Greinar / 7. júní 2021

Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf

Á þessu ári, nánar tiltekið í september, göngum við til Alþingiskosninga. Á þessum tíma gefst einmitt tækifæri fyrir félög eldri borgara að leggja fram sín áhersluatriði og koma skilaboðum til flokkanna sem ætla að bjóða fram til Alþingis.

Staða eldri borgara er misjöfn, sumir hafa það mjög gott meðan aðrir búa við afar kröpp kjör. Þeir sem hafa haft háar atvinnutekjur á starfsævinni eru hugsanlega með góðan lífeyrissjóð og fá því enga viðbót frá TR. Aðrir eru svo með blandaðar tekjur og fá bæði síðbúnar tekjur frá lífeyrissjóðum og TR til viðbótar. Loks eru þeir sem fá eingöngu greiðslur frá TR. Þeir síðastnefndu búa margir hverjir við verulega kröpp kjör. Upphæðin sem TR greiðir á mánuði er svo lág og af henni er að auki greiddur skattur þannig að erfitt er að draga fram lífið á þeim kjörum. Laun margra hópa eldra fólks ná ekki lágmarkslaunum, sem er auðvitað óboðleg staða.

Málaferli vegna skerðinga

Allir sem fá greiðslur frá TR búa við skerðingar ef þeir hafa aðrar tekjur að auki eins og frá lífeyrissjóði, vaxtatekjur, leigutekjur eða annað. Megin áherslan er auðvitað að bæta kjör hinna verst settu, en óánægjuraddir með skerðingarnar verða sífellt háværari. Málaferli eru í gangi vegna þeirra sem Grái herinn tók að sér að koma af stað og verður málið tekið fyrir þann 7. september n.k. og dóms má vænta í lok október.

Frítekjumörk vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum eu í dag 25.000 krónur og hafa ekki breyst síðan 2017. Allar aðrar tekjur eru undir og skerðast frá 65,87% til 83,85% allt eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða býr einn og hvenær viðkomandi byrjar að taka sinn lífeyri hjá TR. Málaferlin sem eru í gangi varðandi skerðingar eiga eflaust eftir að taka nokkur ár áður en endanleg niðurstaða fæst. Það ætti þó ekki að þurfa að koma í veg fyrir að hægt verði að gera breytingar og frítekjumarkið hækkað í 100.000 krónur eins og við höfum lagt til að verði gert til að bæta stöðuna. Takmarkanir hafa verið á atvinnuþátttöku, þ.e.a.s. frítekjumarkið miðast við 100 þúsund krónur á mánuði sem gerir 1.200.000 þús krónur yfir árið og ef tekjur fara yfir það þá byrja skerðingarnar. Það eru ekki allir með sömu skerðingarprósentu sem fer eftir því hvenær viðkomandi byrjaði að taka lífeyrinn frá TR.

Mynd1.JPG

Enginn hvati

Lífeyririnn hefur hækkað um hver áramót samkvæmt verðlagi, en okkar krafa er að ellilífeyrir og frítekjumörk hækki árlega samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands. Skerðingarnar eru eiginlega stærsta vandamálið, því þær koma í veg fyrir að einstaklingar á lífeyri frá TR geti bætt sinn hag. Hvatinn til þess er enginn því skattur og skerðing er svo há prósenta af tekjunum að það verður afar lítið eftir til ráðstöfunar. Þessar 100 þúsund krónur á mánuði sem vinna má fyrir hafa ekki hækkað síðan 2018, svo óhætt er að fullyrða að saumað sé að eldra fólki sem komið er á lífeyri úr öllum áttum. Nú fyrir stuttu kom út skýrsla sem leiðir í ljós að Íslendingar séu að nálgast heimsmet í skerðingum á afkomumöguleikum eldra fólks.

Aldurstengd starfslok

Samkvæmt lögunum miðast taka lífeyris við 67 ára aldur og oft miða fyrirtækin starfslok við þann aldur, meðan hjá hinu opinbera má vinna til 70 ára aldurs. Það er réttlætismál að eldra fólk fái að miða starfslok sín við áhuga og getu en þurfi ekki að hætta virkri þátttöku í atvinnulífinu eingöngu vegna aldurs. Þessar aldurstengdu viðmiðanir sem brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar ætti að fella úr allri lagasetningu, en leggja þess í stað áherslu á þekkingu, reynslu, hæfni og menntun fólks óháð aldri.

Það getur verið erfitt fyrir suma að hætta að vinna og ætti því að vera meira lagt upp úr því að vera með einhverjar lausnir fyrir starfsmenn sem vilja starfa áfram hvort sem það er í fullu starfi eða hlutastarfi. Það á ekki við alla að hætta að vinna enda getur fólk verið frískt og með góða starfsorku sem vert væri að nýta áfram. Það getur líka haft mikið félagslegt gildi að halda áfram að vinna eftir 67 ára aldur og jafnvel áfram eftir 70 árin. Við lifum lengur, erum hressari og erum ekki öll tilbúin að leggja árar í bát við 67 ára aldurinn. Sumir velja að vinna áfram meðan aðrir eru tilbúnir til að sinna einhverjum áhugamálum sem þeir hafa beðið lengi eftir að öðlast tíma til.

Mynd3.JPG

Fábreytt búsetuúrræði

Með hækkandi aldri má alveg búast við að færnin fari minnkandi, þó hraðinn á því ferli sé einstaklingsbundinn. Stefna stjórnvalda er að fólk búi heima hjá sér sem lengst og styðjist við heimahjúkrun sem sveitarfélögin sinna. Ljóst er að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum þó þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru hins vegar alltof fábreytt. Það vantar millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp þannig búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk og þá ekki síður fyrir velferðarkerfið, sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga.

Hjúkrunarheimilin eru orðin meira í átt að lífslokaheimilum því fólk sem fær þar inni er yfirleitt orðið mjög veikt. Rekstrarkostnaður heimilanna er hár og oft erfitt að manna stöðurnar. Nauðsynlegt er að leita annarra lausna fyrir þá sem geta ekki lengur búið heima og þurfa einhverja aðstoð, en ekki endilega að vera vistaðir á hjúkrunarheimili. Hægt er að hugsa sér þetta þannig að maður færist í áföngum inn á hjúkrunarheimili en ekki of snemma. Félagslega hliðin er líka mikilvæg því með hækkandi aldri getur einmanaleikinn bankað á dyr, vinirnir farnir að týna tölunni og færnin við að bjarga sér sjálfur með alla hluti fer þverrandi. Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa mismunandi lausnir fyrir þá eldri til að velja úr við sitt hæfi. Eldra fólk í samfélaginu er hópur sem þarf athygli og rými í umræðunni – og það vill hafa áhrif á eigið líf.

Ingibjörg H. Sverrisdóttir

Formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni

Nýtt á vefnum