Greinar / 5. nóvember 2020

Blóðþrýstingur – hár og lágur

Blóðþrýstingur er áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Síðustu 60 árin hefur mikil athygli verið á þessum áhættuþætti og mönnum lengi verið ljóst að mjög hár blóðþrýstingur, eða það sem við köllum illkynja háþrýstingur, er lífshættulegur. Þegar við tölum um hækkaðan blóðþrýsting er verið að tala um hvíldarþrýsting og að hann sé að jafnaði of hár við þær aðstæður. Þrýstingur sem er í hvíld langt yfir 200mmHg í efri mörkum og neðri mörk hærri en 150mmHg, hefur áhrif á mikilvæg líffærakerfi og er mjög hættulegur fólki. Einstaka háar mælingar eru þó ekki hættulegar og eiga ekki að valda kvíða.

Lítil eða engin einkenni

Það tók talsverðan tíma að sýna fram á að meðhöndla ætti hækkaðan þrýsting til að fyrirbyggja sjúkdóma seinna meir. Einkenni við hækkuðum blóðþrýstingi eru langoftast lítil eða engin fyrr en hann er orðinn verulega hár. Það að telja að þrýstingurinn sé eðlilegur vegna þess að einstaklingurinn finni ekki fyrir neinum einkennum er ekki rétt.

Áhættuhópar

Mikilvægt er að fylgjast með blóðþrýstingi hjá eldra fólki því tíðni hækkaðs blóðþrýstings eykst með aldri. Einnig er hækkaður blóðþrýstingur algengari hjá þeim sem eru með offitu. Konur sem fengið hafa meðgöngueitrun fá oftar vandamál síðar í lífinu og ættu að fylgjast með blóðþrýstingi sínum. Sjúklingar með nýrnavandamál ættu einnig að fylgjast með blóðþrýstingi sínum.

Mælingar á blóðþrýstingi eru hluti af því að meta áhættuþætti sem eru meðhöndlanlegir fyrir hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig má að mæla áhættuþætti svo sem sykur og kólesteról, sem hægt er að meðhöndla.

Mælingar

Eðlilegur blóðþrýstingur er núna miðaður við <140/ 90 mmHg, en ef einstaklingur er með aðra áhættusjúkdóma, s.s. sykursýki, eru mörkin <130/80 mmHg. Mikilvægt er að mælingar séu teknar í hvíld og á að minnsta kosti þremur mismunandi tímum. Mælingar þar sem einstaklingur er kvíðinn og með vanlíðan út af einhverju öðru eru ekki marktækar.

Blóðþrýstingur er púlsaður. Hann stígur og hann hnígur. Þegar blóðþrýstingur er metinn eru bæði mæld efri mörk, slagbilin (systólískur þrýstingur), og neðri mörk, hlébilin (díastólískur þrýstingur). Mælir er settur um útlim, oftast handlegg. Hann er í blöðru sem vafið er þétt um handlegginn og blaðran blásin upp svo lokist fyrir blóðflæðið. Loftinu er svo smátt og smátt hleypt úr og mælt við hvaða þrýsting blóðið byrjar að flæða aftur um slagæðina. Það kallast systólískur þrýstingur eða efri mörkin. Neðri mörkin eru fengin með því að fylgjast með því hvenær púlsslögin hætta að heyrast með hlustunarpípu, og kallast díastólískur þrýstingur. Blóðþrýstingurinn er oftast mældur í upphandlegg, í hæð við hjartað, og endurspeglar þrýstinginn í hjartanu.

Blóðþrýstingsmælar sem notaðir eru heima af almenningi eru með svipaðri tækni. Þeir eru gerðir fyrir upphandlegg og manséttan verður að vera hæfilega stór fyrir þann sem á að nota hana, annars verður mælingin röng. Slíkir mælar eru gerðir fyrir vinstri handlegg. Nemi leggst innanvert á handlegginn, ofan olnbogabótar, sem mælir púlsinn í slagæðinni. Ef mælt er á hægri handlegg þarf að snúa manséttunni þannig að neminn nái slagæðinni innanvert á honum. Þegar hlustað er með hlustunarpípu hjá lækni skiptir ekki máli hvor handleggurinn er mældur. Úlnliðsmælar eru ekki jafn nákvæmir.

Mikilvægt er að átta sig á hvað telst eðlilegt í blóðþrýstingsmælingum. Systólískur blóðþýstingur upp á 90-130mmHg er eðlilegur. Hærri þrýstingur en 140 mmHg í efri mörkum er of hár. Hjá ungum konur í eðlilegum holdum mælist systoliskur þrýstingur oft á bilinu 90-110 mmHg. Það er eðlilegt fyrir þær og er reyndar mjög gott. Systólískur þrýstingur lækkar líka á meðgöngu og eru mælingar í kringum 100mmHg algengar og eðlilegar. Minna er talað um neðri mörk en þau teljast eðlileg allt niður í 50mmHg. Á meðgöngu getur verið erfitt að greina neðri mörkin. Ef mikill munur er á milli efri og neðri marka getur verið um sjúkdóm að ræða og það þarf að skoða frekar.

Hvað ræður blóðþrýstingnum?

Blóðþrýstingur er aldrei sá sami og það er alveg eðlilegt. Blóðþrýstingurinn fer upp og niður hjá okkur öllum allan daginn og breytist með hreyfingu og hvíld, gleði og sorg.

Margir mæla sig að morgni nývaknaðir og úthvíldir eftir nóttina. Á þessum tíma eru mælingar oft hæstar yfir daginn. Það er erfitt fyrir líkamann að vakna og fara á fætur. Best er að mæla þrýsting um og eftir hádegi. Það endurspeglar daginn best. Skynsamlegt getur verið að taka fleiri en eina mælingu yfir daginn og reikna meðaltal þeirra.

Lengi hefur verið þekkt að blóðþrýstingur er háður aðstæðum. Ósjálfráða taugakerfið hefur einnig mikil áhrif á blóðþrýstinginn. Vitað er að mælingar hjá lækni reynast oft háar og er þá um svokallaðan hvítsloppaþrýsting að ræða. Heimamælingar eru að sama skapi oft aðeins lægri en á læknastofunni. Gott er þá að framkvæma sólarhringsmælingar. Margar heilsugæslur og læknastofur hafa aðgang að þeirri tækni. Þá gengur einstaklingur með tæki í sólarhring sem mælir allan tímann, bæði að nóttu sem degi. Þar sjást oft hæstu mælingarnar á því augnabliki sem einstaklingur­inn fær tækið á sig, en jafnar sig þegar frá líður og reynist eðlilegur þegar upp er staðið.

Bt.JPG

Meðferð

Of hár eða lágur blóðþrýstingur er meðhöndlaður með lyfjum. Oft þarf að nota fleiri en eitt lyf til að minnka hjáverkanir. Blóðþrýstingslyf eru vel prófuð í rannsóknum og langflest ekki með miklum hjáverkunum. Meðferð við háþrýstingi er ekki tímabundin heldur oftast langtímameðferð. Það er ekki nema að holdafar breytist verulega að forsendur meðferðar geti breyst. Það getur líka gerst með háum aldri eða alvarlegum veikindum og því þarf að fylgjast með meðferð reglulega.

Hjörtur Oddsson

Hjartalæknir Landspítala

Nýtt á vefnum