Greinar / 26. október 2017

Munu börnin okkar lifa skemur en við?

Blikur eru á lofti varðandi framþróun undanfarinna áratuga þar sem meðal ævinhefur lengst og sjúkdómsbyrðin hefur minnkað. Ef ekkert er að gert stefnir í að kynslóð barnanna okkar lifi skemur en við sjálf og við verri heilsu.

Sextíu og fimm ára gamall Íslendingur gat vænst þess að lifa fjórum mánuðum skemur árið 2016 en árið þar á undan og þarf að leita aftur til 2013–14 til að sjá þessa tölu aftur: 19 ár ólifuð fyrir karla og 21 ár fyrir konur. Ævilíkur við fæðingu breytast minna. Konur hafa getað vænst þess að lifa fram á 84. æviár síðan árið 2009 og karlar fram á það 81. síðan 2011. Þetta má lesa út úr upplýsingum Hagstofunnar um meðal ævilengd og eftirlifendatölu.(1)

Árið 2015 styttist meðalævi Bandaríkjamanna í fyrsta sinn í áratugi, síðan HIV-faraldurinn hjó skörð í raðir yngra fólks á tíunda áratugnum. Um leið fór dánartíðni af völdum krabbameina minnkandi meðan dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, langvinnra lungnasjúkdóma, Alzheimer og sykursýki fór vaxandi. Þetta má lesa út úr gögnum frá bandarísku Smitsjúkdóma- og forvarnastofnuninni.(2)

Hér á Íslandi hafa hefðbundnir áhættuþættir kransæðasjúkdóma eins og reykingar, hátt kólesteról í blóði og háþrýstingur verið á undanhaldi síðan 1980. Vaxandi offita og sykursýki gæti snúið þeirri þróun við á næstu áratugum verði ekkert að gert en rannsóknir Hjartaverndar benda til þess að breytingar á lífsstíl þjóðarinnarmuni leiða af sér vaxandi dánartíðni vegna sjúkdómsins á komandi áratugum. Ísland er það eina af Norðurlöndunum þar sem algengara er að vera í ofþyngd eða offitu heldur en í kjörþyngd og Íslendingar borða langmest af sætmeti. Þetta og fleira má lesa í grein Karls Andersen og fleiri í Læknablaðinu í október 2017.(3)

Það eru ekki einungis aukin dánartíðni og lækkandi meðalaldur sem við þurfum að hafa áhyggjur af, heldur fer sjúkdómsbyrðin vaxandi með auknu algengi langvinnra, lífsstílstengdra sjúkdóma á borð við sykursýki 2 og aukinnar tíðni offitu og tengdra kvilla. Allt bendir til þess að áframhaldandi aukning í offitu og sykursýki muni leiða til aukningar á dauðsföllum vegna hjarta- og æðasjúkdóma á komandi áratugum.

Að óbreyttu stefnir í að við verðum veikari lengur og deyjum fyrr. Aðeins lýðgrundaðar forvarnir geta á raunhæfan hátt stöðvað þessa óheillaþróun.

Heimildir
  1. Hagstofa Íslands. Meðalævilengd og eftirlifendatala 1971–2016, http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__Faeddirdanir__danir__danir/MAN05401.px/ (sótt 10. okt. 2017). Hagstofa Íslands. 2017.
  2. Xu JQ, Murphy SL, Kochanek KD, Arias E. Mortality in the United States, 2015. NCHS data brief, no267. Hyattsville, MD: National Center for Health Statistics. 2016.
  3. Karl Andersen og fleiri. Úr gögnum Hjartaverndar: Faraldsfræði kransæðasjúkdóma á Íslandi í hálfaöld. Læknablaðið 10. tbl. 2017.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum