Greinar / 15. september 2010

Hjartaheill - Landssamtök hjartasjúklinga

Fara á heimasíðu Hjartaheilla

Um Hjartaheill

Landssamtök hjartasjúklinga, LHS, voru formlega stofnuð 8. október 1983 af 230 stofnfélögum.

Árið 2004 var nafni og merki samtakanna breytt í Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga.

Skrifstofa samtakanna að Síðumúla 6, 108 Reykjavík, er opin alla virka daga frá kl. 08:45 til 16:00. Sími 552 5744, fax 562 5744. Á skrifstofunni starfa þau Guðrún Bergmann Franzdóttir og Ásgeir Þór Árnason. Netfang Hjartaheilla er [email protected]

Strax á fyrsta ári hófu félagsmenn að safna peningum til að kaupa tæki fyrir hjartadeild Landspítalans. Fljótlega fóru að berast áheit og gjafir, en efnt var til fyrstu merkjasölunnar árið 1985 og hafa merki síðan verið seld á tveggja ára fresti. Þessu fé hefur verið varið til að styrkja hjartadeildir Landspítalans, Endurhæfingarstöð SÍBS að Reykjalundi, HL-stöðina í Reykjavík, Akureyri, Vestmannaeyjum og í Neskaupstað. Til íbúðarkaupa og margt fleira.

Samtökin hafa gefið ýmis tæki til sjúkrastofnana, svo hundruðum milljóna króna skiptir frá stofnun samtakanna.

Þá hafa samtökin staðið að útgáfu og sölu jólakorta og hefur það framtak skilað umtalsverðum tekjum. Samtökin gefa út blaðið Velferð.

Markmið Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga eru:

Að sameina félagsmenn til baráttu fyrir hagsmunamálum hjartasjúklinga og gæta réttar þeirra á öllum sviðum.
  • Að vinna að úrbótum á sviði heilbrigðisþjónustu og bættri félagslegri aðstöðu hjartasjúklinga.
  • Að afla fjár, sem varið er til velferðarmála hjartasjúklinga og hrinda í framkvæmd markmiðum samtakanna. Að efla rannsóknir og fræðslu varðandi hjartasjúkdóma.
  • Að bæta aðstöðu og tækjakost á sjúkrastofnunum til rannsókna og lækninga á hjartasjúkdómum og skapa aðstöðu til endurhæfingar.
  • Að upplýsa hjartasjúklinga um félagslegan rétt sinn, m.a. varðandi skattamál, fjárhagsaðstoð, tryggingamál, lífeyrisréttindi, læknismeðferð erlendis o.fl.


Stjórn Hjartaheilla ákvað í ársbyrjun 1987 að hefja undirbúning að starfrækslu fullkominnar þjálfunar- og heilsuræktarstöðvar í Reykjavík. Stofnendur voru Hjartaheill, Hjartavernd og SÍBS.

HL-stöðin er sjálfseignarstofnun sem veitir þríþætta þjónustu:

  • Endurhæfingu í framhaldi af dvöl á sjúkrahúsi.
  • Aðstöðu til viðhaldsþjálfunar.
  • Ráðgjöf, upplýsingar og fræðslu.


Að jafnaði eru um 350 hjarta- og lungnasjúklingar við æfingar í HL stöðinni í Reykjavík. Þá hafa verið stofnaðar HL stöðvar og HL hópar í Reykjavík, Hafnarfirði, Stykkishólmi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Kópaskeri, Neskaupstað, Hellu, Selfossi, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ.

Hjartaheill gekk í SÍBS árið 1992 og varð um leið aðili að Öryrkjabandalaginu.

Hjartaheill heldur aðalfund á 3ja ára fresti og þar er mörkuð stefna samtakanna. Formenn hafa verið frá upphafi Ingólfur Viktorsson, Sigurður Helgason, Gísli J. Eyland og Vilhjálmur B. Vilhjálmsson, en núverandi formaður er Guðmundur Bjarnason.

Á aðalfundi samtakanna í mars 1990 var ákveðið að breyta skipulagi samtakanna og stofna 10 svæðafélög hjartasjúklinga eftir landssvæðum. Ellefta félagið, Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, gekk formlega í raðir Hjartaheilla í september 1996. Nú eru liðlega 3600 félagsmenn í samtökunum.

Velferð er málgagn samtakanna og kemur út 3 til 4 sinnum á ári. Það er sent félagsmönnum, til heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa um land allt endurgjaldslaust.

Hjartaheill keypti árið 1993 ásamt Rauða krossi Íslands 3ja herbergja íbúð að Lokastíg 16. Íbúðina geta aðstandendur hjartasjúklinga utan af landi nýtt sér. Um úthlutun sér hjartadeild Landspítala við Hringbraut.

Samtökin hafa gefið út bæklinga á eigin vegum eða í samráði við aðra. Eru þeir aðgengilegir á vef samtakanna www.hjartaheill.is undir tenglinum Bæklingar.

Þá hafa samtökin styrkt útgáfu á myndbandinu Hjartans mál. Staðiða að gerð myndarinnar um Gretti – þroskasögu hjartasjúklings ásamt útgáfu á fræðslubæklingnum um „Hjartasjúkdóma – varnir – lækningu – endurhæfingu“ og „Eru ljón í veginum“.

Hjartabókin er gefin út af Hjartaheill. Þessi bók inniheldur grunnupplýsingar um hjartasjúkdóma og með tímanum aðlagast mappan að þörfum sjúklingsins.

Hafið samband við skrifstofuna, ef þið viljið fá bæklinga til dreifingar á námskeiðum eða á heilsugæslustöðvum/sjúkrahúsum.

Nýtt á vefnum