Greinar / 22. júní 2017

Virðisaukaskattur og hollusta

Slæmt mataræði er stærsti einstaki áhættuþáttur lífsstílstengdra sjúkdóma á borð við áunna sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma. Einnig tengist slæmt mataræði offitu og fjölmörgum sjúkdómum sem af henni leiða, og jafnvel sumum krabbameinum. Áhrif mataræðis á heilbrigði er ótvírætt.

Heilsufarsskaði Íslendinga er mældur í „glötuðum góðum æviárum“ sem eru samtala æviára sem glatast vegna ótímabærs dauða og æviára lifað við örorku eða skerðingu. Þegar þessar tölur eru settar í samhengi við verga landsframleiðslu á mann kemur í ljós að heilsufarsskaðinn nemur tæpum fimmtungi landsframleiðslunnar á ári hverju og stefnir í 500 milljarða króna á þessu ári.

Væntanlega verður seint unnt að koma alfarið í veg fyrir heilsufarsskaða, en við getum gert mun betur varðandi stærsta áhættuþáttinn, slæmt mataræði. Það er nefnilega ekki alfarið einkamál hvers og eins að valda sjálfum sér skaða með óhollustu, því kostnaðurinn lendir á samfélaginu.

Vel heppnaðar lýðheilsuaðgerðir eru oftast samsettar af íþyngjandi, ívilnandi og upplýsandi aðgerðum. Sem dæmi má nefna álagningu tóbaksgjalds og áfengisgjalds samhliða upplýsingu um skaðsemi þessara vara. Á Íslandi var vörugjald á sykur hins vegar afnumið árið 2015 og engin sérstök skattlagning er nú í gangi gagnvart óhollum matvörum.

Hér er því velt upp tvíþættri hugmynd: Að afnema virðisaukaskatt alfarið af matvörum sem bera hið samnorræna hollustumerki skráargatið, og færa á móti sykraðar vörur upp í efra virðisaukaskattsstigið í samræmi við ábendingar frá Embætti landlæknis.

Skráargatið má finna á langflestum vöruflokkum, allt frá hreinum, óunnum matvælum á borð við kjöt og fisk, yfir í tilbúna rétti, morgunkorn, mjólkurvörur, brauð, viðbit og álegg. Vörur geta borið skráargatið ef þau uppfylla kröfur um minni og hollari fitu, minna salt, minni sykur, og meiri trefjar og heilkorn.

Margir framleiðendur og innflytjendur matvara hafa kosið að nýta sér skráargatið til að merkja hollustu valkostina en þó mætti hér gera mun betur, því margar vörur er að finna í hillum verslana sem uppfylla öll skilyrði án þess þó að vera merktar með skráargatinu. Framleiðendur og innflytjendur eiga hér talsvert sóknarfæri.

Smásöluaðilar eiga ekki síður sóknarfæri í að leiðbeina neytendum með því að gera skráargatsmerktum vörum hærra undir höfði, jafnvel setja upp skráargatshillu og skráargatskæli til að koma þessum vörum sérstaklega á framfæri. Smásalar geta líka beint þeim óskum til framleiðenda að setja skráargatsmerkið á vörur sem uppfylla skilyrðin, auk þess sem ýmsar ferskar vörur, t.d. úr kjötborði, má merkja með skráargatinu.

Heilbrigði þjóðarinnar kemur okkur öllum við, og hér er tækifæri fyrir ríkisvaldið, matvælageirann og almenning að fylkja sér um málstaðinn um betra mataræði: Afnemum virðisaukaskatt af skráargatsmerktum matvörum og færum sykraðar vörur í hærra skattþrepið.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum