Greinar / 7. júní 2021

Alltaf að gera eitthvað sérstakt og skemmtilegt

Þórhallur Sigurðsson, eða Laddi í hugum landa sinna, varð 74 ára þann 20. janúar síðastliðinn. Hann hélt upp á daginn með því að hefja undirbúning 75 ára afmælissýningarinnar, eins og hann gerði nákvæmlega ári fyrir bæði sextugs- og sjötugsafmælin sín. „Maður verður að gefa sér góðan tíma til að skipuleggja og æfa fyrir slíka stórviðburði,“ segir hann er við hittumst til að spjalla um efri árin í lífi hans. Þá var hann einnig á fullu við að undirbúa opnun sýningar á eigin málverkum, en myndlistin hefur skipað stóran sess í lífi hans á undanförnum árum.

Viðtal: Páll Kristinn Pálsson.

Fram á grafarbakkann

„Ég hugsaði nú ekki mikið um það,“ segir Laddi spurður um hvernig hann hafi séð sig 74 ára þegar hann var ... ja, þrítugur? „Og þó, ég held ég hafi séð mig eins og ég er núna, enn í fullu fjöri. Ég hef alltaf sagt að ég myndi verða það alveg fram á grafarbakkann. Ég myndi halda áfram að skemmta fólki ævina á enda, og jafnvel líka í minni eigin jarðarför. Og það má kannski segja að ég sé búinn að því núna,“ kímir hann og vísar til þáttaraðarinnar Jarðarförin mín í Sjónvarpi Símans (2020), þar sem hann fór með aðalhlutverkið.

9219_1256178364018_1216352842_743755_4781098_n.jpg

Tafist í Texas.jpg

En fannst þér ekki þegar þú varst ungur að fólk væri orðið gamalt bara upp úr fimmtugu?
„Jú, ég man eftir því að mér fannst afi og amma alveg eldgömul þegar þau voru rétt komin á sextugsaldur. Þetta hefur breyst rosalega, þannig að margir jafnaldrar mínir komnir á áttræðisaldur eru bara helvíti sprækir. Þessi breyting hefur þó ekkert komið mér á óvart, mér hefur einfaldlega aldrei fundist ég vera að verða eitthvað hundgamall.“

Þú hefur góður til heilsunnar?
„Já, ég er svo heppinn að hafa verið það alla tíð og ekki fyrr en upp úr sextugu að ég fór að hugsa eitthvað sérstaklega um að passa upp á heilsuna. Þá fóru mér líka að berast skilaboð frá heilbrigðiskerfinu um að mæta í hinar og þessar rannsóknir, svo sem ristilspeglun, og á einmitt að mæta í mína þriðju speglun á næstunni. Það er hugsað vel um mann hvað varðar slíka hluti. Ég hitti á sínum tíma mjög færan lækni, sem er nú reyndar hættur störfum vegna aldurs, sem kom því vel inn í kollinn á mér hversu mikilvægt væri að fara reglubundið í blóðprufur, þar sem tékkað væri á allri líkamsstarfseminni, og ég hef farið eftir því. Ég nenni ekki að verða eitthvað alvarlega veikur og reyni að gera það sem ég get til að hafa stjórn á heilsunni.“

Tókst aldrei að reykja

Hér kemur lífsstíllinn inn í myndina, mataræði og hreyfing – og þú ert nú af þeirri kynslóð þar sem mjög margir byrjuðu að reykja á fermingaraldrinum, ekki satt?
„Mikið rétt og ég byrjaði einmitt að fikta við reykingar á þeim aldri. En sem betur fer þá tókst mér aldrei almennilega að verða alvöru reykingamaður. Ég gerði þó margar tilraunir til þess, reykti um helgar og svo þegar maður fór að fá sér í glas. En það tókst ekki, mér fannst það bara aldrei gott, og um þrítugt hætti ég alveg að reyna það, nennti því ekki lengur.“

FA3A3307.jpg

Þín kynslóð var líka kennd við hippamenninguna þar sem aðrir vímugjafar en áfengi voru mikið notaðir, hass, LSD og fleira; hvernig fórst þú í gegnum þau ár?
„Ég fór mjög vel út úr þeim. Meðal annars vegna þess að ég gat ekki reykt slapp ég alveg við hassreykingarnar. Ég prufaði auðvitað, margir í vinahópnum voru talsvert í þessu, en ég varð alveg fárveikur af þessum smók og þeir urðu ekki fleiri. Ég þekkti líka einn náunga sem droppaði sýru og kom aldrei til baka og missti geðheilsuna. Það var hræðilegt að horfa upp á það gerast. Því var haldið fram á þessum tíma að flest af þessu dópi væri ekkert hættulegt, og það var líka sagt um tóbaksreykingarnar. Þetta þótti bara töff og aldrei minnst á að fólk gæti skaðað sig á slíkri neyslu. Ég var líka mjög á móti öllum pillum og botnaði ekkert í því að fólk þyrði að gleypa í sig einhverjar pillur. Ég er mjög ánægður með að hafa losnað við allt þetta dóprugl hippatímans.“

Hvað þá með mataræðið?
„Það hefur talsvert breyst á undanförnum árum. Áður borðaði maður bara allt, ef svo má segja, en núna er ég farinn að passa dáldið upp á hvað ég læt oní mig. Passa til dæmis að borða alltaf eitthvað af grænmeti með matnum á hverjum degi. Við hjónin borðum alltaf á sama staðnum, Krúsku á Suðurlandsbraut, bara eina máltíð á dag upp úr hádeginu, oftast um tvöleytið og þá mikið af hollum góðum mat, og svo bara eitthvað lítið um kvöldið, súpa eða brauðsneið, eitthvað létt. Það dugar mér alveg að borða eina máltíð yfir daginn.“

IMG_9141.jpg

Í góðu formi

Vegna starfs þíns sem leikara og skemmtikrafts geri ég ráð fyrir að þú hafir ávallt þurft að halda þér í góðu líkamlegu formi – hvernig hefurðu farið að því?
„Ég hef alltaf verið í einhverju sporti. Þegar ég var yngri voru það frjálsar íþróttir, spjótkast, kúluvarp og annað slíkt, fannst það ofsalega gaman. Hætti því svo þegar ég fór að nálgast tvítugt, og þá tók sundið við. Fór mjög reglulega í laugina um langt árabil og síðan hef ég verið alltaf af og til í einhverri líkamsrækt, lengi vel í líkamsræktarstöðinni Heilsuborg. Síðastliðin tvö ár hef ég stundað svokallað crossfit, svo eldri manna útgáfuna, 60 plús. Nei, það er ekkert svo erfitt, þetta er þrisvar í viku og vissulega tekið dáldið á því, en manni líður æðislega vel á eftir. Já, ég hef alltaf passað þetta. Alltaf verið í mjög góðu formi.“

Og svo ertu mikill golfari, ekki satt?
„Jú, golfið hefur verið og er mikil ástríða hjá mér. Ég hef verið í landsliði öldunga og fengið mikið út úr því, farið víða erlendis að keppa á mótum sem er afar skemmtilegt. Það er líka þetta keppnisskap sem ég hef alltaf verið svo fullur af. Þegar ég byrjaði í golfinu komst ekkert annað að en að keppa, keppa, keppa, bæði við aðra en ekki síður sjálfan mig, verða betri og betri og betri.“

11578_40_540_385.jpg

Mánudagur eða helgi

Hvenær gerðirðu þér grein fyrir hvað lífið er stutt?
„Ég er allavega núna farinn að vera meðvitaður um hvað það er asskoti stutt. Nýorðinn 74 ára og sem sé farinn að búa mig undir 75 ára afmælissýninguna. Og ég hef verið að velta fyrir hvort það verði síðasta stórsýningin mín, hvort ég nái nokkuð að verða með áttræðissýninguna. Ég vona það auðvitað, en við þessa tilhugsun fór ég að átta mig að það gæti alveg verið mjög stutt eftir hjá mér. Mér finnst líka svo ægilega stutt síðan ég var með sextugsafmælissýninguna, það var hreinlega „í gær“ – sem sýnir manni bara hvað tíminn flýgur áfram. Mér finnst alltaf vera annaðhvort mánudagur eða helgi. Og svo finnst manni maður bara verða að fara að gera eitthvað sérstakt og skemmtilegt því það sé svo stutt eftir ... En reyndar hefur maður svo sem alltaf verið að því. Alltaf verið að gera eitthvað sérstakt og skemmtilegt.“

Til dæmis að mála myndir ...
„Ég byrjaði á því upp úr sextugu, en hafði alltaf verið teiknandi frá unga aldri. Það stóð alltaf til að fara í myndlistina. Við vorum tveir vinir tólf ára man ég sem teiknuðum mikið og ætluðum báðir að gera myndlistina að ævistarfi. Það rættist hjá honum en ég fór í tónlistina og skemmtanabransann. Hugsaði með mér að ég gæti alltaf farið að mála er ég yrði gamall og gerði það. Hef núna verið að mála í meira en tíu ár.“

