Greinar / 18. október 2016

Brýnustu verkefni í heilbrigðiskerfinu

Íslensk heilbrigðisþjónusta kemur að mörgu leyti vel út í samanburði við önnur lönd. Það má að líkindum þakka því að hún hefur á að skipa mjög hæfu og velmenntuðu fólki, sem fengið hefur menntun sína í löndum sem standa framarlega hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Þetta starfsfólk leggur metnað sinn í að veita þjónustu eftir bestu getu. Það er hinsvegar augljóst að aðrir þættir heilbrigðiskerfisins eru ekki í jafngóðu ásigkomulagi. Stefnumörkun í heilbrigðismálum hefur lengi verið óljós og hlutverk einstakra stofnana er óskýrt. Það gildir bæði um ráðuneyti, Sjúkratryggingar Íslands, Embætti landlæknis og einstakar heilbrigðisstofnanir. Það hefur orðið til þess að heilbrigðisþjónustan hefur þróast af dálitlu handahófi og það er ekki ljóst að hagsmunir neytenda þjónustunnar hafi verið hafðir í fyrirrúmi og enn síður að þeir fjármunir sem varið er til heilbrigðismála séu að skila sér í sem bestri þjónustu til landsmanna. Ef þessum hlutum væri komið í betra horf má ætla að íslenskt heilbrigðiskerfi hefði alla möguleika á að ná toppsæti í alþjóðlegum samanburði.

Heilbrigðiskerfi á vesturlöndum standa flest frammi fyrir svipuðum áskorunum. Kostnaður fyrir heilbrigðisþjónustuna vex stöðugt og flestar þjóðir neyðast til þess að sjá aukinn hluta af þjóðarframleiðslunni fara til heilbrigðismála. Ástæður fyrir þessu eru fjölmargar en það er áhyggjuefni að ekki er hægt að sýna fram á mótsvarandi aukningu í gæðum þjónustunnar. Við erum því að greiða sífellt meira fyrir sömu eða í vissum tilfellum verri gæði. Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðiskerfinu koma til með að krefjast allt annarra vinnubragða, og jafnvel starfsstétta, en þeirra sem tíðkast í dag svo ekki sé talað um aukinnar þátttöku sjúklinga.

Hlutverk heilbrigðiskerfisins er að sjá til þess að allir landsmenn hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er sú fullkomnasta sem völ er á (sbr. Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40 frá 2007). Sérstaklega ber að hafa í huga jafnan rétt til þjónustunnar og að sá sem hafi mesta þörf komi fyrst.

Birgir1.JPG

Heilsugæslan

Heilsugæslan úti á landsbyggðinni er víða í góðu lagi, þar sem á annað borð er hægt að manna heilsugæslustöðvarnar. Sameining heilbrigðisstofnana út um land hefur skapað forsendur fyrir því að sjá stöðum fyrir þjónustu þar sem erfitt er að manna með föstu starfsfólki. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur átt við langvarandi vanda að stríða. Aðgengileikinn er slæmur og það er talað um skort á sérmenntuðum heilsugæslulæknum. Það eru 30 til 40 læknar í sérnámi á þessu sviði en óvíst hvort þeir sæki um störf á höfuðborgarsvæðinu, sem virðist hafa fengið á sig neikvæða ímynd í augum lækna. Það tekur langan tíma að mennta sérfræðinga í heimilislækningum. Í stað þess að bíða eftir því er mikilvægt að taka inn aðrar starfsgreinar svo sem sálfræðinga, félagsráðgjafa, næringarfræðinga, sjúkraþjálfa, iðjuþjálfa og jafnvel lyfjafræðinga. Þessar stéttir geta hæglega tekið yfir mörg þau verk sem í dag er sinnt af læknum. Þjónustan er í dag of fókuseruð á lækna og hjúkrunarfræðinga. Með því að fá inn aðrar starfstéttir má breikka starfssvið heilsugæslunnar og gera henni kleift að að sinna bæði forvörnum og heilsueflingu og betur sinna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður fólks að heilbrigðisþjónustunni. Sérstaklega er mikilvægt að byggja út heimaþjónustu, sem gerir fólki, sérstaklega gömlu fólki, kleift að búa lengur heima í stað þess að lenda á sjúkrahúsi eða á hjúkrunarheimilum.

Sérfæðiþjónustan

Sérfræðiþjónustan er að mestu leyti staðsett á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún að verulegu leyti sinnir sjúklingum sem væru betur komnir í heilsugæslunni. Þrátt fyrir þetta er aðgengi að mörgum sérgreinum slæmt á svæðinu. Sérfræðiþjónustan úti á landi er í molum og er að mestu rekin á forsendum sérfræðinga og ekki á forsendum sjúklinga. Sérfræðingar fara í vikutúra út um land og er þá sjúklingum með viðkomandi kvilla safnað saman hvort sem þess er þörf eða ekki. SÍ greiðir þessum læknum fyrir þessa þjónustu að svo miklu leyti sem þeim hafa verið veittar einingar í samningum og spyr raunverulega ekki um innihald þjónustunnar. Jafnvel á tímum þegar dregið er úr opinberri þjónustu vegna sparnaðar er byggð út einkarekin þjónusta sem fjármagnast af SÍ. Það er augljóst að það þarf að byggja út séfræðiþjónustuna úti á landi með því að skilgreina hlutverk þeirra stofnana sem hafa yfir sérfræðingum að ráða á þann hátt að þær beri ábyrgð á að veita þjónustu sem gangi út frá þörfum fólksins og heilsugæslunnar úti á landi. Þetta er hægt að gera að verulegu leyti með fjarlækningum (telemedicin) en einnig með því að skipuleggja ferðir ákveðinna sérfræðinga út á land sem hluta af starfi þeirra á viðkomandi stofnun. Þetta á fyrst og fremst við um sérfræðinga á LSH en einnig á SAk.

Sífellt erfiðara er að manna sérfræðiþjónustu á sumum sjúkrahúsum úti á landsbyggðinni með föstum stöðugildum. Það er ekki haldbær lausn að manna þessar stöður með íhlaupafólki sem starfar viku og viku í senn. Þetta skapar falskt öryggi. Betra er að byggja upp góða heilsugæslu á þessum stöðum sem er rekin út frá þeim stöðum innan heilbrigðisstofnunarinnar sem auðveldara er að manna.

Sjúkrahúsþjónustan

Það er mjög brýnt verkefni að ráðast í byggingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut og nánast forsenda þess að hægt sé að snúa við þeirri óæskilegu þróun sem hefur verið í heilbrigðiskerfinu, þar sem sérfræðingar eru ráðnir í hlutastöður á LSH og að hluta til á stofu. Þetta hefur gert það að verkum að LSH getur á engan hátt staðið undir hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús allra landsmanna. Allt skipulag á þjónustu sjúkrahússins torveldast og gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga eru í hættu þar sem sérfræðingar eru ekki nærverandi þegar á þarf að halda. Nýleg skýrsla ráðgjafafyrirtækisins McKinsey hefur sýnt fram á að fjöldi sérfræðinga á LSH er verulega minni en á sænskum sjúkrahúsum og að þetta er bætt upp með ráðningu unglækna og jafnvel læknanema. Segir sig sjálft að öll ákvörðunartaka á sjúkrahúsinu tekur lengri tíma sem sjá má á talsvert lengri legutíma á LSH borið saman við sænsk sjúkrahús.

Ennfremur er nauðsynlegt að byggja út dag- og göngudeildarþjónustu á háskólasjúkrahúsinu með því að flytja hluta þeirrar sérfræðiþjónustu sem í dag fer fram á stofum út í bæ inn á háskólasjúkrahúsið. Göngudeildarþjónusta, sem ekki aðeins er opin fyrir þá sem hafa legið inni á sjúkrahúsinu heldur einnig fyrir nýkomur, mundi verulega bæta aðgengi að sérfræðiþjónustu. Hátækniþjónusta framtíðarinnar verður að mestu leyti rekin á LSH og mögulega að einhverju leyti á SAk. Önnur þjónusta sem ekki þarf að vera á hátæknisjúkrahúsinu getur verið á öðrum stöðum, annað hvort í opinberum eða einkarekstri. Nánast fullbúin sjúkrahús eru til staðar í jaðri höfuðborgarsvæðisins, Akranesi, Selfossi og á Suðurnesjum. Það ætti að vera mögulegt að veita þjónustu þar í samvinnu við LSH, þar sem læknar og annað starfsfólk á LSH geti hlaupið í skarðið fyrir staðbundið starfsfólk, sé þörf á því.

Forgangsverkefni

Forgangsverkefni í heilbrigðisþjónustunni er að styrkja heilsugæsluna um allt land og skapa forsendur fyrir því að hún verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga inn í heilbrigðiskerfið. Fjármagni sem nú er veitt í að halda uppi sjúkrahúsþjónustu á stöðum sem ekki er hægt að manna er betur varið í að styrkja heilsugæsluna á viðkomandi stöðum. Á höfuðborgarsvæðinu er verið að vinna að gagngerum breytingum og fjölgun heilsugæslustöðva. Vonir standa til að það bæti aðgengið þar. Jafnframt er nauðsynlegt að bæta sérfæðiþjónustuna á landsbyggðinni en til þess að það sé hægt verður að skilgreina hlutverk háskólasjúkrahússins og SAk þannig að þau beri ábyrgð á því að veita þessa þjónustu í samvinnu við viðkomandi heilbrigðisstofnun og heilsugæsluna á staðnum. Til þess að þetta sé mögulegt verður að fjölga sérfræðingum verulega á þessum sjúkrahúsum og byggja út fjarheilbrigðisþjónustu. Ísland er í samkeppni við nágrannaþjóðirnar um hæft starfsfólk og þess vegna er nauðsynlegt að búa íslenskum sérfræðingum sambærilegar starfsaðstæður og gert er erlendis þar sem þeir geta sinnt vísindum og kennslu jafnhliða læknisstörfum. Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf meira fjármagn en til þess að tryggja að aukið fjármagn fari í forgangsverkefnin þarf fyrst að marka skýra stefnu í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Annars er hætta á því að kerfið haldi áfram að þróast í sömu átt og hingað til og er þá betur heima setið en af stað farið. Slík stefna í heilbrigðismálum fram til 2022 liggur nú á borði heilbrigðisráðherra og kemur vonandi fyrir Alþingi í haust.

Birgir Jakobsson

Landlæknir

Nýtt á vefnum