Greinar / 7. febrúar 2023

Endurheimt þorpsins

Áður fyrr lifðu kynslóðirnar og hrærðust undir sama þaki frá vöggu til grafar, og á stærri skala í þorpum þar sem vinna og bjargráð voru innan heimilisins eða í göngufæri, andstætt því sem er meginreglan á okkar dögum. „Endurheimt þorpsins“ mun hér reifuð út frá sjónarhóli og reynslu starfandi arkitekts. Birtingarmynd hýbýlaakitektúrs og skipulags sem miðar að félagslegri blöndun er andsvar við vandamálum sem komið hafa upp vegna síðari tíma þróunar vestrænna samfélaga. Hér mun reifað hvað kallar á endurskoðun og jafnvel afturhvarf, hvernig megi ímynda sér nýjar leiðir, vikið að ljónum á veginum og bent á lausnir til úrbóta. Fyrst nokkur orð um pólitíska vídd arkitektúrs og skipulags:

Arkitektúr breytir heiminum

Þegar kemur að íbúðarhúsnæði er oft er litið til arkitektúrs sem lúxus fyrir fólk með mikið fé á milli handanna, hálfgerðan óþarfa sem er fallinn til að skreyta sig með hafi maður efni á því. Það sem færri gera sér ljóst er að arkitektar hafa menntun í að gera sem mest úr litlu. Þeir hafa þjálfun í greina samfélagsleg vandamál og finna leiðir til að bregðast við og færa til betri vegar með nýju skipulagi og arkitektúr. Í þessu ljósi mætti jafnvel halda því fram að þjóðfélagið hafi ekki efni á því að láta hjá líða að láta arkitekta skraddarasníða sem besta umgjörð fyrir það samfélag sem við óskum okkur. Ef við viljum þjóðfélag þar sem veldi sumra er meira á kostnað annarra getum við hannað umhverfið samkvæmt því, en viljum við jöfnuð getur umhverfið gert öllum í borginni og á heimilinu jafn hátt undir höfði.

Mynd 1.jpg

Hugmyndir að baki arkitektúrs og skipulags tengjast náið heilsufari. Í arkitektúr módernismans skyldi alls ekki viðhafa skreyti og útflúr því það safnaði óheilsusamlegum skít og ryki. Góð birtuskilyrði í rýmum þar sem heilnæmt lofti streymdi í gegn stuðlaði hins vegar að góðri heilsu. Borgarskipulag sem fag fékk byr undir báða vængi í þeirri viðleitni að uppræta pestir í óheilnæmu þéttbýli sem hafði byggst upp á methraða kringum nýja vélmenningu knúna kolum á seinni hluta 19. aldar. Þannig er arkitektúr og skipulag hápólitískt og hönnuðurinn sem heldur á blýantinum leggur línur að umgjörð fyrir lífið í framtíðinni. Kerfi heimsins eru ekkert að sækjast sérstaklega eftir þjónustunni, enda auðveldast að leyfa þeim sem eru í byggingarbransanum nú þegar að byggja bara það sama og í fyrra. Í fræðunum hefur því orðið til stöðugt öflugra ákall eftir að hönnun lúti ekki bara að formun umhverfisins, heldur þurfi líka að endurhanna kerfin sjálf, til að hönnunarfög nýtist sem skyldi til að kljást við áríðandi úrlausnarefni hamfarahlýnunar, og útrýmingu tegunda.

Hönnunarsérgreinar sem hafa sprottið upp úr þessum jarðvegi eru til dæmis þjónustuhönnun sem gerir þjónustu skilvirkari. Hugmyndir eru sóttar til þeirra sem nota þjónustuna og hafa besta þekkingu á hvað virkar og hvað ekki. Hingað til hafa arkitektar og skipulagsfólk tekið þátt í sérstökum arkitekta- og skipulagssamkeppnum til að vinna að nýskapandi lausnum og skapa myndefni til að fá til umræðu framtíðarsýnir sem enginn vissi að væru einu sinni til. Þá er bakgrunnur, næmi og framsýni dómnefndar undir hælinn lagt og óvíst að góðar tillögur fái brautargengi. En næst nokkur orð um upptaktinn að vandamálunum sem kalla á endurheimt þorpsins.

