Greinar / 23. febrúar 2017

Vítt og breitt um forvarnir - frábærar jafnt sem fánýtar

Eitthvað hlýt ég að hafa verið annars hugar þegar ég svaraði játandi bón ritstjóra SÍBS blaðsins um að skrifa hugleiðingu í næsta tölublað. Verkefnið var að skrifa eitthvað um forvarnir á villigötum. Úff… Hvernig geta forvarnir verið á villigötum? Er hægt að segja eitthvað neikvætt um forvarnir? Að koma í veg fyrir sjúkdóma og vanheilsu hlýtur jú alltaf að vera gagnlegt - eða hvað? Ja, það er auðvitað alveg hægt að finna dæmi þar sem forvarnir hafa ekki tekist sem skyldi eða hugtakið notað á rangan hátt. Þegar ég fór að hugsa um þetta varð mér ljóst að efnið er víðfeðmt og til þess að gera því vönduð skil þyrfti eiginlega að skrifa heila bók. Hér verður því farið vítt um völl og tæpt á dæmum.

Árangursríkustu lýðheilsuúrræðin

Almennt hafa forvarnir af ýmsu tagi reynst bestu og árangursríkustu lýðheilsuúrræði allra tíma. Bólusetningar ætti varla að þurfa að orðlengja um. Fátt hefur haft meiri áhrif á almennt heilsufar og lifun. Jafnvel er svo komið að stór hluti núlifandi fólks man hvorki eftir mislingum, kíghósta, lömunarveiki né öðrum alvarlegum sjúkdómum sem geisuðu fyrrum og ollu örkumlun og dauða, ekki síst barna. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að í dag sé til fólk sem trúir því ekki hvílíkir vágestir þarna voru á ferðinni. Þetta fólk telur að bólusetningar séu á villigötum - jafnvel samsæri gróðapunga og illgjarnra stjórnvalda. Það rekur heiftúðugan hræðsluáróður gegn þeim með rangfærslum og tilbúningi sem almenningur á stundum erfitt með að sjá í gegnum. Fræðslu um bólusetningar mætti því efla og kalla forvörn til varnar forvörnum.

Hollustueftirlit, sóttvarnaraðgerðir, eftirlit með vinnuvélum og eiturefnavarnir eru dæmi um nánast sjálfsagðar forvarnir gegn eitrunum, pestum og slysum. Sumir þykjast sjá ofríki yfirvalda í boði og bönnum gegn óhefðbundnum heilsuúrræðum og predika gjarnan um frelsi til þess að velja meðul og aðferðir eftir eigin höfði. Ef ekki væri haft vit fyrir óvitunum meðal okkar gæti slíkt „heilsufrelsi“ reynst dýrkeypt. Forvarnir geta líka falist í fræðslu og eftirliti með fánýtum heilsubótarúrræðum. Dæmi um slíkt kom upp 2010 þegar til sölu var í reykvískri heilsuvörubúð stórhættulegur iðnaðarklór sem grunlausir græðarar halda að sé allra meina bót til inntöku.

Flóknari aðgerðir

UFF.JPG

Skimanir eftir forstigum eða áhættuþáttum sjúkdóma eru umdeildari og flóknari forvarnaraðgerðir. Það getur reynst erfitt að vita fyrirfram hvaða árangur eða jafnvel skaði getur hlotist af því að rannsaka einkennalausa líkama í leit að duldum meinum. Það hljómar í fyrstu sjálfgefið að leit að meinum eða forstigum þeirra muni bjarga viðkomandi. Ofgreining og jafnvel skaði af meðferð sem ekki hefði verið þörf á, geta rýrt það gagn sem skimun veitir.

Brjóstamyndatökur virðast til dæmis ekki ætla að reynast sú almenna og áhrifaríka lífgjöf sem vonast var eftir. Þó hugsa ég að hver og ein kona sem fundist hefur æxli hjá sé þakklát því að hafa gengist undir skimun, þótt rannsóknir sýni að hluti þeirra hefði kannski ekki þurft meðferð. Væntanlega yrði það ekki rétt að hætta slíkri skimun heldur farsælla að finna betur út hverjir eru í raunverulegri áhættu og gera skimunina öruggari og markvissari með því að beina henni að þeim hópum.

Við skipulag og framkvæmd slíkra lýðheilsuforvarna þarf sífellt að vera á varðbergi gegn því að lenda á villigötum. Það þarf stöðugt að meta og endurmeta árangur og áhættu af skimunaraðgerðum, hvort sem það er að mæla efni í blóði sem gætu gefið til kynna mein í blöðruhálskirtli, leita að blóðleifum í saur eða að skyggnast inn í ristilinn í leit að merkjum um krabbamein í meltingarvegi eða forstig þeirra, svo dæmi séu tekin.

Skimanir og aðrar forvarnir þarf að skipuleggja af kostgæfni út frá bestu vitneskju. Það er ekki alltaf hægt að segja til um árangur fyrr en reynt hefur á hann, þá þarf að beita aðgerðinni og meta svo árangurinn. Þess vegna er ekki hægt að tala um að fénu sem í forvarnir fara hafi verið kastað á glæ þótt árangurinn reynist ekki eftir væntingum, svo lengi sem eftirlit og eðlileg endurskoðun fer fram og brugðist er við niðurstöðunum.

Offita

En ritstjórinn var nú kannski ekki að hugsa um þessa hluti þegar hann bað mig að skrifa hugleiðingar um forvarnir á villigötum?

Skyldi hann hafa verið að hugsa um offitu, lýðheilsuvandann sem mitt aðalstarf snýst nánast eingöngu um? Fyrir nokkrum árum skrifaði ég pistil um efnið hér í SÍBS blaðið og benti meðal annars á það hvernig „markaðurinn“ hefur meiri réttindi og möguleika á að auglýsa sælgæti og sæta drykki en foreldrarnir að fá heilræði og hjálp við að búa börnum sínum eðlilegt mataræði og vernda þau gegn óheilsu og offitu.

Forvarnir gegn offitu er tæplega hægt að segja að séu til ennþá. Eitthvað sem varla er komið af stað getur varla talist á villigötum þegar þær eru skammt á veg komnar. Margt er þó að batna, fyrst og fremst meðvitundin um óæskileg áhrif of mikillar kolvetnaneyslu og fitufælni.

Ekki er síst knýjandi þörf á að koma af stað forvörnum gegn offitu barna og unglinga. Meðal margs konar aðgerða sem ég tel nauðsynlegar er að setja höft á pakkningastærðir sælgætis og sætra drykkja, fjarlægja slíkt frá afgreiðslukössum verslana og koma í veg fyrir beina og óbeina markaðssetningu til barna og unglinga svo sem í íþróttasamhengi.

Sérstaklega er sorglegt að sjá hversu ósvífnir fæðubótarkaupmenn eru við að ginna þá sem þjást vegna offitu. Það er óhætt að fullyrða að draumurinn um megrun fæst ekki uppfylltur upp úr dufthylkjadósum, jafnvel þótt það sé sagt náttúrulegt og selt í apótekum, sem ættu reyndar að sjá sóma sinn í að taka ekki þátt í blekkingunum. Forvarnir mætti efla gegn slíku falsi sem ekkert gerir annað en valda vonbrigðum og vanlíðan.

Heilsutengt fúsk

Umræðan um offitu og forvarnir gegn henni er flestum kunnug og mig grunar satt að segja að ritstjórinn hafi ekki haft það í huga. Var hann ef til vill að hugsa um enn eitt áhugamál mitt þegar bónin var fram borin? Hann þekkir nefnilega vel til þess hvernig ég hef undanfarin ár fengist við að kynna mér og vinna gegn heilsutengdu fúski og falsi.

Ja, það þarf ekki að leita lengi til að finna hugtakið „forvarnir“ í auglýsingaskrumi fæðubótarsala og græðara. Ef trúa má markaðssetningunni þá bíður okkar eintómur aumingjaskapur og heilsuleysi ef við kaupum ekki og innbyrðum fjöldan allan af fóðurbætiefnum og furðumeðulum með frábærum fullyrðingum um að þau muni bjarga mannkyninu, eða því sem næst. Hvert undrameðalið á fætur öðru er auglýst sem kraftaverk í dós og tískubylgjurnar elta hver aðra án afláts, rétt eins og öldurnar í Reynisfjöru.

Vítamínin

Einu sinni áttu öll mannanna mein að tengjast skorti á vítamínum. Nú vita menn eftir áratuga rannsóknir að við fáum yfirleitt nóg af vítamínum úr fjölbreyttri fæðu og slík aukaneysla gagnast ekki nema um raunverulegan skort sé að ræða. Það sem verra er: of mikil vítamínneysla getur jafnvel gert ógagn.

Gervisjúkdómar og ónýt undraefni

Á tímabili áttu öll mein og heilsuleysi að stafa af kandídagerlum í görninni. Landsþekkt fólk skrifaði bók um óværuna og græðarar ráðlögðu hina undarlegustu kúra gegn heilsuógn sem er tóm ímyndun.

Svo komust „andoxunarefnin“ í tísku. Sú bylgja byggði á óljósum og óstaðfestum hugmyndum vísindamanna um að þessi efni gætu ef til vill ráðist gegn svokölluðum „fríum radíkölum“ í líkamanum og neysla þessara náttúrukraftaverka væri því forvörn gegn öllu mögulegu, ekki síst hjartaslagi og krabbameini. Kaupmennirnir kepptust, og gera reyndar enn, við að fylla hylki og dósir af þurrkuðum berjum, grænmetissúpudufti og ávaxta-extröktum sem innihalda eiga alls konar efni með fínum efnafræðinöfnum. Vandinn er bara að þessi efni komast ekki nema í óverulegu magni framhjá meltingunni. Ef þau gerðu það gætu þau allt eins komið í veg fyrir eigin varnir líkamans gegn ýmsum meinum. Sum andoxunarefnin hafa nefnilega orðið uppvís að því að auka hættu á æxlum við vissar aðstæður.

Magnesíum og kryddlækningar

Svo tók magnesíumskorturinn við. Fæðubótariðnaðurinn er enn að reyna að telja okkur trú um að magnesíum, bæði útvortis og innvortis, muni bjarga bæði heilsunni, svefninum og harðsperrunum. Þótt enn sé verið að selja flestar fyrri tískubólur þá er það óðum að komast úr móð því nú er það túrmerikið sem alla skortir, ef marka má auglýsingarnar. Efni sem finna má í þessu bragðlitla kryddi gætu reyndar hugsanlega nýst sem grunnur í lyfjaþróun en sem meðal til inntöku um munn gera þau hvorki til eða frá, því meltingin sér um að vernda okkur fyrir þeim. Hundruð rannsókna hafa þegar allt er saman tekið og metið, ekki sýnt neina virkni af því að taka þetta inn, jafnvel þótt bætt sé í það pipar til að auka upptökuna sem er lítil sem engin. Það er kannski eins gott, því ef þessi efni kæmust til skila inn í blóðrásina í lyfjavirku magni myndu þau bæla ónæmiskerfið ótæpilega og valda hættuástandi.

Og svo kúkurinn

Síðasta áfallið fyrir okkur sem héldum að við værum hamingjusamlega frísk og heilbrigð er svo að komast að því að við hugsum ekki nógu vel um kúkinn okkar.

Forvarnir gegn frávikum í innri flórunni er nýjasta nýtt í fæðubótarfræðunum. Samkvæmt auglýsingunum felast bæði forvarnir og meðferð við hinum margvíslegustu meinum í dásamlegum góðgerlagróðri sem enginn vissi að okkur vantaði og því siður að við ættum að borða þá upp úr dýrum dósum án þess að hugsa okkur um. Græðararnir keppast við að kynna okkur kunnáttu sína í kúkfræðum og sannfæra okkur um að kaupa einmitt sín gerlahylki.

Sannleikurinn er sá að þessi tískubylgja byggir á afar veikum grunni. Áhugi vísindamanna á efninu er raunverulegur og eflaust margt sem á eftir að koma í ljós, en í raun hefur gerlagróður til inntöku aðeins reynst nothæfur í fáeinum tilfellum, svo sem gegn niðurgangi eftir sýklalyfjameðferðir og sumum tilvikum iðraólgu. Yfirlýsingar um að gerlar í hylkjum eða einhvers konar ógeðsdrykkjum geri kraftaverk eru að miklu leyti úr lausu lofti gripnar og ber að líta á sem innantómt auglýsingaskrum. Að taka inn gerlagróður úr dósum er fánýt forvörn. Gerlagróðurinn í þarminum fylgir nefnilega fyrst og fremst lifnaðarháttum okkar og umhverfi en ekki inntöku á góðgerlahylkjum. Rannsóknir hafa sýnt að mjólkusýrugerlar sem teknir eru inn lifa ekki lengi af í þarminum. Þarmaflóran okkar fylgir fyrst og fremst því hvaða fæðu við látum ofan í okkur og hvernig lifnaðarhætti við stundum. Ef við misbjóðum meltingarveginum með ofneyslu, ómeti, ofáti eða öðrum ólifnaði þá kemur það fram í breyttri þarmaflóru. Ef við snúum aftur til heppilegri lifnaðarhátta þá fylgir þarmaflóran í kjölfarið.

Er meðal í dósinni?

Þar að auki hafa athuganir sýnt að fæðubótariðnaðinum er lítt treystandi til að tryggja að í svona vörum sé raunverulega það sem fullyrt er á umbúðunum. Eftirlit með því að fæðubótarvörur innihaldi það sem sagt er eða að góðgerlarnir séu í raun lifandi og virkir er sama sem ekkert. Aðeins er reynt að sjá til þess að varan innihaldi aðeins matvæli og sé ekki eitruð eða á annan hátt varasöm en ekki hvort efnið virki eða sé yfir höfuð til staðar. Athuganir erlendis hafa leitt í ljós að stór hluti fæðubótarefna í heilsuhillum kjörbúða inniheldur ekki það sem sagt er og sé jafnvel að stórum hluta fylliefni svo sem hveiti og hrísmjöl.

Besta forvörnin

Líkaminn ræður ágætlega við að vinna nauðsynleg efni úr góðum mat og losa sig við úrgangsafurðir án hjálpar, svo lengi sem honum er ekki misboðið gróflega. Besta forvörnin er að njóta lífsins með heilbrigðum hætti, neyta fjölbreyttrar lítt unninnar fæðu, láta sykurvörur og sælgæti heyra til algerra undantekninga og nota líkamann eins og til var ætlast, með næga hreyfingu og hæfilegt álag.

Björn Geir Leifsson

Skurðlæknir og sérfræðingur í heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu

Nýtt á vefnum