyfingu, augnsambandi, samtali augliti til auglits, snertingu, íþróttaiðkun, frjálsum leik og tengslum við náttúruna. Minni snerting við þessa þætti hafa neikvæð áhrif á heilaþroska, greind og viðnámsþrótt hjá öllum börnum.“5

En hvernig eigum við að bera okkur að í aðstæðum nútímasamfélagsins þar sem tæknin og hraðinn tekst á við okkar 200.000 ára gömlu hönnun og takmörkuðu getu? Björn Hjálmarsson sérfræðilæknir tekur saman góð ráð í fyrirlestri sínum frá 20176 : Stingdu upp á annarri virkni eins og fjölskylduspili, púsli eða gönguferðum. Haltu skrá yfir það hvað skjátími er langur og vertu líkamlega virk/ur í jafnlangan tíma á móti. Vertu góð fyrirmynd sem foreldri: Dragðu úr eigin skjátíma og takmarkaðu við 2 klst. á dag. Ef það er erfitt að slökkva á sjónvarpinu settu þá á stillingu sem slekkur á sjónvarpinu sjálfvirkt. Settu fjölskyldunni markmið að hafa slökkt á sjónvarpinu í viku eða sleppa rafrænum skjátíma. Finndu þér viðfangsefni sem felast í hreyfingu og líkamsþjálfun.

Pössum að skjátíminn skerði ekki svefn, hreyfingu og félagsleg samskipti. Framtíðin er björt, gangi okkur vel!

Heimildir
  1. Petragila, M. D. og Korisettar, R. (1998). Early Human Behavior in Global Context. London: Routledge.
  2. Bocquet-Appel J. P. (2011). When the World’s Population Took Off: The Springboard of the Neolithic Demographic Transition. Science 333. tbl., bls. 560–561. Sótt 17. febrúar 2019 af http://science.sciencemag.org/ content/333/6042/560.full
  3. Purves, Dale. (2008). Principles of Cognitive Neuroscience. Massachusetts: Sunderland.
  4. Tokyo: Ministry of Health, Labor and Welfare. (2003). Shakaiteki Hikikomori Wo Meguru Tiiki Seisin Hoken Katudou No Guide-line [Guideline on Mental Health Activities in Communities for Social Withdrawal]. Itou, J.
  5. Dunckley, V. L. (2016, 31. desember). Autism and Screen Time: Special Brains, Special Risks. Psychology Today. Sótt 17. febrúar 2019 af https://www.psychologytoday.com/intl/blog/mental-wealth/201612/autism-and-screentime-special-brains-special-risks
  6. Björn Hjálmarsson. (13. jan. 2017). Rafrænt skjáheilkenni – staðreynd eða mýta? Erindi flutt á ráðstefnu Barna- og unglingageðdeildar Landspítala. http://barnaspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/Klinisk-svid-og-deildir/ Kvenna--og-barnasvid/Gogn-fyrir-radstefnur/Hinn-gullni-medalvegur-Fyrirlestrar-2017/bjorn-hjalmarsson.pdf

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum