Greinar / 23. febrúar 2017

Að bæta líðan barna - Lifecourse rannsóknin

LR.jpg

Við lifum á athyglisverðum tímum, þar sem stöðugar breytingar eru í raun eitt af því fáa sem við getum fullkomlega reiknað með. Margar þessara breytinga eru afskaplega jákvæðar - þeim fylgja tækifæri, frelsi og jafnrétti, sem við bjuggum ekki við áður. Að sama skapi hafa áratugalangar rannsóknir sýnt fram á að örar þjóðfélagsbreytingar koma gjarnan niður á félagslegri einingu samfélagsins og geta leitt af sér aukna tíðni frávikshegðunar og andlegrar vanlíðunar.

Undanfarin nær 20 ár höfum við hjá Rannsóknum og greiningu leitast við að skilja þessar breytingar og mögulegar afleiðingar þeirra. Yfirgripsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem athygli hefur verið beint að heilsu og velferð unglinga - lífsmáta þeirra, áhættuhegðun og mögulegri frávikshegðun. Í nánu samstarfi við alla skóla á landinu eru árlega lagðar fyrir rannsóknir meðal nemenda frá 10 ára til 20 ára. Við höfum náð að skilja heilmargt í því hvernig umhverfið hefur áhrif á líðan og hegðun ungmenna og birt yfir 80 vísindagreinar og hundruð skýrslna, sem myndað hafa grunn í stefnumótun og starfi með ungu fólki.

Um þessar mundir erum við að vinna að nýrri rannsókn sem byggir á sama grunni en fer dýpra og er ætlað að veita aukinn skilning á því hvernig umhverfið og líffræðilegir þættir spila saman í að móta heilsu, líðan og hegðun einstaklingsins. Lifecourse rannsóknin beinist að því að tengja saman sjónarhorn úr mismunandi fræðigreinum; lífvísindunum, sálfræði og félagsfræði með það að markmiði að skoða hvernig streita hefur áhrif á allt í senn með því að fylgja eftir sama árgangi í gegnum æskuna og inn í unglingsárin.

Með Lifecourse rannsókninni er ætlunin að skilja betur hvernig streita hefur áhrif á líffræðileg viðbrögð, andlega líðan og hegðun. Einnig verður leitast við að skilja hvernig áhrifaþættir á mismunandi stigum tvinnast saman yfir tíma og hvort unnt sé að koma í veg fyrir eða endurbæta neikvæð streituáhrif á andlega líðan, hegðun og líffræðileg viðbrögð. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu þar sem lífvísindaleg gögn og félagsvísindaleg gögn eru sameinuð fyrir heilan árgang á landsvísu.

Hingað til höfum við náð að skilja margt og með því náð miklum árangri í að draga úr líkum á vímuefnaneyslu, en að við lifum í flóknum heimi þar sem stöðugt koma upp nýjar áskoranir og ný viðfangsefni. Vegna þess að við vinnum náið með fólki sem starfar með unglingum á vettvangi þá er það oft þannig að við heyrum um tiltekna þróun áður en við sjáum hana í rannsóknum okkar. Árið 2014 fóru sálfræðingar, kennarar, foreldrar og fleiri að benda á að það væri eitthvað að gerast hjá ungum súlkum, þær væru svo kvíðnar. Við biðum eftir gögnum úr Ungt Fólk rannsókninni, rýndum þau og sáum að kvíði og þunglyndi hafði aukist hjá hópi stúlkna árin 2014 og 2016.

Við leitumst við að skilja hvaða breytingar hafa orðið sem gætu valdið þessari aukningu og það virðist sem að mikil samfélagsmiðlanotkun tengist auknum kvíða og þunglyndiseinkennum. Erlendar rannsóknir á tengslum samfélagsmiðlanotkunar við kvíða og þunglyndi benda á að þessi tengsl séu flókin (1,2). Við eigum enn langt í land til þess að skilja hvaða ferlar liggja að baki og hvernig við getum snúið við þessari neikvæðu þróun í andlegri líðan. Eitt er ljóst eftir rannsóknarvinnu undanfarna mánuði og það er að ekki er hægt að heimfæra forvarnarmódel gegn vímuefnum yfir á andlega líðan.

Sama hvernig á málið er litið þá sjáum við að það eru tengsl á milli notkunar samfélagsmiðla og andlegrar líðanar. Samfélagsmiðlar eru partur af 21. öldinni; hluti af tæknilegum, efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum breytingum sem eru að hafa áhrif á líf okkar á margþættan hátt, jákvæðan og neikvæðan.

En samfélagsmiðlar eru einfaldlega miðlar og ekki endilega orsök andlegrar vanlíðanar. Tengslin eru þó skýr, því meiri tími sem unglingar, ekki síst unglingsstúlkur, verja á samfélagsmiðlum, því meiri líkur eru á því að þær séu kvíðnar. Sem er umhugsunarvert, ekki síst í ljósi þess að hátt í 30% stelpna verja fjórum klukkustundum eða meira á samfélagsmiðlum á hverjum degi. Annar lykilþáttur er svefninn, það eru veruleg tengsl á milli svefntíma og kvíða, því minni svefn því hærra hlutfall unglinga sem mælast háir á kvíðakvarðanum. Svefninn hefur dregist saman yfir tíma og svefninn og samfélagsmiðlanotkunin eru nátengd. Því meiri tíma sem þau verja á samfélagsmiðlum, því minna sofa þau.

MMM.JPG

Miðlarnir ekki endilega slæmir en það er vont þegar þeir trufla svefninn og daglegar athafnir. Tíminn sem fer í miðlana er tími sem hefði getað farið í aðra uppbyggilega iðju. Félagslegur samanburður sem á sér stað þegar að við sjáum glansmyndir af lífi annarra getur haft neikvæð áhrif á líðan. Einnig er erfitt að vera uppspenntur, með áhyggjur af því að missa af og vera ekki stanslaust til staðar í netheiminum.

Það má einu gilda hvernig horft er á þessar breytingar, hvort við lítum á þær sem jákvæða þróun með auknum möguleikum og jafnrétti eða á neikvæðari nótum sem merki hnignunar, þá má ljóst vera að hefðir gærdagsins eru ekki lengur venjur eða lífsmáti dagsins í dag. Ungt fólk horfist í augu við vandamál, tilboð og viðfangsefni sem kalla á ný viðhorf. Samfélagsmiðlar eru hluti af stærri þróun, sem ekki verður stoppuð – enda ekki ástæða til. Þeir eru á margan hátt skemmtilegir og gegna mörgum mikilvægum hlutverkum. Við þurfum hins vegar að læra að lifa með þeim, skilja hvernig notkun þeirra tengist öðrum þáttum í lífi barnanna okkar og reyna að koma í veg fyrir að þeir valdi skaða.

Það gerum við á sama hátt og alltaf áður; með því að tryggja mikilvægi grundvallarþátta eins og félagslegs stuðnings og félagslegrar stjórnunar; með því að verja tíma með börnunum okkar, styðja þau, tala við þau og leitast við að skilja þann heim eða þá heima sem þau lifa í; með því að efla nærsamfélagið og að byggja utan um einstaklinginn, bæta aðstæður hans og hafa þannig áhrif á líðan hans.

Heimildir

  1. Baker DA, Algorta GP. The Relationship Between Online Social Networking and Depression: A Systematic Review of Quantitative Studies. Cyberpsychology Behav Soc Netw. 2016 Oct 12;19(11):638–48.
  2. Seabrook EM, Kern ML, Rickard NS. Social Networking Sites, Depression, and Anxiety: A Systematic Review. JMIR Ment Health. 2016 Nov 23;3(4):e50.

Ingibjörg Eva Þórisdóttir

Lýðheilsufræðingur MPH, Rannsóknir og greining

Inga Dóra Sigfúsdóttir

Prófessor HR, Columbia Uni, Rannsóknir og greining

Nýtt á vefnum