Greinar / 2. febrúar 2013

Hreyfing barna - Góð heilsa og vellíðan allt lífið

Á heimasíðu Embættis landlæknis kemur fram að ráðlagt er að börn hreyfi sig rösklega í minnst 60 mínútur daglega. Þetta er í samræmi við það sem aðrar vestrænar þjóðir og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa ráðlagt. Samkvæmt íslenskri rannsókn er þó enn langt í land með að meirihluti 9 ára barna nái að fara eftir þessari ráðleggingu.

Hreyfing skilar betri námsárangri

Aukin hreyfing í skólum hefur oft verið talin keppa við aðrar námsgreinar og ekki talið mögulegt að skipuleggja daglega hreyfingu þar sem það tæki of mikinn tíma frá þeim. Hér verðum við þó aðeins að staldra við því rannsóknir hafa sýnt að hröð ganga í 20 mínútur hjá börnum getur bætt athygli og vitsmunalega getu. Einnig bendir samantekt rannsókna á hreyfingu og námsárangri hjá börnum til að hún stuðli að betri athygli og árangri í skóla. Það sýnir sig því að hreyfing keppir ekki við aðrar námsgreinar en er frekar góð viðbót sem eykur líkur á betri árangri í bóklegum greinum.

Í íslenskri rannsókn þar sem kennarar lögðu áherslu á að nota hreyfingu í kennslu kom í ljós að kennararnir upplifðu meiri ró í tímum eftir hreyfingu og að hún hafði jákvæð áhrif á aðrar námsgreinar. Rannsóknir á íslenskum börnum hafa einnig sýnt fram á að þau börn sem eru með betra þol hafi bæði hærri beinþéttni og að sumir af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma reynast lægri hjá þeim. Þetta getur haft veruleg áhrif á sjúkdóma síðar á lífsleiðinni.

Lífsstílssjúkdómar fyrirbyggðir í æsku

Nú þegar eru lífsstílssjúkdómar algengasta dánarorsök Íslendinga og lélegt þol og lítil hreyfing eru meðal þeirra þátta sem stuðla að því. Það sýnir sig að lífsstílssjúkdómar byrja ekki á fullorðinsaldri heldur snemma á lífsleiðinni. Langvinnir lífsstílssjúkdómar eiga það sameiginlegt að þeir eru oft áratugi að þróast. Til dæmis sýna rannsóknir að börn og ungt fólk eru oft á tíðum komin með breytingar á kransæðum og að líkurnar á breytingum aukast eftir því sem áhættuþáttum fjölgar. Þetta getur síðan leitt til hjartasjúkdóma áratugum síðar.

Út frá þeirri vitneskju sem við höfum í dag eru allar líkur á því að heilbrigt líferni á unga aldri minnki verulega líkur á lífsstílssjúkdómum síðar á ævinni og má þar meðal annars nefna hjartaog æðasjúkdóma, sykursýki, beinþynningu og sumar tegundir krabbameina.

Foreldrar stuðli að hreyfingu barna

Til að ná því markmiði að sem flest börn nái ráðlagðri hreyfingu þurfa allir að hjápast að. Foreldrar verða að skilja mikilvægi hreyfingar og stuðla að hreyfingu barna og takmarka þann tíma sem þau horfa á sjónvarp eða eru fyrir framan tölvur. Skólarnir verða að auka hreyfingu barna á skólatíma og samtvinna hreyfingu öðrum námsgreinum, og þeir sem stjórna verða að stuðla að því að umhverfið verði með svæðum þar sem auðvelt er að stunda hreyfingu, helst fyrir alla aldurshópa. Þótt skipulagðar íþróttir séu mikilvægar eru þær þó alls ekki eina leiðin til að ná þeirri hreyfingu sem æskileg er fyrir börn. Hröð ganga í skólann, útileikir eða hjólreiðar þegar aldur leyfir eru dæmi um aðra möguleika til að ná ráðlagðri hreyfingu, en þá verður líka að tryggja að umhverfið sé þannig að ekki sé slysahætta fyrir þá sem hreyfinguna stunda, til dæmis af bílaumferð.

Hvernig til tekst með lífsstílsbreytingar, bæði hjá börnum og fullorðnum, mun hafa mun meiri áhrif á heilbrigði og lífslíkur í framtíðinni en ný lyf og tækni. Það er til mikils að vinna og allar líkur á því að ef vel til tekst muni það ekki bara spara mikla fjármuni til að halda niðri lífsstílssjúkdómum heldur einnig, og það sem er meira virði, auka lífsgæði og heilbrigði bæði í nútíð og framtíð. Það má því segja að hæfileg og regluleg hreyfing sé einn besti lífeyrir sem hægt er að hugsa sér í dag og eitt af lykilatriðum í að stuðla að vellíðan og heilbrigði.

Hannes Hrafnkelsson

Læknir

Nýtt á vefnum