Greinar / 27. október 2017

Raunverulegir bólgusjúkdómar oftast langvinnir

Páll Kristinn Pálsson ræðir við Ragnar Frey Ingvarsson lyf- og gigtarlækni, en gigtarlæknar eru þeir sem sérhæfa sig í bólgumí mannslíkamanum.

„Við búum við íslenskt tungutak þar sem ýmsir sjúkdómar eru flokkaðir sem bólgusjúkdómar en þegar grannt er skoðað er ekki um neinar bólgur að ræða,“ segir Ragnar Freyr þegar ég spyr hvar bólgur sé helst að finna.„ Hugtakið bólga í læknisfræðinni er alveg ákveðið skilgreint fyrirbæri. Það er að ónæmiskerfi líkamans ræðst á eitthvað sem það túlkar sem óvin sinn, hvort sem það er eigin vefur, framandi vefur, bakteríur, veirur, sveppir eða æxli. Við þá árás myndast ákveðinn þroti, fyrirferð, hiti, verkur og svo gjarnan einhver starfræn truflun. Þetta er það sem kallast bólga í skilningi læknisfræðinnar.“

Bólga og ekki bólga

Ragnar Freyr bendir á að enska orðið yfir gigtarlækni sé rheumatologist.

„En rheuma er latneska orðið yfir bólgu þannig að rheumatologist er sá sem hefur menntað sig til að fást viðbólgur af einhverju tagi. Á íslensku heitir þetta gigtarlæknir og á íslensku er talað um gigt í víðum skilningi. Þannig fæ ég óskir um að sinna ýmsum vandamálum sem fólk skilur sem bólgu en eru það í rauninni ekki. Þannig má segja að þó að einhver bólguferill sé í gangi þegar um slitgigt er að ræða þá er slitgigt ekki bólgusjúkdómur sem svarar hefðbundinni bólgueyðandi meðferð, til dæmis eru sterar hálfgagnslausir, bólgueyðandi lyf létta kannski eitthvað á einkennum, krabbameinslyf gagnast lítið og líftæknilyf hafa ekki sýnt fram á gagnsemi. Allt eru þetta lyf sem virka mjög vel þegar maður er að fást við hefðbundna bólgusjúkdóma eins og liðagigt, hryggikt, rauða úlfa, æðabólgur eða fjölvöðvabólgur. Þá gagnast lyfin enda er í þeim tilfellum verið að ráðast á bólguferla sem við þekkjum vel.

Gigtarlæknar eru oft spurðir álits á sjúkdómi sem kallaður er vefjagigt og þar hefur ennþá ekki tekist að sýna fram ámælanlega bólgu af neinu tagi. Þar er í raun um verkjasjúkdóm að ræða sem upplifist í stoðkerfinu. Vefjagigt og slitgigt eru miklu algengari en eiginlegir bólgusjúkdómar. Af þeim sem ná 100 ára aldri eru allir með einhverja slitgigt, allir glíma sem sé við eitthvað slit. Og hvað varðar vefjagigt þá myndi ég halda að um 4% kvenna og 0,4% karla ættu við það vandamálað stríða á Íslandi í dag. Til samanburðar þá eru um 0,7-1% íslendinga með hryggikt og liðagigt.

Það sem ég er að segja er að samkvæmt íslenskum málvenjum þá virðist margt vera bólga sem er það ekki. Vöðvabólga er til dæmis ekki bólga, manni er bara illt og hefur kannski meitt sig, tognað, beitt sér eitthvað vitlaust eða sofið illa og vaknað með hálsríg eða eitthvað slíkt. Það má því kannski segja að okkur læknum hafi gengið illa að koma til skila til almennings hvað sé bólga og hvað sé eitthvað annað. “

Rétt eða röng meðferð

Ertu þá að segja að fólk hafi almennt rangan skilning á þvíhvað sé bólga?

„Ég vil frekar segja að okkur læknum hafi gengið illa að útskýra hvað þessir hlutir séu og hvað gagnast til að bjarga því. Ef fólk er með svokallaða vöðvabólgu þá eru lyf nánast gagnslaus. En ef fólk er með liðagigt þá kemst það ekki langt án lyfja. Mér hefur lengi vel fundist að læknavísindin hafi reynt að leysa mörg vandamál með lyfjum þar sem lyfja er ekki þörf. Ef fólk er með slitgigt, vefjagigt eða langvinna stoðkerfisverki, vöðvabólgu eða slíkt, finnst mér ekki eiga að beita kröftugum lyfjum, sem alls kyns aukaverkanir geta fylgt, þegar ósannað er að þau geri eitthvert gagn. Í slíkum tilfellum finnst mér miklu frekar eiga að beina fólki inn á brautir heilbrigðrar hreyfingar, sjúkraþjálfun, útiveru, gönguferða, sundferða, jóga – við ættum að ræða við það um svefn og svefnráðgjöf, andlega líðan, streitu og fleira sem tengist lífsstíl fólks.

Ragnar.JPG

Þegar fólk kemur á stofuna til mín spyr ég það gjarnan hversu oft það hreyfi sig í hverri viku. Með því gef ég til kynna að það að hreyfa sig ekki sé ekki valmöguleiki. Maður á að hreyfa sig að minnsta kosti í tvo og hálfan klukkutíma á viku þannig að maður svitni og púlsinn fari úr hvíldarpúlsi í æfingapúls. Kostirnir við það eru afar vel sannaðir, bæði hvað varðar betri svefn, vöðvastarfsemina, hjartað og æðarnar, minnkandi líkum á heilabilun, parkinsonsjúkdómi og svo framvegis. Hreyfing er það sem við ættum að vera að predika lon og don fyrir fólki og þá er líka mikilvægt að fólk finni sér hreyfingu sem því þykir skemmtilegt að stunda.

Það skiptir engu máli hvort einstaklingur komi til mín með hryggikt, þvagsýrugigt, slitgigt, vefjagigt eða vöðvabólgu. Lyfjameðferð getur verið mjög mismunandi, allt frá engum lyfjumupp í að beita þungum krabbameinslyfjum til líftæknilyfja en í öllum tilfellum á fólk að hreyfa sig, já líka þótt fólk sé með alla liði bólgna. Það skiptir alveg ótrúlega miklu máli.“

Alvöru matur

Sumir segja að mataræðið skipti meira máli en hreyfingin – hvert er þitt álit?

„Það fer eftir því hvað maður er að meðhöndla. Ef maður glímir við offitu má segja að sá sem þarf að hreyfa sig til að passa upp á þyngd sína verði að skoða mataræði sitt nánar. Ef maður er of þungur, með efnaskiptavillu, þvagsýrugigt eða sykursýki þá er ljóst að fókusinn þarf að vera á mataræðið. Það er vitað mál að ruslfæði, transfitusýrur, kolvetnaþungur matur með skjótunnum kolvetnum og auðbrenndum, myndar bólgu í líkamanum sé þessa neytt í miklum mæli.

Margar áhugaverðar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta. Þetta veldur insúlínviðnámi sem keyrir áfram hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og þvagsýrugigt, en hið síðastnefnda er reyndar mín sérgrein.

Ég geng eins og margir vita oft undir heitinu Læknirinní eldhúsinu og er því oft spurður um tengsl mataræðis og sjúkdóma. Í eldhúsinu er ég fyrst og fremst lífsnautnaseggur, hedónisti – en segi alltaf að fólk eigi að borða alvöru mat. Það sem maður leggur sér til munns á að líta út fyrir að vera eitthvað sem maður skilur að sé matur. Fiskur á að koma upp úr hafinu og fiskborði í verslun en ekki einhverjum pappakassa umlukinn einhverju gumsi í plastpoka, þá er hann orðinn fullunnin fæða. Grænmeti á að líta út eins og grænmeti, ekki koma mulið í töfluformi. Að sama skapi eigum við að borða ávexti en ekki þamba ávaxtasafa.

Maður á að borða alvöru mat, raunverulega fæðu. Það er hollt og það minnkar byrði bólgu í líkamanum. En hvort mataræðihafi áhrif á sjúkdóma eins og liðagigt hefur ekki gengið vel að staðfesta með rannsóknum. Við vitum þetta ekki alveg enn þá. Við vitum hins vegar að þeir sem minnka kolvetni í fæðu sinni geta minnkað líkur á þvagsýruköstum. Ég ráðlegg sem sé öllum með þvagsýrugigt að skerða neyslu kolvetna sem allra mest.“

Góð lyf ekki nóg

En er ekki málið að það þurfi hvoru tveggja, hreyfingu og holltmataræði – annað sé ekki nóg?

„Jú, algjörlega. Þetta helst í hendur. Hreyfing er frekar máttlaus ein og sér ef um ofþyngd er að ræða, það verðurað taka mataræðið einnig með í reikninginn. En þeir sem eru þungir og vilja ekki grennast eiga líka að hreyfa sig út af öllum hinum jákvæðu áhrifunum sem hreyfingin hefur á líkamsstarfsemina í heild.

Það má segja að við séum komin í hring. Einu sinni höfðum við bara hreyfingu og mataræði. Síðan kom nútímalæknisfræði með öllum sínum ráðum, aðgerðum og lyfjum. En núna erum við farin að horfa aftur á hreyfinguna og mataræði ogviðurkenna að góð lyf eru ekki nóg til að sigrast á heilsufarsvandamálum. Nútímalæknisfræðin er frábær og nauðsynlegí mörgum tilfellum en við megum ekki gleyma grunnstoðum góðrar heilsu, að þurfa alltaf að gæta þess að hreyfa sig og ástunda hollt mataræði.“

Krónískir bólgusjúkdómar

Er mikil hætta á því að bólgur leiði til langvinnra sjúkdóma?

„Gigtarsjúkdómar eru nánast allir krónískir sjúkdómar. Ef við tökum bara þá sjúkdóma sem ég meðhöndla sem gigtarlæknirþá eru þeir allir krónískir. Mér hefur því miður aldrei tekist að lækna neinn af gigtarsjúkdómi en hefur þó tekistað minnka einkenni hjá mörgum sjúklingum. Við vitum að ómeðhöndlaður gigtarsjúkdómur þýðir að bólgan er stjórnlausí líkamanum. Það veldur hjarta- og æðasjúkdómum, nýrnavandamálum og svo framvegis. Til eru afbragðsgóðar faraldsfræðilegar rannsóknir sem sýnt hafa að gigtarsjúklingar eru í tvöfaldri og allt upp í áttfaldri áhættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma seinna á ævinni hafði þeir verið með virkan bólgusjúkdóm.

Það má segja að ein megin áhersla gigtarlækninga gangi út á að kveða niður bólgur með öllum tækjum og tólum sem við höfum yfir að ráða. Við viljum ekki leyfa liðagigtarsjúklingi að ganga lengi með ómeðhöndlaðan sjúkdóm, sama á við um hrygggikt, rauða úlfa, æðasjúkdóma, fjölvöðvagigt og fleira. Afleiðingarnar af því að gera ekki neitt geta verið mjög alvarlegar fyrir sjúklinginn. Bólgu á sem sagt ávallt að kveða niður eins fljótt og maður getur.“

Gegn betri vitund

Er fólk almennt meðvitað um þessa hluti þegar það kemur til þín – eða ríkir vanþekking í kringum bólgusjúkdóma?

„Fólk er flest meðvitað um hvað þarf til þess að lifa heilbrigðu lífi. En vissulega er fólk misjafnlega móttækilegt fyrir því að gera það að parti af sínu lífi. Mér finnst til dæmis stórfurðulegt að einhverjir skuli enn reykja í dag, bæði meðtilliti til vitneskju okkar um skaðsemi reykinga og svo allra þeirra annarra leiða sem hægt er að fara til að neyta nikótíns. Af hverju að kveikja í sígarettu og anda að sér reyknum þegar hægt er að fá sér nikótíntyggju, alls konar úða, töflur og veipur í staðinn. Þarna er um að ræða margt fólk sem hefur heyrt boðskapinn en ekki meðtekið hann í raun og veru. Sama má segja um mataræði og hreyfingu – fólk tekur iðulega lélegar ákvarðanir þótt það viti betur.

Fólk þarf líka að átta sig á því hvað því hentar sjálfu. Við erum öll svo ólík og fáumst við svo ólíka hluti – samt er svo rík tilhneiging til að reyna að steypa öllum í sama mótið, að halda því fram að eitt gildi fyrir alla þegar kemur til dæmis að mataræði og öðrum þáttum varðandi lífsstíl. Það er ekki hægt að gefa út einn matseðill fyrir alla – börn, unglinga, fullorðið fólk, gamalmenni, sjúklinga, heilsuhrausta og svo framvegis. Það getur bara ekki staðist. Ég held að Michael Pollan hafi sagt þetta best þegar hann dró alla næringarfræði saman í eina setningu: „Eat real food, mostly plants and nottoo much.“ Sem sagt að fólk eigi almennt séð að borða alvörumat, mest úr plönturíkinu og gæta hófs í neyslunni.“

Mikilvægt að greina bólgusjúkdóma snemma

Hvað á fólk að gera ef það telur sig vera með bólgur?

„Líkt og gildir um öll önnur heilsufarsmál á það byrja á því að fara til heimilislæknis síns og láta skoða sig. Það er mjögmikilvægt að greina fólk með bólgusjúkdóma snemma, því ef það er með raunverulegan bólgusjúkdóm þarf það að komast sem fyrst til gigtarlæknis til að fá viðeigandi meðferð til að aftra því að líkamsvefir skemmist, hreyfigeta minnki, það verði óvinnufært og glati þar með lífsgæðum sínum. Þá má ráðleggja þeim sem greinast með langvinnt verkjavandamál að huga fyrst og fremst að lífstíl sínum með tilliti til hreyfingar, sjúkraþjálfunar, góðum svefnvenjum og huga sérstaklega að andlegri heilsu.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum