Greinar / 16. febrúar 2021

Fjórðungi bregður til fósturs

Forvarnir í heilbrigðismálum eiga sér stað á mörgum stigum sem öll eiga það sameiginlegt að geta dregið úr sjúkdómsbyrðinni á síðari stigum og margborgað sig samfélagslega með því að draga úr þörf á dýrari úrræðum síðar.

Hefðbundin þriggja þrepa skipting forvarnahugtaksins í að koma í veg fyrir skaða, að stöðva skaða, og vinda ofan af skaða taka á sig margar myndir. Nærtækt dæmi um forvörn á fyrsta stigi eru bólusetningar en einnig fræðsla um heilbrigða lifnaðarhætti. Forvörn á öðru stigi getur til dæmis falist í notkun blóðþrýstingslyfja eða í skimunum fyrir sjúkdómum. Forvörn á þriðja stigi felst í meðhöndlun á afleiðingum sjúkdóma eða áverka, líkamlegra jafnt og sálrænna.

Minna hefur farið fyrir frumforvörnum (e. primal prevention) í umræðunni, jafnvel einnig meðal fagfólks. Í frumforvörnum felst að freista þess að koma í veg fyrir að sjálfir áhættuþættirnir nái að grafa um sig þegar á unga aldri. Frumforvarnir byggja á rannsóknum sem sýnt hafa fram á afdrifarík áhrif vanvirkra aðstæðna barna og ungmenna á allt þeirra líf upp frá því. Slíkt inngrip getur jafnvel beinst að því að hjálpa verðandi foreldrum við að búa barni sínu nærandi og styðjandi umhverfi og fylgja því eftir út bernskuna.

Vanræksla og ofbeldi hafa augljós áhrif á börn sem ekki hafa þroska til að leysa úr slíkum málum sjálf. Jafnvel það að fela barni verkefni eða ábyrgð umfram getu og þroska getur valdið því að barnið þrói með sér barnslega ófullkomnar aðferðir til að olnboga sig fram úr hlutunum á eigin spýtur sem þau taka með sér út í fullorðinsárin. Á hinum enda kvarðans kann það að koma á óvart að of mikil umsjónarmennska getur líka verið slæm ef hún rænir barnið möguleikum sínum á að læra að leysa úr málunum sjálft eins og þroski þess og aldur leyfa. Við getum í besta falli endað í vítahring meðvirkninnar sem hefur þann leiða eiginleika að erfast auðveldlega milli kynslóða en í versta falli í stórlega skaddaðri sjálfsmynd og margvíslegri áhættuhegðun.

Ósagt skal látið hvort minna eða meira en fjórðungi af breytileika í heilsufari og heilsutengdu atferli á fullorðinsárum skýrist af umhverfisþáttum í bernsku. Það er hins vegar öruggt að á þessum viðkvæmu mótunarárum festist í sessi atferli, viðmið og gildi sem hafa áhrif ævina út. Áföll eða vanvirkt uppvaxtarumhverfi getur svo bætt gráu ofan á svart – eða öllu heldur svörtu ofan á grátt – og beinlínis verið valdur að langvinnum sjúkdómum sem hefði mátt draga úr með snemmbærum inngripum.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum