Greinar / 23. febrúar 2017

Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum

Á síðastliðnu ári birti Embætti landlæknis í fyrsta skipti svokallaða lýðheilsuvísa (e. public health indicators) fyrir hvert heilbrigðisumdæmi á Íslandi. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Birting lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi er liður í því að veita yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig í samanburði við landið í heild. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í eigin umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að hægt sé að vinna að því að bæta heilsu og líðan.

Norskir lýðheilsuvísar voru notaðir sem fyrirmynd að framsetningu á lýðheilsuvísum embættisins. Þeir eru birtir sem einblöðungar fyrir hvert heilbrigðisumdæmi á vef embættisins en ráðgert er að endurskoða og birta vísana árlega.

Hvað hefur áhrif á heilsu og líðan?

Fjölmargir þættir hafa áhrif á heilsu og líðan einstaklinga. Sumum áhrifaþáttum heilsu er ekki hægt að breyta, t.d. aldri og erfðum. Margir aðrir áhrifaþættir heilbrigðis eru hins vegar þess eðlis að hafa má áhrif á þá til þess að stuðla að bættri heilsu og vellíðan einstaklinga og minnka líkur á sjúkdómum. Má þar nefna lifnaðarhætti á borð við áfengisog tóbaksneyslu, mataræði og hreyfingu og samskipti við fjölskyldu og vini. Lífsskilyrði eins og framboð og aðgengi að menntun, atvinnu, húsnæði, heilbrigðis- og félagsþjónustu hafa einnig mikil áhrif á heilsu og líðan svo fátt eitt sé nefnt. Með því að hafa heilsu og líðan að leiðarljósi í allri stefnumótun og aðgerðum má skapa umhverfi og aðstæður, t.d. í skólum, á vinnustöðum og almennt í samfélögum, sem stuðla að heilbrigðari lifnaðarháttum, betri heilsu og líðan nemenda, starfsfólks og íbúa og minnka ójöfnuð í heilsu. Þannig má t.d. stuðla að betra mataræði og aukinni hreyfingu með því að greiða aðgengi að hollum mat og skapa umhverfi sem hvetur til hreyfingar.

Svæðisbundinn munur á heilsu

Svæðisbundinn munur á heilsu og líðan er þekktur um allan heim. Almennt er hins vegar lítið vitað um svæðisbundinn mun á heilsu og líðan á Íslandi þó að einhverjar rannsóknir bendi til þess að slíkur munur sé til staðar. Til þess að draga sem mest úr svæðisbundnum mun á heilsu og líðan þarf að fylgjast með tilteknum mælikvörðum sem gefa þennan mun til kynna og miðla upplýsingum til þeirra sem starfa á vettvangi. Hjá Embætti landlæknis er unnið að heilsueflingu á heildrænan hátt í gegnum Heilsueflandi samfélag og Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem áhersla er lögð á að skapa aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan allra. Það er kjörið að sveitarfélög nýti sér svæðisbundna lýðheilsuvísa í sinni vinnu til að setja fram áætlanir sem miða að því að efla þá þætti sem leggja þarf áherslu á. Þá horfir Embætti landlæknis til þess að heilbrigðisþjónustan og sveitarfélögin geti á grundvelli svæðisbundinna lýðheilsuvísa og Heilsueflandi samfélags unnið saman að því að bæta heilsu og líðan íbúanna. Lýðheilsuvísar embættisins koma einnig að notum fyrir stjórnvöld við stefnumótun og ákvarðanatöku þar sem taka þarf tillit til áhrifa á heilsu og líðan íbúa. Má þar sem dæmi nefna aðgerðir sem snúa að auknu aðgengi að hollustu og takmörkuðu aðgengi að óhollustu.

IB.JPG

IB1.JPG

Val á lýðheilsuvísum

Svæðisbundnir lýðheilsuvísar Embættis landlæknis voru 44 talsins árið 2016 og falla undir fjóra mismunandi flokka; íbúar, lífsaðstæður, lifnaðarhættir og heilsa og sjúkdómar. Mikil vinna liggur að baki vali og útfærslu á vísunum og var sérstaklega horft til alþjóðlegra staðlaðra mælikvarða sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að hafi til að bera áreiðanleika og réttmæti.

Við val á lýðheilsuvísum embættisins var sjónum annars vegar beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Sem dæmi má nefna lýðheilsuvísa sem meta hversu hátt hlutfall fullorðinna burstar tennur tvisvar á dag, hversu hátt hlutfall fullorðinna upplifir mikla streitu í daglegu lífi, hamingja fullorðinna, ávaxta- og grænmetisneysla fullorðinna og ölvunardrykkja. Nokkrir vísar snúa sérstaklega að lifnaðarháttum barna og unglinga, svo sem gosdrykkjaneysla framhaldsskólanema, stuttur svefn unglinga, hreyfing og einelti.

Þá var við val á lýðheilsuvísum embættisins ennfremur leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við eftir föngum. Þessir vísar taka m.a. til langvinnra sjúkdóma á borð við neðri öndunarfærasjúkdóma, dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma og kransæðaaðgerða. Þá eru vísar sem lúta að lyfjanotkun landsmanna, s.s. þunglyndislyfjanotkun, sykursýkislyfjanotkun og sýklalyfjanotkun ungra barna.

Við næstu útgáfu lýðheilsuvísa vorið 2017 verður einhverjum vísum skipt út fyrir nýja í takt við áherslur og áskoranir hverju sinni.

heilsuvisar.jpg

Gögnin

Íslendingar eiga margskonar landsskrár um heilsu og sjúkdóma, s.s. dánarmeinaskrá, fæðingaskrá, krabbameinsskrá, lyfjagagnagrunn o.fl. Gögn úr þessum skrám eru nýtt við útreikninga á lýðheilsuvísum. Sambærilegar skrár um lifnaðarhætti eru hins vegar ekki til, þ.e. um mataræði, hreyfingu, áfengis- og tóbaksneyslu o.s.frv. Þær gagnalindir sem nýttar eru til þess að leggja mat á lifnaðarhætti landsmanna eru kannanir á borð við Heilsu og líðan Íslendinga sem Embætti landlæknis framkvæmir á fimm ára fresti meðal fullorðinna Íslendinga, árleg vöktun áhrifaþátta, þýðisrannsóknir á högum skólabarna, bæði Ungt fólk, sem framkvæmd er af Rannsóknum og greiningu, og Heilsa og lífskjör skólanema, sem Háskólinn á Akureyri stendur að. Þá eru gögn frá Hagstofu Íslands og Sjúkratryggingum Íslands ennfremur nýtt við útreikninga á lýðheilsuvísum.

Markvisst lýðheilsustarf byggir á því að nýta gögn til að meta stöðuna, setja fram markmið og forgangsraða aðgerðum í samræmi við þarfirnar hverju sinni. Lýðheilsuvísar eru þannig mikilvægur liður í að efla lýðheilsustarf á landsvísu og í sveitarfélögum. Áfram verður unnið að þróun lýðheilsuvísa innan Embættis landlæknis.

Elva Gísladóttir

Verkefnastjóri hjá Embætti landlæknis

Hildur Björk Sigurbjörnsdóttir

Verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis

Jón Óskar Guðlaugsson

Verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis

Sigríður Haraldsdóttir

Verkefnisstjóri hjá Embætti landlæknis

Gígja Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri heilsueflandi samfélags hjá embætti landlæknis

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Sálfræðingur og lýðheilsufræðingur, sviðsstjóri á Lýðheilsusviði hjá embætti landlæknis
Nýtt á vefnum