Litlir kassar

Svæðaskipting í skipulagsmálum (zoning) fór á flug eftir iðnbyltingu 18. aldar þegar aðkallandi varð að skilja menguð svæði frá hreinum. Samfara því að einkabílar urðu almannaeign eftir miðbik 20. aldar komu fram hugmyndir í skipulagi borga sem hófu skiptingu svæða í æðra veldi. Aðskilja skyldi ólíka starfsemi hverja í sitt hverfi, (með dágóðu millibili á Íslandi) og svo skyldi aka á milli, til vinnu, til að sækja þjónustu, til að fara heim að sofa – í iðnaðarhverfi, íbúðarhverfi og þar fram eftir götunum. Sumir hönnuðir bentu á vandamál sem þetta gæti skapað: Umferðarþunga, tímasóun, sóun á landrými, mengun og þess háttar, en ráðamenn hrifust og sú hápólitíska ákvörðun var víðast tekin að leggja þetta nýja fyrirkomulagi í formlegt lögbundið skipulag.

Mynd2.jpg

Í Reykjavík skildi þetta eftir sig íbúðabyggð uppi á hæðunum í kringum Reykjavík á sjöunda áratugnum, Árbæ og Breiðholt. Eftir fylgdu nágrannasveitarfélögin sem byggðu stór íbúðahverfi fjarri kjarna Reykjavíkur. Íbúðarhverfum var skipt innbyrðis í ólík svæði sem þóttu passa fyrir ólíka íbúa, blokka-, raðhúsa- og einbýlishúsahverfi. Þetta gerði stétt og stöðu augljósa, allt skyldi inn í sinn kassann hvert. Sama var uppi á teningnum í þorpum víðs vegar, allt til Raufarhafnar. Reist var ný íbúðabyggð sem teygði sig út úr bænum, svefnhverfi sem ekki voru samofin lífi og starfi eldri miðbæjarkjarna, sem gjarna var að finna við hafnir þar sem vinnan og lífið var. Á þessum tíma var þorri kvenna heima, og unnu húsmæður með stolti við að sjá um börn og hýbýli kjarnafjölskyldunnar, sem þær skyldu sjæna með hjálp nýfenginnar ryksugunnar. Skipulag innanstokks dró dám af hólfaskiptingunni samkvæmt nytjastefnunni (functionalism). Ólík rými voru skraddarasniðin að mismunandi þörfum; barnaherbergi (lítil), hjónaherbergi (stærra) og stofa (enn stærri) og svo framvegis, eldhúsið þannig að húsmóðirin gæti náð í allt þar sem hún stóð á sama punktinum.

Upp úr þessu fóru konur í vaxandi mæli út á vinnumarkaðinn, með tilheyrandi þörf fyrir enn fleiri bíla. Ekki varð sama þörf fyrir hverfisverslanir en fólk var á ferð og flugi í bílunum sínum til og frá vinnu og upplagt að koma við í stórverslun á leiðinni heim. Þetta fór saman við hag verslunareigenda sem gátu stækkað umsvif og sparað um leið kostnað við þjónustu í hverfunum, sem þóttu smám saman dreifðari en svo að borgaði sig að halda þar uppi heilli búð. Sérstökum verslunarmiðstöðvum og verslunarhverfum óx fiskur um hrygg, úr göngufæri fyrir gangandi vegfarendur. Hólfaskipting borgarlandslagsins endurspeglaðist í velferðarkerfi í rífandi þróun, þar sem einstaklingar og þarfir þeirra voru skráð í viðeigandi box til yfirsýnar og til hagræðingar. Hverfin tengdust svo með hraðbrautum sem vefjast saman í slaufum svo ekki þurfi að stöðva bílana sem flytja fólkið heim í hvaða botnlanga sem er.

Einsleitni - fjölbreytni

Íbúðagerðir hafa lítið breyst frá því úthverfin byrjuðu að byggjast upp nema ef vera skyldi að eldhúsið er farið fram í stofu þar sem komið hefur verið fyrir aðstöðu sæmandi hvaða sjónvarpskokki sem er, og gamla eldhúsið er orðið að pínulitlu barnaherbergi. (Eins og allir vita er samhengi milli verðs íbúðarhúsnæðis og fjölda svefnherbergja þannig að þetta hefur sennilega stuðlað að óþarfa hækkun íbúðaverðs). Fjölskyldur eru af ólíkri gerð, stærð og samsetningu. Framboð búsetukosta ætti auðvitað að endurspegla þetta en gerir það engan veginn í einsleitni sinni. Lýðfræðin bendir til að gagn gerrar endurskoðunar og umbreytinga sé þörf.

Samkvæmt líffræðinni eru vistkerfi því lífvænlegri því fjölbreytilegri sem þau eru. Bestu dæmin um þetta eru regnskógarnir þar sem allt nýtist og allt hefur hlutverk í flóknu samspili dýra og plantna. Þegar þetta er yfirfært á borgarskipulag býr borgin yfir vistkerfi sem er því betra, áhugaverðara og seigara því meiri sem fjölbreyttnin er. Einsleitnin sem felst í hólfaskiptingu skipulagsins, og hin einsleita íbúðagerð sem tröllríður öllu er í hrópandi andstöðu.

Mjög stækkandi hópur sem þarf að huga sérstaklega að þegar íbúðarhúsnæði er annars vegar eru þeir sem búa einir, og það ekki alltaf sjálfviljugir. Meðal þessara er eldra fólk sem oft dagar uppi aleitt í allt of stóru og óhentugu húsnæði eftir fráfall maka, húsnæði sem betur nýttist fyrir aðra tegund fjölskyldna. Eldri kynslóðin stækkar hlutfallslega mest þannig að færri hendur verða til að sinna eldra fólki inni á stofnunum í framtíðinni. Ekki bætir bílamenning hólfaskiptingarinnar úr skák. Hún hraðar hrörnun og eykur á líffræðilegan aldur líkamanna, sem ekki fá hreyfingu sitjandi í bíl langtímum saman, oft í þeim tilgangi einum að reyna að hitta annað fólk með tilheyrandi mengun og útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

„Einbúar“ eiga sér oft einskis annars úrkosta en að koma sér í litlar íbúðir sem oft hafa hæsta fermetraverð sem til er. Bjóða þarf upp á aðrar tegundir íbúða en þeirra sem sérhannaðar eru fyrir kjarnafjölskylduna eins og hún var fyrir hálfri öld. Ef mannfólkið er félagsverur, er mikilvægt að útbúa önnur búsetuform þar sem gert er ráð fyrir félagsskap, bæði hvað varðar skipulagðar samkomur og óformlegri mannamót fólks sem ekki er í sömu fjölskyldu. Þetta mun geta spornað gegn einmanaleika þeirra sem búa einir og þannig haft góð áhrif á andlega heilsu. Margir aðrir geta grætt á félagsskap, eins og innflytjendur, ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum og einstæðir foreldrar sem oft eru einbúar hluta tímans. Auðveldara að aðstoða aðra og fá aðstoð ef nauðsyn krefur þegar nábýlið er þéttara. Þetta er dáldið eins og velferðarkerfi án skatta þar sem maður gefur þegar maður getur og fær það sem maður þarf, á nútímamáli kallað deilihagkerfi.

Deilihagkerfi húsnæðis

Því fjölbreyttara mannlífi sem hægt er að gera ráð fyrir á takmörkuðu plássi, í byggingu og/eða í þorpi undirbyggir að deilihagkerfi megi blómstra, alveg eins og í flóknum vistkerfum regnskóganna. Það má láta sig dreyma um ný hverfi þar sem allt sem maður þarf er við höndina, án þess að fólk þurfi að setjast upp í bíl – bara eins og í litlum þorpum og í miðbæ Reykjavíkur og breytingar á eldri hverfum í þá átt. Ólíkar tegundir íbúða geta þá deilt fleiri sameiginlegum rýmum til dæmis gestaherbergi, eldhúsi, setustofu, gróðurhúsi, skrifstofuaðstöðu, verkstæði eða þvottahúsi. Þetta væri góð viðbót við einkarýmið sem þarf þá ekki að vera eins stórt og dýrt. Samvinna þar sem íbúar leggja af mörkum vinnu við að koma hentugu húsnæði í stand, stuðlar að kynnum og félagsskap og lækkar húsnæðiskostnað. Þetta var algengt hér áður fyrr og þeirri hefð hefur verið haldið við á stöku stað, til dæmis undir stjórn borgaryfirvalda í Stavangri í Noregi (Stavanger Eiendom).

Vandfundin eru dæmi um óhefðbundna búsetukosti hér á landi. Þó má nefna sigurtillöguna „HOT HOUSE“ í Europan - samkeppni ungra arkitekta sem fæst við nýsköpun í híbýlagerð og skipulagi í samvinnu við evrópsk sveitarfélög - en undirrituð var íslenskur höfundur HOT HOUSE, ásamt hinni norsku Kjersti Hembre. Sem ungar athafnakonur með börn reyndum við að gera okkur í hugarlund hvernig við sjálfar gætum hugsað okkur að búa til að létta lífið og gera það skemmtilegra. HOT HOUSE voru eins og lýsandi luktir sem drógu að sér fólk sem vildi tengja við íbúðir af ólíkri stærð fyrir ólíkar fjölskyldugerðir. Þannig varð HOT HOUSE sameiginlegt gróðurhús - rými sem flutti landamæri. Hér gæti blómstrað fjölbreytt lífríki manna og annarra lífvera sem ekki myndi þrífast annars staðar. Hér skyldi kalla fram hið gamalkunna þorp þar sem maður væri manns gaman í heilsusamlegum gönguradíus. Uppröðun, tenging, stærð og formun rýma væri þannig að ólíkar fjölskyldueiningar gætu búið saman án þess að fólk træði hvert öðru um tær. Börn þyrftu ekki að flytja þótt foreldrar skildu og hægt væri að gera stórfjölskyldum kleift að búa saman. Fjölskyldubönd stuðla að ósk eftir samveru, en einnig geta ýmis áhugamál eða samhygð meðal líkra fært fólk nær hvert öðru í raunheimum, til dæmis í HOT HOUSE, og þá væri bara að tengja og njóta! Einfaldlega væri hægt að loka með hlerum milli einkarýmisins og HOT HOUSE til að vera út af fyrir sig, og sérinngangur væri annars staðar í sér rými.

Mynd3.jpg

Tengsl eru langmikilvægasti þátturinn sem stuðlar að hamingju, samkvæmt sérfræðingi landlæknisembættisins. Í HOT HOUSE gætu ný tengsl myndast og nýjar og góðar hugmyndir gætu fæðst í samneyti fjölbreytts hóps á ýmsum aldri og með ólíkan bakgrunn. Fólk finnur til öryggis við að geta reitt sig á samhjálp. Ennfremur er ótvíræður kostur að hafa aðgang að stærra húsnæði þegar þörf krefur. Hér væri hægt að rækta fjölskrúðugan gróður inni og úti, ætigarða þar sem hægt væri að sækja sér mat í gogginn. Ræktun matar gæti líka fækkað bílferðum í stórmarkaði og lagt grunn að grænmetismörkuðum í nærumhverfinu.

Ljón í vegi

Það sem verktakar og byggingafélög bera fyrir sig þegar svona hugmyndir ber á góma, er að það sé of áhættusamt að byggja eitthvað annað en það sem seldist í fyrra. Fasteignasalar eru því fengnir til að leggja línurnar að framtíðarbyggð á meðan sérþekking arkitekta og skipulagsfrömuða er að sama skapi vannýtt. Fasteignasalarnir upplýsa að fólk vilji vera sér og út af fyrir sig, hafa sérinngang, sér útisvæði, sér-hitt og sér-þetta, og að sameign bjóði upp á vandræði og rifrildi. Þetta má til sanns vegar færa, því snertingin sem nauðsynleg er til að skapa tengslin sem við þurfum þó svo sárlega á að halda og veita okkur öryggi, getur leitt af sér sársaukafullan núning ef ekki er gætt alúðar í formun húsnæðisins og gæðum samtalsins. Hlutfall sameignar er iðulega ágreiningsatriði í hönnun fjölbýlishúsa, þar sem sameiginleg anddyri verða til dæmis æ minni og meira óaðlaðandi þegar líður á hönnunarferlið vegna þrýstings byggingaraðila sem heimtar að minnka sameignina eins og hægt er til að spara kostnað. Þetta er að sjálfsögðu á kostnað hins góða samtals milli nágranna þegar þeir hittast óvart í anddyrinu á ferðum sínum.

Spurningin er hvort tregðan til að leggja í svona verkefni sé fyrirsláttur og raunverulega áhyggjuefnið sé að erfiðara sé fyrir byggingaraðila að maka krókinn á svona lausnum? Færri einkafermetrar verða eftir til að selja þegar gert er ráð fyrir sameiginlegum rýmum, en álagning eykst í hlutfalli við fjölda einkafermetra sem hægt er að selja. Vandamálið er að allt fjölbýli er nú á tímum framleitt eins og hver önnur neysluvara. Auðvitað er sjálfsagt að fólk lífnæri sig á byggingavinnu, en hvers vegna eiga einhverjir aðrir en íbúar að græða á íbúðarhúsnæði - stærstu fjárfestingu í lífi flestra? Þetta er pólitísk spurning, sem ráðamenn geta haft áhrif á með stefnumótun.

Endurheimt þorpsins

Deilihagkerfi íbúðarhúsnæðis býður upp á nánd og samkennd. Það er bókstaflega hægt að græða býsna mikið á því að deila því notagildið er hátt en kostnaður deilist á fleiri. Margar góðar fyrirmyndir eru erlendis þar sem íbúar róma mjög kosti þessa.

Í tilefni þess að HOT HOUSE liggur enn ofan í skúffu og bíður þess að vera byggt 20 árum eftir sigurinn í Europan leyfir undirrituð sér að bera fram hugmyndir um atriði sem gætu stuðlað að endurheimt þorpsins og betri líkamlegri og andlegri heilsu:

  • Upplýsa þarf almenning um möguleika á deilihúsnæði og greina þarf eftirspurn.
  • Ágóðann í framleiðslu íbúðarhúsnæðis sem neysluvöru þarf að gera sýnilegan, en til þess þarf hið opinbera að stuðla að framleiðslukostum húsnæðis til samanburðar.
  • Viðhorf til sameignar og þátttaka í deilihagkerfi er uppeldisatriði sem þarf að vinna með frá blautu barnsbeini gegnum skólakerfið, því eldri kynslóðin er of lituð af samfélaginu sem hún ólst upp í til að geta miðlað kunnáttu um þetta til barna sinna.
  • Yfirvöld verða að sjá til þess að skipulag hafi nægilegan sveigjanleika og hvata til fjölbreytts og margbreytilegs íbúðarhúsnæðis og hverfa með blandaða starfsemi.
  • Fólk þarf ekki að sætta sig við hið lélega úrval hverfa og íbúða á húsnæðismarkaðinum. Það verður sjálft að láta í sér heyra og kalla eftir hentugra húsnæði og breyttu hverfi.
  • Þess eru dæmi í útlöndum að þeir sem standa að byggingum með mikið sameiginlegt rými bjóði upp á námskeið sem fer yfir það sem þarf að læra varðandi búsetukostinn. Þetta er líka frábær leið til að kortleggja, kynna og efla áhugann um frábæra framtíðarmöguleika.

Benda má á einstaklingar og hópar geta leitað beint til arkitekta til að hafa samvinnu um sérhönnun á óhefðbundnum búsetukosti, og arkitektinn getur verið innan handar við að halda utan um ferlið. Þetta getur gefið fólki sjálfu stjórn og völd yfir því hvernig þau vilji haga búsetu sinni, og það án þess að einhverjir aðrir en íbúarnir komist upp með óhóflega og óþarfa verðálagningu á þessa stóru fjárfestingu í lífinu.

Heimildir
  • Mannfjöldaspá 2017-2066 (hagstofa.is).
  • „Ef við tökum eitt skref í einu, einn dag í einu, þá held ég að við getum öll átt gott líf“ - RÚV.is (ruv.is).

Arna Mathiesen

Dósent í arkitektúr við Listaháskóla Íslands og faglegur stjórnandi Apríl Arkitekta

Nýtt á vefnum