Greinar / 6. október 2012

Umbúðalaust

Það er ekki aðeins innihaldið sem skiptir máli varðandi hollustu matvöru, heldur einnig umbúðirnar. Umbúðir og ílát geta haft bein áhrif á hollustu matarins sem í þeim er keyptur, geymdur eða eldaður.

Erlendis hefur umræðan um plastnotkun í matvælaiðnaði og á heimilum verið meira áberandi en hér á landi, og ber þar einna hæst efnið BPA eða bisphenol-A, sem notað er við framleiðslu á sumu plasti.

BPA er að finna í plasti af ýmsu tagi s.s. pólýkarbónat-, epoxý- og PVC-plast, sem eru algengar tegundir plasts undir matvæli: ýmsir dallar og glös, plastfilmur og plasthúðin innan á áldósum og niðursuðudósum eru dæmi um hluti sem geta innihaldið BPA.

BPA er eitt margra hormónalíkjandi efna, sem getur haft áhrif á líkamann, en hormónakerfið er eitt boðkerfa líkamans og stuðlar að eðlilegum vexti og þroska og líkamlegu samvægi. Hormónalíkjandi efni geta truflað þessi ferli.

Sorgarsögur eru til um áhrif hormónalíkjandi efna, og nægir að nefna DDT, PCB og díoxín, en einnig DES og thalidomide, sem ollu alvarlegum sjúkdómum og vansköpun áður en þau voru bönnuð. Möguleg áhrif BPA eru auðvitað að líkindum ekki eins áberandi, en í dýratilraunum hefur verið sýnt fram á skaðsemi BPA á fósturskeiði og hjá ungviði. Þetta hefur leitt til þess að efnið var bannað til notkunar í ungbarnapela og stútkönnur í Evrópu snemma árs 2011 og í Bandaríkjunum á miðju ári 2012.

Það eru ekki bara börnin okkar sem áhyggjur manna beinast að hvað varðar notkun á BPA í plasti, heldur einnig að hugsanlegum áhrifum BPA og fleiri hormónalíkjandi efna á ófrjósemi, krabbamein, sjúkdóma í taugakerfi, andlega getu, ónæmis- og sjálfsofnæmissjúkdóma, ásamt efnaskiptavillu (e.metabolic syndrome) m.a. offitu.

Evrópska matvælaöryggisstofnunin (EFSA) hóf vorið 2012 vinnu við gagngert endurmat á mögulegri hættu af BPA, og niðurstaðna er að vænta í maí 2013. Bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin (FDA) hefur á stefnuskrá sinni að draga úr notkun BPA í fæðukeðjunni, en tekur fram að ekki beri að fórna góðu mataræði til að sneiða hjá plastinu. Bandaríska heilbrigðisstofnunin (NIH) staðsetur BPA miðja vegu á áhættuskalanum hvað varðar möguleg áhrif á tauga- og vitsmunaþroska barna allt frá fósturskeiði, en umhverfisheilsudeild stofnunarinnar (NIEHS) gefur eftirtalin ráð til þeirra sem vilja draga úr snertingu við BPA:

Ekki hita mat í örbylgjuofni í ílátum úr pólýkarbónatplasti. Draga úr notkun á niðursuðudósum og öðrum málmdósum (en þær eru húðaðar að innan með epoxýplasti). Nota gler, postulín eða stál undir heitan mat eða drykki. Gefa sérstakan gaum að plasti með endurvinnslunúmerin 3 eða 7, sem mögulega getur innihaldið BPA.

Tekið skal fram að eftirlitsstofnanir bæði í Evrópu og Bandaríkjunum samkvæmt stöðlum um öruggt magn BPA í fæðunni. Markmiðið með þessum skrifum er því ekki að fá fólk til að hætta að nota plast, heldur að hugsa um næringu og heilbrigði sem órofa heild lifnaðarhátta og umhverfis.

Varðandi matvöru gildir það sama um umbúðirnar og innihaldið: höldum okkur sem næst upprunanum.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum