Greinar / 19. október 2016

Bættur lífsstíll léttir álagið á heilbrigðiskerfið

Lod.JPG

Heilbrigðismál eru klárlega mál málanna fyrir þessar kosningar. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Umræða um vanda Landspítalans er hávær og úrbóta er þörf. Loforðin um eflingu heilsugæslu sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu þurfa að verða meira en orðin tóm. Við þurfum áfram framúrskarandi sérfræðilækna til starfa og aukna þverfaglega samvinnu ólíkra heilbrigðisstétta. Þá þurfum við aukið aðgengi, öfluga samvinnu, bætta yfirsýn og samfellu í þjónustunni. Víða er unnið mjög gott starf, en betur má ef duga skal.

Ljóst er að ganga þarf rösklega til verks til að framfylgja heildstæðri stefnu í heilbrigðismálum. Efla þarf öll stig heilbrigðisþjónustunnar og aukin samvinna þeirra er öllum til góðs. Forgangsröðun í þágu heilbrigðismála er nauðsyn, það er verkefni stjórnmálamanna nú í aðdraganda kosninga.

Á hvorum endanum skal byrja?

Hátæknisjúkrahús þarf að rísa, um það er ekki deilt. Minna hefur farið fyrir umræðunni um það hvernig við getum minnkað þörfina fyrir svo viðamikla og dýra þjónustu. Lífsstílstengdir sjúkdómar eru nú stór hluti þeirra viðfangsefna sem heilbrigðiskerfið fæst við. Með vaxandi tíðni slíkra sjúkdóma og hækkandi aldri þjóðarinnar stefnir í að fyrirhugað hátæknisjúkrahús drukkni fljótt á ný í verkefnum með tilheyrandi kostnaði. Hægt er að koma í veg fyrir stóran hluta krabbameina, hjartasjúkdóma, heilablóðfalla, sykursýki og fleiri alvarlegra sjúkdóma með heilbrigðum lífsstíl. Þar sem þessir sjúkdómar eru komnir er hægt að bæta líðan, hægja á þróun þeirra og hindra fylgikvilla með lífsstílsmeðferð og endurhæfingu. Hér er því eftir miklu að slægjast.

Við þurfum að minnka þörfina fyrir dýra og flókna heilbrigðisþjónustu. Augljós fyrstu skref að því takmarki eru á sviði lýðheilsu. Af nógu er að taka; bætum skólamáltíðir, auðveldum aðgengi að hollum mat, hvetjum til aukinnar hreyfingar, auðveldum hreyfingu í daglegu lífi fólks, aukum fræðslu um hollt mataræði, svefn og hugarró, leggjum áherslu á þjálfun í matseld og öðrum þáttum sem nýtast í daglegu lífi til framtíðar. Sum þessara verkefna kosta aðeins vilja og framtak en ekki mikla fjármuni. Saman geta þau þó skipt sköpum fyrir líðan og heilsu landans. Mikilvægt hlutverk stjórnvalda er að auðvelda hverjum einstaklingi að taka heilsueflandi ákvarðanir. Í raun ættu ráðamenn að láta fara fram lýðheilsuúttekt á öllum helstu verkefnum og framkvæmdum sem ráðist er í. Ávallt verður að skoða hvort fyrirhuguð breyting geti bætt heilsu og líðan fólks. Þetta á við um stórar og smáar breytingar svo sem samgöngumannvirki, vinnutímalöggjöf, tollabreytingar eða menntastefnu. Í okkar litla landi þar sem auðvelt er að koma upplýsingum milli manna ætti að vera metnaðarmál ráðamanna að skara fram úr á heimsvísu í þessum málaflokki.

Heilsugæslan er næsta skref. Á tyllidögum er talað um að hún eigi að vera fyrsti viðkomustaðurinn i heilbrigðiskerfinu og enginn mótmælir því. Hún hefur þó ekki fengið þann byr í seglin sem hún þarf til að sinna því hlutverki. Sem betur fer rofar nú til í þeim málaflokki með tilkomu tveggja nýrra heilsugæslustöðva á næsta ári. Vonandi verður það öflugt skref til að styrkja heilsugæsluna og efla forvarnir og markviss inngrip í sjúkdóma á byrjunarstigum. Með aukinni þjónustu ætti einnig að vera auðveldara að sinna vel því hlutverki heilsugæslunnar sem er eftirfylgni langvinnra sjúkdóma á markvissan og heildrænan hátt. Samvinnu heilsugæslu og öldrunarþjónustunnar er hægt að efla enn frekar og auðvelda einstaklingum að búa lengur heima sem bæði eykur lífsgæði og hagkvæmni. Öflug þverfagleg samvinna í heilsugæslunni er öllum til góða. Sem dæmi má nefna að Svíar hafa komist að því að einstaklingar sem fá aðstoð til að bæta lífsstílinn þurfa minna að nota heilbrigðisþjónustuna; rannsókn þeirra sýndi að komum á heilsugæslu fækkaði um 21%. Það munar um minna.

Þverfagleg þjónusta verður æ mikilvægari eftir því sem þekkingu og tækni fleygir fram og sérhæfing hverrar heilbrigðisstéttar eykst. Til er hugtakið „lágtæknisjúkrahús“ þar sem gerðar eru rannsóknir og fram fer samvinna ólíkra sérfræðinga til greiningar og meðferðar hinna ýmsu sjúkdóma. Með slíkri samvinnu nýtist sérhæfing sérfræðinga sem best. Að auki sparast tími og fjármunir einstaklinga og samfélags. Þannig mætti stytta bið eftir greiningu einkenna, minnka fjarvistir frá vinnu og draga úr öðrum neikvæðum þáttum heilsubrests sem rýra lífsgæði sjúklinga oft enn frekar. Heilbrigðisstarfsfólkið sem sinnir þessum störfum alla daga hefur mikla þekkingu á skilvirkni og samþættingu þjónustunnar og þarf að koma meira að stjórnun og stefnumörkun. Það eru til margar leiðir til að virkja enn betur þann kraft sem býr í því frábæra fagfólki í heilbrigðiskerfinu sem hér starfar og hámarka nýtingu fjármuna sem til heilbrigðiskerfisins rennur. Þar eiga stjórnvöld að greiða götuna og bæta umgjörðina.

Hvað getum við sjálf gert?

Í aðdraganda kosninga er gott að spyrja sig hvað stjórnvöld geta gert til að bæta heilbrigðisþjónustu. Þar koma vissulega mörg atriði upp í hugann. En við verðum líka að spyrja okkur hvað við getum sjálf gert til að minnka þörf okkar fyrir heilbrigðisþjónustu. Á hverjum degi tökum við fjölmargar ákvarðanir sem varða heilsu okkar og líðan. Í raun nýtum við atkvæði okkar á hverjum degi en ekki bara í kjörklefanum á kosningadegi. Ef við breytum ekki neinu þá breytist ekki neitt. Efling heilbrigðiskerfisins er samstarfsverkefni okkar allra. Kjósum heilbrigðan lífsstíl í stóru og smáu í okkar daglega lífi. Það er enginn einn málaflokkur sem bjargar öllu, hátæknisjúkrahús mun ekki leysa allan vanda eitt og sér. Stjórnvöld gera það ekki ein, við þurfum öll að taka höndum saman og láta þetta gerast. Leggjum okkar af mörkum, margt smátt gerir eitt stórt, saman getum við meira.

Erla Gerður Sveinsdóttir

Heimilislæknir, lýðheilsufræðingur og sérfræðilæknir við offitumeðferð

Nýtt á vefnum