Greinar / 23. febrúar 2017

Að temja sér skynsamlegt hóf í flestu

Páll Kristinn Pálsson ræðir við Einfríði Árnadóttur röntgenlækni um reynslu hennar af líkamsræktarstöðinni Heilsuborg, sem hefur skapað sér nokkra sérstöðu á þessu sviði með heildstæðri nálgun þar sem m.a. næringarfræði og læknisfræði fléttast saman við líkamsþjálfunina.

„Ég hafði svo sem dinglað í einhverri leikfimi í mörg herrans ár,“ segir Einfríður aðspurð um ástundun sína í heilsurækt í gegnum tíðina. „En svo sá ég auglýst hið heildstæða módel frá Heilsuborg sem kallast Heilsulausnir og fannst það strax höfða mikið til mín. Reyndar tók það mig svolítinn tíma að ákveða að fara að stað með þetta en tók svo loks af skarið og mætti á kynningarfund. Það var mjög áhugaverður fundur, þar sem málin voru rædd frá öllum hliðum og kynnt hin heildstæða nálgun sem Heilsuborg býður upp á. Leikfimistímarnir eru til að mynda sniðnir að allra þörfum, en ekki keyrt eitt og sama prógrammið fyrir allan hópinn.“

Ýmsir valkostir

Einfríður lenti í hópi með konum sem höfðu bæði stoðkerfisvandamál og glímdu við mismikla ofþyngd, svo eitthvað sé nefnt. „Já, ég þurfti einnig að léttast líkt og hinir í hópnum en var ekki með verkjavandamál.“

Hvernig var svo dagskráin? „Þetta er ekki eins og þegar auglýst er til dæmis sex vikna námskeið og maður mætir og það á aldeilis að taka á því frá byrjun, með svaka músík og hraða. Það er að mínum dómi heldur ekki leiðin til lífsstílsbreytingar, að fara í sex vikna stífa leikfimi, sem fólk getur jafnvel ekki tekið þátt í nema að litlu leyti. Í tímum hjá Heilsuborg er fólki þvert á móti boðið upp á ýmsa valkosti og reynt að benda á það sem því hentar, þannig að það geta allir tekið þátt og gera það bara á sínum forsendum.“

Er breyttur lífstíll lykilatriðið í þessu? „Já, og lífstíll er það sem mér hefur verið hugleikið sem læknir í fljöldamörg ár. Ég er röntgenlæknir og á því sviði vorum við komin að þeim punkti að fá til okkar fólk sem sumt hvert er of þungt fyrir tækin sem verið er að nota. Það er alltaf hægt að taka röntgenmyndir en málin vandast þegar við þurfum að nota segulómun eða annars konar sneiðmyndatæki. Niðurstöður geta orðið lakari ef fólk er mjög fyrirferðarmikið. Svo er annað atriði sem er mikilvægt í mínum huga, það er offita hjá öldruðum. Fólk á miklu minni möguleika á því að hugsa um sig sjálft á efri árum ef það er í ofþyngd.“

Þyngra og yngra

En hefur feitt fólk ekki alltaf verið til? „Jújú, það er alveg rétt en þetta er þó vandamál sem fer sífellt vaxandi. Til skamms tíma höfum við til dæmis unnið með segulómtæki sem miðaðist við að geta rannsakað fólk sem er allt að 150 kíló að þyngd. Við fáum alltaf öðru hvoru fólk sem er yfir þeirri þyngd. Núna höfum við tekið í notkun nýtt segulómtæki og það getur tekið einstaklinga sem eru 250 kíló. Og bara það að þurfa að hanna tæki sem ráða við slíka þyngd segir manni hvernig þróunin hefur verið. Það er jafnframt alltaf yngra og yngra fólk sem er of þungt, sem er líka umhugsunarefni.“

Sérðu einhver skil á síðustu árum eða áratugum þegar þróunin fór að snúast áberandi í þessa átt? „Mér finnst það vera svona síðustu 15 til 16 árin, já, frá síðustu aldamótum. Ég man að þegar tölvusneiðmyndatæki kom á Borgarspítalanum upp úr 1990 var hámarksþyngdin um 100 kg og flestir voru innan þeirra marka, en nú er viðmið hjá okkur í samsvarandi tæki 200 kg og höfum við ekki lent í vandræðum með það. Ég veit svo sem ekki hvað ræður þessari þróun. Eitt er að fullorðið fólk safni smám saman á sig einhverjum aukakílóum yfir ævina, annað að sjá fólk sem er rétt að hefja lífið, kannski um tvítugt, og er þá þegar orðið alltof þungt, það er mjög slæmt. Ég held að þetta stafi fyrst og fremst af röngu matar- æði og svo auðvitað hreyfingarleysi. Mín tilfinning er sú að mataræðið vegi um 80% og hreyfingin um 20% í þessum efnum.“

Léttast og líða betur

Einfríður.JPG

Hvað með þig sjálfa; af hverju stundar þú líkamsrækt? „Ég vildi léttast og styrkja líkamann – og það hefur svo sannarlega gengið eftir. Með þessari leikfimi, það er að segja með því að hreyfa sig meira og reglulegar, þá líður manni miklu betur. Ég gerði líka breytingar á mataræði mínu samfara þessu. Ég var alveg í tvö ár hjá Heilsuborg til að byrja með. Þá langaði mig til að prófa eitthvað annað og gerði það, en komst síðan að því að mér hentaði best prógrammið hjá Heilsuborg, sneri því þangað aftur og það var bara eins og að koma aftur heim til sín.

Hreyfing hefur svo gríðarlega mikið að segja upp á vellíðan, og bara upp á að ná sér af alls konar kvillum. Fyrir mörgum herrans árum, þegar ég fór í fyrsta skipti í líkamsræktarstöð – það var hjá Jónínu Ben á Nordica, það er svo langt síðan – þá átti ég erfitt með að bakka bíl af því mér veittist svo erfitt að horfa aftur fyrir mig vegna vöðvabólgu í hálsinum. Það er langt síðan ég losnaði við hana, og hef enga vöðvabólgu í dag.

Aðalatriðið í þessu tel ég vera að fara hægt en örugglega af stað og halda svo sínu striki til langframa, bæði hvað varðar mataræði og hreyfingu. Nokkurra vikna námskeið þar sem stefnt er á skjótan árangur – samanber „Í kjólinn fyrir jólin“ eða „Í bikiníið fyrir baðströndina“ og svo framvegis – ég held að það sé ekki rétt nálgun. Í besta falli geta þau gefið fólki spark í rassinn til að fara að gera eitthvað í sínum málum en mér sýnist líka svo margir svo fljótt gefast hreinlega upp af því þeir hafa byrjað of bratt.“

Engin boð og bönn

Hvernig breyttirðu mataræðinu? „Í stefnu Heilsuborgar um mataræðið gilda engin boð og bönn, þannig séð. Þetta byggir á Reykjalundarmódelinu um að telja einingar sem maður má borða yfir daginn. En það merkilega er að eftir því sem maður kemst í betra form því meira getur maður borðað! Aðalvandamálið í þessu, ef fólk er ekki að léttast og ná árangri, þá er það oftast af því það borðar of lítið. Eins skrítið og það hljómar, þá léttist fólk ekki af því það borðar of lítið. Módelið er að fá sér morgunmat, svo einhvern millibita, svo hádegismat, aftur millibita og svo kvöldmat – ákveðið en temmilegt magn í hvert skipti og þetta getur verið mjög svo fjölbreytt. Með þessu skapast visst jafnvægi þannig að maður þarf ekki þetta nart lengur.

Fólk sem drekkur bara kaffi allan daginn og snæðir svo stóra máltíð um kvöldið er í tómri vitleysu. Það er alveg satt sem Guðjón Valur segir í auglýsingunni: þegar maður fær sér hafragraut á morgnana þá verður dagurinn allur annar! Ef maður síðan borðar skipulega yfir daginn, ekki of mikið í senn, þá hverfur löngunin í nammi og maður fer til dæmis ekki glorsoltinn inn í matarbúð og kaupir eitthvað sem maður ætlaði ekki að kaupa, gerir eitthvað sem maður ætlaði ekki að gera.“

Skipulag og festa

Einfríður segir það afskaplega auðvelt að leiðast út af sporinu. „Þetta byggist fyrst og fremst á skipulagi og aga, að koma sér upp rútínu“ segir hún. „Og finnast þetta skemmtilegt. Hjá Heilsuborg er líkt og maður sé kominn inn í eins konar fjölskyldu. Það er svo vel tekið á móti öllum, það er alveg sama hvernig maður er og í hverju maður er – ég hef svo sem aldrei verið í líkamsrækt og haft áhyggjur af því að vera ekki í réttu fötunum, en sumir hugsa þannig. Leiðbeinendurnir eru alveg frábærir og skemmtilegir, þetta eru alltaf alveg frábærir tímar og stundum hittumst við líka þar fyrir utan, hópurinn.

Ég mæti þrisvar í viku og byrja þá daginn á þessu, mæti klukkan 20 mínútur yfir 6 á morgnana. Ég segi ekki að ég spretti alltaf með bros á vör fram úr rúminu svo snemma, en það léttist alltaf á manni brúnin þegar maður er mættur á staðinn, og svo hefur þessi æfingatími þann kost að maður á hann ekki eftir þegar vinnudeginum lýkur. Hjá mér munar þetta reyndar ekki svo miklu, þar sem ég mæti yfirleitt í vinnuna klukkan 7.30 á morgnana og þarf því að vakna klukkutíma fyrr. En þar fyrir utan er mjög gott að stunda líkamsræktina áður en maður fer til vinnu, ég ráðlegg öllum að prófa það að minnsta kosti, því dagurinn hjá manni verður allur svo miklu betri fyrir vikið.“

Heilsurækt í stað lyfja

„Síðan eru svo sniðugir þessir fræðslufundir sem haldnir eru reglulega,“ segir Einfríður. „Til dæmis fyrir jólin. Þá er farið yfir hvað sé sniðugt að gera í mataræðinu yfir hátíðirnar, sýnt hvernig maður getur farið í gegnum þetta skynsamlega en njóta samt alls konar góðgætis sem þá er á boðstólum. Einnig á sumrin, þá er talað um að setja sér það markmið að þyngjast ekki í sumarfríinu en maður þurfi heldur ekkert að léttast.

Þarna eru líka starfandi næringarfræðingar og hjúkrunarfræðingar sem fylgjast með líkamlegu ástandi fólks, þyngd, blóðþrýstingi og svo framvegis. Aðalmálið er að temja sér skynsamlegt hóf í flestu, það er meginatriðið í lífsstílsbreytingu til langframa. Heilsuborg hjálpar manni fyrst og fremst til að gera þetta … og þegar maður hefur tamið sér slíkan lífsstíl í alvöru gerast hlutirnar mikið til af sjálfu sér.

Núna skilst mér að læknar séu farnir að geta vísað fólki beint til Heilsuborgar og fólk fær svokallaða hreyfiseðla til að ráða bót á ýmsum málum, bæði líkamlegum og ekki síður andlegum. Þetta þýðir að í stað þess að taka inn lyf fari fólk frekar í svona prógram – og það tel ég að sé miklu betri kostur.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum