Greinar / 18. október 2021

Endurhæfing fyrir fólk með starfræna hreyfiröskun

Heilinn, stjórnstöðin okkar, er magnaður. Heilinn og taugakerfið er samsett úr billjónum taugafruma sem mynda net um líkamann. Heilinn stjórnar hugsunum, minni, tilfinningum, hreyfingum og skynjun, sjón, öndun, hitastigi og hungri. Saman mynda heilinn og taugar líkamans stjórnkerfi sem er aðlögunarhæft gagnvart áreiti og umhverfi. Starf þessa kerfis hefur líka áhrif á önnur kerfi líkamans svo sem hormónakerfið.

Sjálfvirk kerfi líkamans

210920 - SÍBS blaðið - Gildi endurhæfingar - Sif Gylfa - mynd - Siglufjörður.jpg

Í hversdagsleikanum þá veltum við ekki fyrir okkur hvernig ólík kerfi líkamans virka svo sem hvernig hjartað slær, blóðið flæðir um æðarnar, hvar maturinn er sogaður upp í meltingarveginum, hvernig við öndum eða berum fyrir okkur fæturna þegar við göngum. Ef við þyrftum meðvitað að stjórna allri starfsemi líkamans þá myndum við fljótt gefast upp. Sem betur fer höfum við sjálfvirka taugakerfið sem leysir okkur frá því að þurfa að huga að allri virkni líkamans.

Hér er einfalt dæmi: Ef við þyrftum meðvitað að stýra því magni af krafti sem við beinum í hvern einasta vöðva þegar við stöndum upp úr stól með súpuskál í höndunum, þá er viðbúið að markmiði okkar yrði seint náð - að standa upp án þess að hella yfir okkur. Það flæði sem fæst í hreyfingum er að hluta til fyrirfram ákvarðað og án þess að við stjórnum því meðvitað. Þannig er það með flest önnur kerfi líkamans, þau eru ekki háð meðvitaðri stjórn okkar, heldur starfa þau að miklu leyti sjálfvirkt. Þroski, þjálfun og umhverfi hefur hins vegar mikil áhrif á starfsemi kerfanna.

Starfsemi líkamans getur raskast án þess að um skaða eða skemmd á líffærum eða líffærakerfum sé að ræða. Hefðbundin læknisfræðileg skoðun og rannsóknir svo sem blóðprufur og myndgreiningar ná ekki að skýra truflunina eða einkennin sem koma fram. Einkennin geta samt sem áður verið mjög óþægileg, hamlandi og jafnvel ógnvekjandi. Orsökin fyrir röskun á starfsemi líkamans er óljós en þekking á eðli einkennanna og leiðum til bata hefur aukist til muna síðastliðin 15 ár.

Starfrænar hreyfiraskanir

Í þessum pistli mínum geri ég tilraun til að útskýra eðli starfrænna hreyfiraskana og gildi endurhæfingar fyrir einstaklinga sem glíma við slíkan vanda. Sérþekking á vanda þessa fólks og leiðum til bata og bættra lífsgæða hefur byggst upp á Reykjalundi á löngum tíma þar sem fagfólk hefur lagt sig fram við að afla sér þekkingar til að geta veitt árangursríka þjónustu.

Starfræn hreyfiröskun er algengt vandamál en fjöldi þeirra sem greinast á hverju ári er að minnsta kosti svipaður ef ekki meiri en fjöldi þeirra sem greinast árlega með MS sjúkdóm. Röskunin er algengari hjá konum en körlum en kynjamunur jafnast út með auknum aldri. Starfræn hreyfiröskun finnst hjá fólki á öllum aldri en er sjaldan viðvarandi vandi hjá börnum undir 10 ára. Einkenni starfrænnar hreyfiröskunar geta til dæmis verið göngulagstruflun, jafnvægisskerðing, máttminnkun, skyntruflun, kippir, og/eða rykkir samhliða almennum einkennum eins og þreytu og verkjum. Greiningin getur oft verið erfið en taugasérfræðingar og sérfræðingar um starfræn einkenni eru þeir sem greina vandamálið. Hreyfiröskunin er ólík á milli einstaklinga en á það gjarnan sammerkt að einkennin versna þegar athygli er beint að þeim, en minnka þegar athygli beinist frá þeim.

Við klíníska skoðun kemur fram ósamræmi í hreyfivirkni og breytileiki er í hreyfigetu eftir athöfnum og aðstæðum. Þrátt fyrir að skoðun á starfsemi tauga og vöðva sé án athugasemda þá samræmast trufluð hreyfimynstur ekki eðlilegri taugalífeðlisfræðilegri starfsemi líkamans. Til dæmis getur einstaklingur átt mjög erfitt með að rétta úr hnénu við skoðun, átt erfitt með að ganga á jafnsléttu en getur átt auðveldara með að hlaupa, ganga afturábak eða ganga stiga. Það er mikilvægt að einstaklingurinn og þeir sem standa honum næst átti sig á því að ekki er um ímyndun eða uppgerð að ræða heldur truflun á hreyfistjórn. Einkennin geta verið bundin við einn útlim, hluta af útlim eða andliti eða náð yfir allan líkamann. Áhrifin á einstaklinginn eru því mismunandi, allt frá því að geta ekki framkvæmt einstaka athöfn til dæmis að skrifa með penna, tala eða ganga óstuddur, í það að geta ekki staðið undir sér eða séð um sig sjálfa(n). Einkennin geta verið breytileg innan sama dags og milli daga.

Orsakir starfrænna hreyfiraskana

Þær eru ekki þekktar en þó er hægt að segja með vissu að fjórir meginþættir móta tilurð vandans og einkennamyndina. Þekking á þessum fjórum meginþáttum hjálpar til við að skilja og vinna með vandann. Þættirnir eru í grófum dráttum eftirfarandi: 1) Bakgrunnsþættir einstaklingsins sem geta aukið líkurnar á einkennum, til dæmis að aðrir í fjölskyldunni hafi fengið slík einkenni. Streita og fullkomnunartilhneiging við lausn verkefna og/eða gildi einstaklings og viðhorf hans til veikinda. 2) Ýmsar kveikjur svo sem langvarandi álag, andleg áföll og slys geta sett af stað röskunina. Jafnvel geta óljós skilaboð frá heilbrigðisstarfsfólki í leit að orsök fyrir einkennum haft áhrif á myndina. 3) Hvetjandi þættir geta viðhaldið ástandinu svo sem að vera mjög upptekin(n) af einkennum og/eða að draga úr venjubundnum hlutverkum og athöfnum. Endurteknar læknisfræðilegar rannsóknir og mikið magn ólíkra ýtarlegra rannsókna geta valdið áhyggjum og haft áhrif á vandann. Viðbrögð einstaklingsins við ástandinu, að ætla sér að ná stjórn, til dæmis á hreyfingum sem alla jafna eru ekki undir meðvitaðri stjórn, getur ýtt undir einkennin. 4) Verndandi þættir geta dregið úr hættunni á því að einkennin verði langvinn og/eða að þau komi ítrekað fram. Þekking og skilningur sjúklingsins sjálfs og hans nánustu á starfrænum hreyfiröskunum hefur jákvæð áhrif á einkennamyndina og dregur úr einkennum. Það að draga athygli frá einkennum hjálpar til að mynda við að minnka áhyggjur einstaklingsins og þar með bætir hreyfigetu.

Einkennamyndin er mjög einstaklingsbundin og bataleiðir eru ólíkar milli fólks. Algengt er þó að batinn komi fram í stökkum, jafnvel skyndilega en getur líka gerst rólega. Batahorfur eru almennt góðar, þó einhverjir búi áfram við skerta færni. Athugun sem gerð var á árangri þverfaglegrar endurhæfingar á Reykjalundi á tímabilinu 2014-2020 sýndi að meirihluti einstaklinga með starfræn taugaeinkenni (m.a. hreyfiröskunum) fann fyrir bata eða var án einkenna við útskrift og stór hluti var farinn að vinna eða í skóla 6 mánuðum frá því að endurhæfingu lauk.

Meðferð við starfrænum hreyfiröskunum

Grundvallaratriði í meðferðinni hafa verið lögð fram í vísindaheiminum en þar fer sjúkraþjálfari með lykilhlutverk í nálguninni. Helstu áherslur miða að því að: byggja upp traust og tengsl áður en farið er af stað í meðferð, að skapa væntingar til bata, viðhalda opnum, samkvæmum og reglulegum samskiptum og að virkja fjölskylduna eða nánustu aðila til að styðja við bataleiðir. Forðast óvirkar leiðir í meðferð, að hvetja til þungaberandi stöðu strax í upphafi, hvetja til sjálfstæðis og eigin meðferðar sjúklings og gera meðferðaráætlun sem miðar að því að einstaklingurinn nýti sér það sem hefur reynst virka vel. Einnig kemur fram að markmiðamiðuð endurhæfing leidd af fagfólki sem hefur sérþekkingu á starfrænum hreyfiröskunum skiptir máli. Lögð er áhersla á að forðast notkun stoð- og hjálpartækja eins og kostur er, að beita hegðunarmótandi nálgun í meðferð, þekkja og vinna með hugsanir og hegðun sem er ekki uppbyggileg og setja fram bakslagsvarnir.

Líkamlega þjálfunin felur í sér að sjúkraþjálfarinn kynnist vel einstaklingnum sem til hans leitar, bæði með samtölum, og prófunum á ólíkum athöfnum og aðstæðum. Sjúkraþjálfarinn nýtir síðan fjölbreytt umhverfi og aðstæður til áhugavekjandi verkefna og greiðir þannig leið til að framkalla sjálfvirkni í hreyfingum og flæði hreyfinga. Það reynir á að sjúkraþjálfarinn sé góður hlustandi og sé hugmyndaríkur í að skapa umhverfi sem laði fram hreyfingar hjá þeim sem hann er að vinna með. Hreyfingar sem eru líkama einstaklingsins eðlilegar án þess að einkenni komi fram. Því fleiri stundir sem einstaklingurinn er án einkenna því betur styrkist sú hreyfihegðun. Þessi samvinna sjúkraþjálfara og einstaklingsins krefst tíma og þolinmæði beggja aðila. Árangurinn kemur hins vegar yfirleitt fljótt fram. Mesti tími þjálfunarinnar fer yfirleitt í að vinna með yfirfærslu þess árangurs yfir í raunaðstæður.

Fylgikvillar

Starfrænum hreyfiröskunum getur fylgt vandi eins og svefntruflanir, að einstaklingurinn ráði ekki við að sinna venjubundnum hlutverkum og verkefnum, svo sem skóla eða vinnu. Hann á mögulega erfitt með að sjá um sig sjálfan við grunnathafnir daglegs lífs, honum líður illa í þessu ástandi og dregur mögulega úr félagslegri þátttöku. Mikilvægt er að vinna með alla þá þætti sem geta fylgt starfrænum hreyfiröskunum, að skapa hagstætt umhverfi og aðstæður sem styðja við bata og endurkomu til fyrri eða breyttra hlutverka og starfa. Slík vinna getur kallað á samvinnu nokkurra fagaðila í þverfaglegu teymi.

Eins og fram hefur komið í þessari stuttu samantekt þá er starfræn hreyfiröskun truflun í starfsemi heilans án þess að um skaða eða skemmd í taugakerfinu sé að ræða. Greiningarferlið er oft flókið og krefst sérþekkingar taugasérfæðinga. Starfræn hreyfiröskun er raunverulegur heilsufarsvandi en sem betur fer eru batahorfur almennt góðar. Í mörgum tilvikum ganga einkennin hratt til baka en í sumum tilvikum þarf aðstoð sérfræðinga í þverfaglegu teymi til að styðja einstaklinginn til bata og bættra lífsgæða. Endurhæfing hefur sannað gildi sitt bæði í rannsóknum og í klínískum heimi til hjálpar þeim sem glíma við starfræna hreyfiröskun. Von um bata er dýrmætt verkfæri sem mikilvægt er að halda fast í.

Sif Gylfadóttir

Sérfræðingur í taugasjúkraþjálfun og meðferð fólks með starfræna hreyfiröskun

Nýtt á vefnum