Greinar / 22. júní 2017

Sykurinn

Síðastliðna áratugi hefur það verið hin almennt viðurkennda afstaða vísindasamfélagsins að mikil fituneysla og einkum neysla á mettaðri dýrafitu sé sá þáttur í nútímamataræði sem hafi hvað sterkust tengsl við hjarta- og æðasjúkdóma. Þessi trú manna á sér rót i kenningum sem þróuðust um eða upp úr miðri síðustu öld þar sem tengsl fundust milli aukins kólesterólmagns í blóði og hjarta- og æðasjúkdóma. Sá vísindamaður sem hvað þekktastur var fyrir að halda þessu fram var bandarískur lífeðlisfræðingur að nafni Ancel Keys sem áður hafði getið sér gott orð fyrir rannsóknir á svelti og matvælaþróun fyrir bandaríska herinn.

Fremur sykurinn en fitan

Í sem stystu máli hljómaði kenningin nokkurn veginn á þá leið að aukin neysla fæðu sem væri rík af kólesteróli og mettaðri dýrafitu, hækkaði kólesterólið í blóðinu sem aftur leiddi til þess að fólk þróaði með sér hjarta- og æðasjúkdóma.

Síðustu árin hafa þó hins vegar komið sífellt fleiri gögn sem benda til þess að þetta módel sé of mikil einföldun og að „vonda“ harða, mettaða fitan sé ekki sá mikli sökudólgur sem menn hafa hingað til haldið. Þvert á móti eru böndin æ meira farin að berast að sykri og öðrum auðmeltum kolvetnum sem ætti að teljast töluvert áhyggjuefni þar sem neyslan á þessum vörum hefur aukist töluvert undanfarna áratugi. (1-6)

Í ljósi nýrri vísinda er rétt að rifja upp að á sama tíma og kenningarnar um mettuðu fituna komu fram hafði önnur kenning verið sett fram um að sykur væri sá þáttur í mataræði nútímamannsins sem hefði hvað sterkust tengsl við hjarta- og æðasjúkdóma. (7)

Vísindamaðurinn sem var hvað þekktastur fyrir að halda þessari tilgátu á lofti á þessum tíma var breskur lífeðlis- og næringarfræðingur að nafni John Yudkin. Skrifaði hann bók um efnið sem kallaðist „Pure, White and Deadly: The Problem of Sugar“ og kom út árið 1972, þar sem hann rakti tengsl sykurs við marga króníska sjúkdóma, einkum tannskemmdir, offitu, sykursýki og kransæðasjúkdóm. Í lokakafla þeirrar bókar koma einnig fram dæmi um það hvernig sykuriðnaðurinn reyndi að stöðva fjármögnun og birtingu rannsókna hans á sykri auk dæma um illt umtal og persónulegan rógburð sem áðurnefndur Ancel Keys beitti til að draga úr trúverðugleika hans. (8)

Á endanum hafði Keys og kólesterólkenning hans betur og undir lok 8. áratugarins hófu bandarísk stjórnvöld stórsókn gegn fitunni. Dreifðist boðskapurinn þaðan út um allan heim. Matvælaframleiðendur brugðust við kallinu og hófu framleiðslu á fituskertum matvælum sem bragðbætt voru með sykri og sætuefnum og seld sem heilsuvara, enda „low-fat“. Neysla á öðrum kolvetnaríkum vörum svo sem brauði, morgunkorni og pasta jókst mikið í kjölfarið, enda beinlínis hvatt til þess af yfirvöldum þar í landi. (9)

Einmitt frá þessum tíma hefur tíðni offitu, áunninnar sykursýki og efnaskiptavillu (heilkenni eða safn sjúkdóma sem samanstendur af hækkuðum blóðþrýstingi, blóðfituröskun, fitusöfnun í og utan um innri líffæri og skertu sykurþoli/sykursýki) vaxið gríðarlega hratt. (10) Erfitt er að sýna fram á beint orsakasamhengi þar á milli en ef þáttur sykurs er skoðaður sérstaklega í þessu samhengi kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós.

Glúkósi og frúktósi

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að það sem við köllum í daglegu tali sykur er í raun það sem kallað er tvísykra en hún er samsett úr tveimur sameindum, glúkósa og frúktósa.

Glúkósasameindina má finna víða, m.a. í blóði manna og kallast hún í daglegu tali blóðsykur eða þrúgusykur og er lífsnauðsynleg sameind. Frúktósi er hins vegar það sem í daglegu tali kallast ávaxtasykur og er eins og nafnið gefur til kynna, fyrst og fremst að finna í ávöxtum.

Þegar sykurinn kemur í sínu náttúrulega formi í ávextinum og er borðaður algjörlega óunninn í hóflegu magni frásogast hann hægt og hefur þ.a.l. minni áhrif á blóðsykurinn og hormón hjá heilbrigðum einstaklingi. Eftir því sem ávöxturinn er meira unninn og sykurinn meira einangraður og fjarlægður úr sínu náttúrulega formi, s.s. þegar hann er settur í þeyting eða safapressu, verða blóðsykur- og hormónasveiflurnar meiri. (11,12) Áhrifin af hreinum ávaxtasafa og gosdrykkjum eru því keimlík að þessu leyti og flokkar Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) þetta því saman undir heitinu frír sykur (e. „free sugar“). Samkvæmt ráðlegginum þeirra ætti neysla á fríum sykri ekki að yfirstíga 5-10% af heildarorkuinntöku sem eru u.þ.b. 30-50 g fyrir fullorðinn einstakling. (13) Það gerir um 6-12 teskeiðar sem er um það bil magnið í 1-2 gosdósum eða glösum af safa.

Ein af helstu röksemdunum sem hefur verið beitt að hálfu þeirra sem tala gegn því að sykur sé skaðlegri en önnur matvæli er sú að málið snúist um hitaeiningar, þ.e. að vandamálið sé einfaldlega að fólk innbyrði meiri mat en líkaminn ræður við að brenna og þar af leiðandi fitni fólk og að offitan leiði síðan til sjúkdóma. Sykur sé einungis eitt form af orku og því ekki verri eða betri uppspretta af hitaeiningum. Vandamálið við þessa röksemdafærslu er sú að hugtakið hitaeining kemur úr varmafræði og lýsir einfaldlega þeirri varmaorku sem losnar úr tilteknu efni þegar það er brennt. Mannslíkaminn er mun flóknari maskína en gasbrennari.

Sem dæmi sýndi stór og viðamikil rannsókn með gögnum frá 175 löndum að ef áætluð neysla á sykri jókst um 150 hitaeiningar á einstakling á dag, sem er um það bil ein gosdós, jókst algengi sykursýki um 1,1% í því landi. Hins vegar ef þessar hitaeiningar komu frá öðrum matvælum jókst algengið einungis um 0,1%. Samkvæmt þessu er því rúmlega tífaldur munur á áhættunni á sykursýki eftir því hvort hitaeiningarnar komi frá sykri eða öðrum matvælum. Að auki sýndi rannsóknin að breytingarnar voru óháðar offitu. (14)

Önnur nýleg rannsókn á börnum með offitu og efnaskiptavillu sýndi jafnframt að sykur hefur verri áhrif á efnaskiptin heldur en önnur auðmelt kolvetni. Með því að skipta út sykri fyrir sterkju (t.d. brauð og pasta) og halda hitaeiningainntöku óbreyttri en minnka þess í stað meðalneyslu barnanna á sykri úr 28% niður í 10% af heildarorku sýndu vísindamennirnir fram á marktækan mun á efnaskiptum barnanna til hins betra. Þessum breytingum var hægt að ná fram á einungis tíu dögum og voru þær óháðar þyngdartapi. Kolvetnin sem börnin fengu í stað sykursins voru þannig ekki beinlínis neitt heilsufæði en engu að síður höfðu þau minni áhrif á efnaskiptin. (15) Það eru því ekki allar hitaeiningar jafnar að þessu leyti.

Hagsmunatengdar rannsóknir

Í dag hefur safnast gríðarlega mikið af upplýsingum og rannsóknum um heilsufarsleg áhrif sykurs en þegar rannsóknir eru skoðaðar með tilliti til þess hvernig þær séu fjármagnaðar, kemur í ljós töluverður munur á því hvort tengsl finnist milli sykurneyslu og offitu, sykursýki og tengdra sjúkdóma. Flestar óháðar rannsóknir benda til skaðsemi á meðan þær sem eru fjármagnaðar af hagsmunaaðilum gera það ekki. (16-18) Einnig hefur komið nýlega í ljós að fyrirtæki í sykuriðnaði hafa í áratugi eytt töluverðum fjármunum í að fjármagna rannsóknir og skýrslur í því augnamiði að beina athygli vísindasamfélagsins og almennings frá skaðsemi sykurs (19,20).

Sykuriðnaðurinn er þó langt í frá neitt einsdæmi þegar kemur að þessu tiltekna atriði en svo virðist sem það sé nánast ófrávíkjanleg regla að niðurstöður rannsókna sem eru fjármagnaðar af hagsmunaaðilum í matvælaiðnaði séu þeim í hag. (21) Þetta atriði skiptir því töluvert miklu máli þegar meta skal vægi rannsókna og skyldi engan undra að vísindasamfélagið og almenningur fái misvísandi skilaboð um hvað sé satt og rétt.

Ekki magnið heldur gæðin

En hvað á fólk þá að borða? Síðustu áratugi hefur umræðan mikið snúist um orkuefnin, þ.e. hversu mikið af fitu, kolvetnum og prótínum fólk eigi að innbyrða en að öllum líkindum missir sú umræða marks því fólk borðar mat en ekki orkuefni. Sem dæmi kom nýlega út vönduð rannsókn sem gerð var í Bergen í Noregi sem varpar nokkuð skýru ljósi á þetta. Í rannsókninni voru 46 einstaklingar sem voru með efnaskiptavillu og var þeim skipt í tvo hópa og fylgt eftir í 12 vikur. Annar hópurinn borðaði kolvetnaríkt mataræði á meðan hinn hópurinn borðaði mjög kolvetnasnautt og fituríkt fæði sem innihélt mikið af mettaðri fitu. Prótíninntakan var eins í báðum hópum og hitaeiningarnar sömuleiðis en taka skal jafnframt fram að hitaeiningar voru hafðar innan eðlilegra marka. M.ö.o. þetta voru ekki sveltikúrar.

Í báðum hópum voru öll mikið unnin matvæli tekin út, s.s. viðbættur sykur, hveiti og verksmiðjuunnar jurtaolíur með háu omega-6 innihaldi. Öll fita kom úr smjöri, rjóma eða kaldpressuðum olíum og kolvetnin voru sömuleiðis ekkert eða lítið unnin með lágum sykurstuðli.

Niðurstaðan? Báðir hóparnir náðu mjög góðum árangri og enginn marktækur munur var á hópunum að lokinni rannsókninni. (22) Þeir einstaklingar í rannsókninni sem juku hitaeiningainntökuna sína á tímabilinu grenntust líka og áhættuþættir þeirra fyrir hjarta- og æðasjúkdómum bötnuðu sömuleiðis. (23) Enn eitt dæmi þess að mannslíkaminn virkar ekki eins og gasbrennari og kaloríur einar og sér skýra ekki offitu og efnaskiptavandamál.

Ég ætla því að leyfa mér að vitna að lokum í höfunda rannsóknarinnar: „Það virðist því vera að meginregla heilbrigðs mataræðis sé ekki magnið af kolvetnum eða fitu, heldur gæði matarins sem við borðum. Meint heilsufarsleg áhætta þess að borða gæðafitu hefur verið ýkt fram úr hófi. Það gæti því verið meira um vert fyrir lýðheilsu að hvetja til minni neyslu á matvörum sem innihalda unnið hveiti, mikið unnar olíur og viðbættan sykur.“ (23)

Heimildir
 1. DiNicolantonio, J., Lucan, S., & O’Keefe, J. (2016). The Evidence for Saturated Fat and for Sugar Related to Coronary Heart Disease. Progress In Cardiovascular Diseases, 58(5), 464-472.
 2. Teo, K., Chow, C., Vaz, M., Rangarajan, S., & Yusuf, S. (2009). The Prospective Urban Rural Epidemiology (PURE) study: Examining the impact of societal influences on chronic noncommunicable diseases in low-, middle-, and high-income countries. American Heart Journal, 158(1), 1-7.e1.
 3. http://www.docsopinion.com/2017/02/27/carbs-fats-heart-disease-purestudy/.
 4. Siri-Tarino, P., Sun, Q., Hu, F., & Krauss, R. (2010). Meta-analysis of prospective cohort studies evaluating the association of saturated fat with cardiovascular disease. American Journal Of Clinical Nutrition, 91(3), 535-546.
 5. Ramsden, C., Zamora, D., Majchrzak-Hong, S., Faurot, K., Broste, S., & Frantz, R. et al. (2016). Re-evaluation of the traditional diet-heart hypothesis: analysis of recovered data from Minnesota Coronary Experiment (1968-73). BMJ, i1246. doi:10.1136/bmj.i1246.
 6. Ramsden, C., Zamora, D., Leelarthaepin, B., Majchrzak-Hong, S., Faurot, K., & Suchindran, C. et al. (2013). Use of dietary linoleic acid for secondary prevention of coronary heart disease and death: evaluation of recovered data from the Sydney Diet Heart Study and updated metaanalysis. BMJ, 346(feb04 3), e8707-e8707. doi:10.1136/bmj.e8707.
 7. Yudkin, J. (1964). DIETARY FAT AND DIETARY SUGAR IN RELATION TO ISCHÆMIC HEART-DISEASE AND DIABETES. The Lancet, 284(7349), 4-5. doi:10.1016/s0140-6736(64)90002-9.
 8. Pure, White and Deadly, How Sugar Is Killing Us and What We Can Do to Stop It by John Yudkin. (1972). Penguin.
 9. Light, Luise: “What to Eat: The Ten Things You Really Need to Know to Eat Well and Be Healthy” 2006.
 10. http://www.thelancet.com/gbd.
 11. Ludwig DS. Examining the health effects of fructose. JAMA 2013; 310: 33-4.
 12. G.B. Haber, K.W. Heaton, D. Murphy, L.F. Burroughs Depletion and disruption of dietary fibre effects on satiety, plasma glucose, and seruminsulin. Lancet, 2 (1977), pp. 679–682.
 13. http://www.who.int/nutrition/publications/guidelines/sugars_intake/en/.
 14. Basu, S., Yoffe, P., Hills, N., & Lustig, R. (2013). The Relationship of Sugar to Population-Level Diabetes Prevalence: An Econometric Analysis of Repeated Cross-Sectional Data. Plos ONE, 8(2), e57873. doi:10.1371/ journal.pone.0057873.
 15. Lustig, R., Mulligan, K., Noworolski, S., Tai, V., Wen, M., & Erkin-Cakmak, A. et al. (2015). Isocaloric fructose restriction and metabolic improvement in children with obesity and metabolic syndrome. Obesity, 24(2), 453-460. doi:10.1002/oby.21371.
 16. Bes-Rastrollo M, Schulze MB, Ruiz-Canela M, Martinez-Gonzalez MA. Financial conflicts of interest and reporting bias regarding the association between sugar-sweetened beverages and weight gain: a systematic review of systematic reviews. PLoS Med 2013; 10:e1001578; discussion.
 17. Massougbodji, J., Le Bodo, Y., Fratu, R., & De Wals, P. (2014). Reviews examining sugar-sweetened beverages and body weight: correlates of their quality and conclusions. American Journal Of Clinical Nutrition, 99(5), 1096-1104. doi:10.3945/ajcn.113.063776.
 18. Schillinger, D., Tran, J., Mangurian, C., & Kearns, C. (2016). Do SugarSweetened Beverages Cause Obesity and Diabetes? Industry and the Manufacture of Scientific Controversy. Annals Of Internal Medicine, 165(12), 895.
 19. Kearns, C., Schmidt, L., & Glantz, S. (2016). Sugar Industry and Coronary Heart Disease Research. JAMA Internal Medicine, 176(11), 1680.
 20. http://www.huffingtonpost.ca/2015/11/30/the-global-energy-balancecoke_n_8685320.html.
 21. http://www.foodpolitics.com/tag/conflicts-of-interest/.
 22. Veum, V., Laupsa-Borge, J., Eng, Ø., Rostrup, E., Larsen, T., & Nordrehaug, J. et al. (2016). Visceral adiposity and metabolic syndrome after very high–fat and low-fat isocaloric diets: a randomized controlled trial. The American Journal Of Clinical Nutrition, 105(1), 85-99. doi:10.3945/ajcn.115.123463.
 23. http://www.uib.no/en/mofa/103172/very-high-fat-diet-reversed-obesityand-disease-risk.

Guðmundur F. Jóhannsson

Læknir

Nýtt á vefnum