Greinar / 7. janúar 2012

Sælla er að gefa en þiggja

Það er almennt viðurkennt að líffæragjöf og -ígræðsla er flókin og krefjandi aðgerð sem hefur áhrif á alla sem hlut eiga að máli. Til skamms tíma beindist athyglin fyrst og fremst að læknisfræðilega þættinum en sálfélagslegum og andlegum áhrifum var minni gaumur gefinn. Þó er vitað að þessir þættir geta haft sitt að segja um fjölda gjafara. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að það hefur áhrif á ákvarðanir um líffæragjöf hvernig aðstandendum er sinnt á viðkvæmum augnablikum. Og því er mikilvægt að kynna hugsanlega líffæragjöf fyrir aðstandendum á réttum tíma og á réttan hátt til að þeir geti byggt afstöðu sína á eigin gildismati og trú og virt lífssýn þess látna.

Aukaálag

Ákvarðanir tengdar líffæragjöf, sem geta valdið togstreitu og aukið á erfiðleika í sorgarúrvinnslu, bætast oft við þau almennu áhrif sem skyndidauði hefur á ástvini. Hér má nefna þætti eins og að lifa við það að missa ungan einstakling og fara þannig á mis við allt það sem var vonast til í framtiðinni, að taka ákvörðun um líffæragjöf úr einstaklingi sem er í öndunarvél og virðist því enn vera lifandi, að kveðja þann sem ekki virðist dáinn og fleira þessu skylt. Þá hefur verið sýnt fram á þá almennu þrá eða löngun eftirlifandi ástvina að vilja eiga einhvers konar samband við látinn ástvin. Hér er ef til vill að einhverju leyti skýringin komin á því að vilja vita um afdrif líffæra sem gefin eru þótt annað sé vafalaust nærtækara, það er að vilja vita hvað hafi komið út úr þessari ómetanlegu gjöf og hverjum hún hafi gagnast.

Í sorg eftir látinn ástvin, sem gefur líffæri, er yfirleitt mikilvægt að kynna ástvinum hvað orðið hafi um líffærin. Þegar það liggur fyrir er ekki úr vegi að boða ástvini á fjölskyldufund, ef mögulegt er, og fara yfir útkomuna. Ég þekki dæmi þess að slíkar upplýsingar hafi verið settar inn í minningarbók, ásamt sálmaskrá, minningargreinum og fleiru, eða rammaðar inn og hengdar upp á vegg.

Vilji hins látna

Af þeim kynnum sem ég hef haft af aðstandendum, þar sem líffæragjöf ástvinar kemur til greina, virðist mér ljóst að mestu varði að viðkomandi einstaklingur hafi sjálfur látið í ljós þá ótvíræðu ósk að vilja gefa af sjálfum sér á þennan hátt sé þess nokkur kostur. Slíkur vilji markar ótvírætt stefnuna fram á við í erfiðu sorgarferli. Sé viljinn óljós er ennþá brýnna en ella að fá sem fyllsta mynd af þeim einstaklingi sem á í hlut: Hver er hann, hvað er það sem auðkenndi hann öðru fremur, hverju myndi hann sjálfur svara? Með öðrum orðum þá eykst mikilvægi þess að nálgast þessa umræðu á forsendum nánustu aðstandenda. Hver er hugarheimur fólks, hvar leita menn merkingar andspænis atburðum sem eru miskunnarlausir eins og ótímabær dauði?

Andspænis dauðanum er ekki alltaf allt sem sýnist og margt af því sem bærist hið innra tekur meira til hjartans en höfuðsins ef svo má að orði komast. Það er til að mynda erfitt að færa skynsamleg rök fyrir því að látinn maður sé færður í ullarsokka af því að hann var alltaf svo fótkaldur. Krufning og líffærataka eru aðgerðir sem þarf að framkvæma af virðingu fyrir líkama látinnar manneskju. Sú virðing nær út yfir gröf og dauða. Þess vegna eru til dæmis lagðir persónulegir munir í kistuna, passísusálmar Hallgríms, já eiginlega flest nema peningar. Eða þá að legstaður er valinn út frá því hvað er hlýlegt. Það er tekið mið af útsýni og skjóli fyrir vindum rétt eins og verið sé að finna sér gott tjaldstæði. Og ekki er verra að hafa góða nágranna. Þetta er nefnt hér til að opna nokkra sýn inn í þá hugarheima sem verið er að horfa til og virða.

Syrgjendur

Fyrirframsöknuður er sá undirbúningur fyrir dauða manns sem flestir eru sviptir þegar dauðinn er án nokkurs aðdraganda. Fyrirframsöknuður markar upphaf sorgarferilsins. Það er mín reynsla að sú óraunveruleikatilfinning sem fylgir sviplegu fráfalli víki fyrr ef aðstandendur fá rúman tíma við dánarbeð oft endurtekinn. Þannig virðist að sá tími þar sem öndun og hjartslætti er viðhaldið með vélrænum hætti, þó heilastarfsemi sé að mestu og síðan endanlega lokið, skipti ástvini miklu máli sem undirbúningur fyrir hinstu kveðju. Þetta láta ástvinir iðulega í ljós þegar frá líður.

Syrgjendur þurfa áþreifanlega aðstoð, þeir þurfa stuðning sem varir. Einkum er það mikilvægt að sá stuðningur sé fyrir hendi þegar tómleikinn eftir missinn segir til sín, en oft er tómleikinn vaxandi og verður hvað mestur nokkrum mánuðum eftir fráfall. Það sem mestu varðar, almennt talað, er nauðsyn þess að sá stuðningur og eftirfylgd við syrgjendur sem hefst við dánarbeð standi eins lengi og þörf krefur. Sumir eru þar í meiri þörf en aðrir og leiðin til þeirra sem best geta aðstoðað, eins og prestar og djáknar og heilbrigðisstarfsfólk, þarf að vera opin og greið og mikið veltur þá á frumkvæði hjálparans. Ekki má heldur líta framhjá stuðningi fjölskyldu og vina, sem skiptir alltaf mestu máli og enginn annar getur veitt.

Sælla er…

Sælla er að gefa en þiggja. Þessi kunnu orð, sem eru yfirskrift þessarar greinar, eru höfð eftir frelsaranum sjálfum af postulanum Páli (P 20:35). Það er ekki eina skiptið sem gjafmildin er nefnd í Helgri bók sem ávöxtunarleið eða gróðavegur líkt og gestrisnin. Þetta örlæti rís að sjálfsögðu hæst að mati kristinna manna í fórnardauða frelsarans. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“ (Jh 3:16). „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 15:13). Allar þessar tilvísanir undirstrika mikilvægi þess hugarfars sem býr að baki líffæragjöf og þar sem enginn eðlismunur er í raun og veru gerður á blóðgjöfinni, sem við getum margendurtekið til hjálpar öðrum, og hinni endanlegu gjöf þar sem lífgrasið sprettur í fótspori dauðans. Sælla er að gefa en þiggja.

Sigfinnur Þorleifsson

Sjúkrahúsprestur

Nýtt á vefnum