Greinar / 6. júní 2016

Næring og krabbamein

Talið er að allt að 30% af krabbameinstilfellum megi rekja til mataræðis. Meðvitund og áhugi fólks á lífsstílþáttum, þ.m.t. mataræði er sífellt að aukast og fleiri sem átta sig á því að heilsusamlegt mataræði hefur mikil áhrif á heilsu og líðan.

Fjölbreytt mataræði best

Oft er spurt hvort hægt sé að koma í veg fyrir krabbamein með því að fylgja ákveðnu matar- æði? Samkvæmt niðurstöðum Bandarísku Krabbameinsrannsóknarstöðvarinnar (American Institute of Cancer Research) eru sérstakir eiginleikar í ýmsum fæðutegundum sem vinna gegn krabbameinsmyndun og að fjölbreytt fæði virki best sem krabbameinsvörn. Grænmeti og ávextir innihalda náttúruleg plöntuefni efni sem hafa sterk andoxunar og krabbameinsverndandi áhrif.

Sem dæmi má nefna káltegundir svo sem spergilkál, blómkál og grænkál. Einnig plöntuefni í t.d. hvítlauk og lauk, grænu tei, sítrusávöxtum, berjum og engiferi. Fleiri tegundir af plöntum hafa einnig mikið af fítókemískum efnum sem vinna gegn krabbameinsmyndun. Dæmi um slík efni eru plöntuefni í bláberjum, í spergilkáli og í tómötum.

Mikil neysla á rauðu kjöti er talin auka líkur á ristilkrabbameini og mikil neysla á unnum kjötvörum er talin auka líkur á magakrabbameini. Mikil neysla ávaxta og grænmetis, eða um 500-600 grömm á dag, er talin minnka líkur á munn-, háls- og magakrabbameinum. Það að vera í yfirþyngd er einnig talið auka líkur á brjósta- og ristilkrabbameinum. Hátt hlutfall líkamsfitu er einnig tengt við auknar líkur á krabbameinsmyndun. Það eru margir fleiri þættir sem koma við sögu eins og tóbaksnotkun, alkóhólneysla og erfðaþættir. Það má hins vegar færa rök fyrir því að heilsusamlegt mataræði, sem samanstendur af fjölbreyttri fæðu minnki líkur á krabbameinsmyndun. Þetta á við um mat sem er ferskur, næringarríkur og fjölbreyttur.

Við Íslendingar eigum það til að taka hlutina með trompi og mataræði er þar ekki undanskilið. Af og til koma fréttir um nýjustu „ofurfæðutegundina“ og við stökkvum á það til að vera viss um að fá sem mest af þessari ofurfæðu á sem skemmstum tíma. Eftir ákveðinn tíma kemur næsta ofurfæða og við gleymum öllu sem við vorum búin að tileinka okkur áður. Mestu máli skiptir hinsvegar að tileinka sér hollt mataræði, sem inniheldur ríkulegt magn af grænmeti og ávöxtum alla ævi.

Það er gott markmið að stefna á að tileinka sér mataræði sem samanstendur af;

• Fjölbreytni af hollum mat með áherslu á plöntufæði.
• Borða fimm skammta af grænmeti og ávöxtum daglega með áherslu á fjölbreytileika.
• Velja grófar kornvörur og takmarka fínunnar kornvörur og sykur.
• Takmarka neyslu á rauðu kjöti, sérstaklega fitumiklu og mikið unnum kjötvörum.
• Stunda reglulega hreyfingu og vera sem næst kjörþyngd.

Matur í krabbameinsmeðferð

Þeir sem greinast með krabbamein og ganga í gegnum erfiða meðferð glíma oft á tíðum við mikið lystarleysi, ógleði og ósjálfrátt þyngdartap.

Við þessar aðstæður skiptir öllu máli að nærast vel og fá nægjanlegt magn af próteini og orkuríkum mat. Þá þarf að finna út hvað hentar viðkomandi og gjarnan er ráðlagt að nota fituríkar fæðutegundir í auknum mæli. Einnig skiptir máli að fjölga máltíðum og finna hvað viðkomandi á auðvelt með að borða því bragð, lyktarskyn og áferð á matnum hefur mikil áhrif. Algengur fylgikvilli krabbameinsmeðferðar er næringarskortur og slappleiki sem getur stuðlað að verri meðferðarfylgni og lélegri lífsgæðum. Mikilvægast er því að leggja áherslu á að einstaklingar með krabbamein fái næringarríkan mat, haldi þyngd og forðist næringarskort.

Skilaboðin eru að sambland af heilsusamlegu mataræði, reglulegri hreyfingu og heilbrigð líkamsþynd eru skynsamlegasti kosturinn til að minnka líkur á krabbameini.

Helga Sigurðardóttir

Næringarráðgjafi á blóð- og krabbameinsdeildum Landspítalans

Nýtt á vefnum