List.JPG

Var eitthvað fleira sem þú ætlaðir að bíða með til efri áranna?
„Nei, það held ég ekki. Annars hef ég áhuga á mjög mörgu og langar að gera ótal margt. En ég hef alveg nóg fyrir stafni nú þegar og ekki síst eftir að málverkið kom til sögunnar. Golfið og myndlistin og svo tónlistin og skemmtanabransinn, sem hefur reyndar legið nánast alveg niðri á tíma kórónuveirunnar.“

Ertu ekki líka mikið í talsetningum teiknimynda?
„Jú, það hefur nú haldið manni á floti þessi covid-misseri.“

Ertu ekki kominn á ellilífeyri?
„Nei, ég þéna sem betur fer það mikið að ég á ekki rétt á krónu frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég hef líka verið nánast alla mína tíð í lausamennsku á vinnumarkaðnum þannig að ég á ekki mikið inni í lífeyrissjóðum. Ég vann í fimm ár í leikmyndadeildinni hjá Sjónvarpinu og fæ einhverjar smáar lífeyrisgreiðslur fyrir það, en annars ekki neitt. Ég er því í rauninni heppinn að geta enn aflað mér tekna með sama hætti og ég hef gert mest allt mitt líf.“

Hugsarðu um afkomumálin seinna meir?
„Ja, eins og ég segi þá ætla ég bara að halda áfram í því sem ég hef verið að gera á meðan fólk vill hafa mig í því. Ég held ég geti aldrei verið iðjulaus, ég þarf alltaf að vera að gera eitthvað.“

Ertu pólitískur?
„Nei, alls ekki. Pólitíkin eins og hún er iðkuð hér fer hreinlega í taugarnar á mér. Ég reyni að leiða hana hjá mér eins og ég get.“

FA3A3196.jpg

Ertu trúaður maður?
„Nei, ég er það ekki. Ég er ekki trúrækinn, fer aldrei í kirkju nema í jarðarfarir. Ég hef aldrei pælt neitt í trúmálum og trúi ekki á líf eftir dauðann. Vissulega væri næs ef manns biði eitthvert Sumarland, en ég býst sem sagt ekki við því. Svo finnst mér líka alveg hræðileg þessi hugmynd um að eftir andlátið fari fólk að fylgjast með því sem eftirlifandi ættingjar þess er að aðhafast í jarðlífinu og hafa áhyggjur af þeim.“

Hvað með afahlutverkið?
„Ég er fjórfaldur afi og langafi eins barns. Þessir afkomendur mínir eru því miður mjög tvístraðir hvað varðar búsetu, svo ég fæ lítil tækifæri til að sinna þeim. Það þykir mér ákaflega leitt, ég vildi gjarnan geta verið meira í afahlutverkinu og virkari þátttakandi í þeirra lífi.“

Ertu áhyggjulaus maður?
„Ekki alveg. Ég var einmitt að hugsa um það fyrir nokkrum dögum af hverju maður væri bara ekki alveg laus við allar áhyggjur. Mig langar til að vera það einmitt núna, kominn á þessi svokölluðu efri ár. En það virðist þó alltaf vera eitthvað til að hafa áhyggjur af í daglega lífinu, heilsan, fjármálin, velferð afkomendanna og svo framvegis. Ég get hins vegar ekki verið annað en nokkuð sáttur við mitt eigið líf. Það má segja að flestir æskudraumar mínir hafi ræst. Ég ætlaði mér að verða listamaður, bæði tónlistarmaður og myndlistarmaður, svo það hefur alveg gengið eftir. Ég hef lifað alveg þokkalegu og skemmtilegu lífi. Þótt á stundum hafi gengið á ýmsu hefur alltaf verið gaman.“

Hvernig hefur frægðin leikið þig um dagana?
„Bara vel. Á tímabili, sérstaklega í fyrstu, gat hún verið býsna óþægileg. Þegar Halli og Laddi komu fram á sjónarsviðið og slógu í gegn var mikið atast í okkur, bæði unglingar og fullorðið fólk sífellt að heimta af okkur brandara eða önnur skemmtilegtheit. Maður þorði varla að láta sjá sig niðri í bæ eða á einhverjum mannamótum. Þetta hefur þó allt gjörbreyst með árunum. Í dag er það bara helst að fólk biður um að fá að taka sjálfu-mynd með manni og það er alveg sjálfsagt mál!“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum