Greinar / 2. febrúar 2013

Hreyfiseðill - ígildi lyfseðils

Hreyfiseðill - ávísun á hreyfingu er tveggja ára tilraunaverkefni sem SÍBS hefur forgöngu um, en á þessum tveimur árum er áætlað að Hreyfiseðillinn verði raunhæfur valkostur í heilbrigðiskerfinu á öllu höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Verkefnið er styrkt af Velferðarráðuneytinu og byggir á því að læknar heilsugæslunnar skrifi út Hreyfiseðil fyrir þá einstaklinga sem þeir telja að ábending sé fyrir slíkri meðferð. Einstaklingnum er síðan vísað til samhæfingaraðila til ráðgjafar og eftirfylgni. Með þessu móti er verið að bregðast við þeirri þekkingu sem er til staðar um gagnsemi hreyfingar sem meðferðarúrræðis innan heilbrigðiskerfisins. Jafnframt er sett meiri ábyrgð á einstaklingana og þeim gefið tækifæri til að takast á við sjúkdóma með eigin atorku.

Skipulag Hreyfiseðilsins

Hreyfiseðilsverkefnið á Íslandi á sér nokkuð langa sögu sem ekki verður rakin hér. SÍBS hefur skipað verkefnisstjórn sem þekkir verkefnið vel og hefur fylgt því eftir um langa hríð. Verkefnisstjórnin sér um framkvæmd og skipulag verkefnisins. Fyrirkomulag hreyfiseðilsins er unnið út frá uppbyggingu FaR (fysiskt aktivitet på recept) í Svíþjóð sem Streiturannsóknarstofnunin í Gautaborg hefur stýrt. Sú stofnun með dr. Ingibjörgu Jónsdóttur í fararbroddi hefur verið mikilvægur bakhjarl verkefnisins hér á Íslandi um nokkurra ára skeið.

Reynslan þaðan, m.a. varðandi uppbyggingu og skipulag, er okkur afar dýrmæt. Fram hefur komið að samhæfingaraðilarnir gegna veigamiklu hlutverki varðandi kynningu, utanumhald og eftirlit með uppáskrifaðri hreyfingu og nauðsynlegt er að þeir starfi innan heilbrigðiskerfisins og séu kostaðir af því. Reynsla héðan frá Íslandi síðustu tveggja ára styður þetta og hefur sýnt að mikil vinna felst í að kynna hreyfiseðilsverkefnið innan heilsugæslunnar svo úrræðið sé vel nýtt. Ein forsenda góðrar og hagkvæmrar nýtingar er því að samhæfingaraðilinn starfi og sé sýnilegur innan veggja heilsugæslustöðvanna.

Í þessu tilraunaverkefni er gert ráð fyrir rúmlega einu stöðugildi samhæfingaraðila og þeim sautján heilsugæslustöðvum sem þegar hafa samþykkt þátttöku er skipt niður í fjögur umdæmi sem hér segir:

• HH Austurbær 30% – Hg Mos, Hg Grafarv, Hg Árbær, Hg Efra Breiðholt,Hg Mjódd
• HH Vesturbær 30% – Hg Seltjarnarness, Hg Miðbæjar, Hg Hlíðar, Hg Glæsibæ, Hg Efstaleiti
• HH Suðurbær 30% – Hg Garðabæ, Hg Sólvangi, Hg Fjörður, Hg Salahverfi, Hg Hamraborg, Hg Hvammur
• Akureyri og Eyjafjarðarsveit 25% – Hg Akureyri

Gert er ráð fyrir að þetta skipulag sé einungis byrjunin en í framtíðinni verði Hreyfiseðilsúrræðið í boði á öllum heilsugæslustöðvum landsins. Sú sýn verkefnisstjórnarinnar samræmist drögum að Heilbrigðisáætlun til ársins 2020 sem stýrt hefur verið af Velferðaráðuneytinu s.l. ár.

Forsendur Hreyfiseðilsins

Umfangsmikil vísindaleg þekking er fyrir jákvæðum áhrifum hreyfingar á hina ýmsu sjúkdóma sem m.a. hefur komið fram í rannsóknum Pedersen, B.K. og Saltin (B Scand J Med Sci Sports 2006 og Blair et al JAMA 1996). Á töflunum hér má sjá dæmi um jákvæð áhrif hreyfingar á háþrýsting (tafla 1) annars vegar og langvinna lungnateppu (tafla 2) hins vegar. Skipulögð hreyfing er því öflugt meðferðar- úrræði til að vinna á sjúkdómum og sjúkdómseinkennum eins og langvarandi verkjum, kvíða, depurð, sykursýki, offitu, kransæðasjúkdómum, hjartabilunareinkennum, afleiðingum lungna- þembu, háum blóðþrýstingi, hækkuðum blóðfitum svo eitthvað sé nefnt. Gerður er skýr greinarmunur á fyrirbyggjandi aðgerðum varðandi sjúkdóma og þess sem sýnt hefur verið fram á að hreyfing sé virkt meðferðarform sem 2. stigs forvörn gegn sjúkdómum. Jafnframt er mikilvægt að átta sig á að Hreyfiseðill kemur ekki í stað hefðbundinnar sjúkraþjálfunar.

Þegar lagt var af stað í að undirbúa Hreyfiseðilsverkefnið hér á landi var lögð áhersla á að hafa skýra og góða verkferla þannig að traust myndi skapast á úrræðinu. Aðgreina þyrfti meðferðar- úrræðið frá lýðheilsu og heilsugæslulæknar væru í lykilhlutverki hvað það snertir. Einnig hefur verið lagt upp með að samhæfingaraðilarnir hafi þekkingu á sjúkdómafræði og lífeðlisfræði þjálfunar tengdri sjúkdómum. Gert er ráð fyrir að eftirfylgnin sem tryggir meðferðarheldnina kosti lítið og því var rafrænt utanumhald tekið upp sem haldið hefur kostnaði niðri, en þetta rafræna utanumhald er í sjálfu sér sérstakt verkefni hér á landi. Á komandi tímum er áætlað að setja upp námskeið fyrir þá aðila sem vilja bjóða upp á hreyfiúrræði og að þeir aðilar öðlist vottun sem slíkir.

Ferli Hreyfiseðilsins

Við komuna til heilsugæslulæknis metur læknir einkenni og ástand einstaklingsins. Læknir kynnir hreyfiseðilsúrræðið ef hann telur að það eigi við, metur hvort viðkomandi einstaklingur sé tilbúinn, tekur viðeigandi mælingar og skrifar síðan upp á hreyfingu í stað eða ásamt lyfjum við þeim sjúkdómum eða sjúkdómseinkennum sem verið er að fást við. Þannig standi Hreyfiseðillinn jafnfætis lyfseðlinum. Því næst er einstaklingnum vísað áfram til samhæfingaraðila (sjúkraþjálfara) sem staðsettur er innan heilsugæslustöðvarinnar. Í komunni til samhæfingaraðilans á sér stað hvatningarsamtal þar sem möguleikar og geta til hreyfingar eru ræddir og metnir, sett fram markmið og útbúin æfingaáætlun sem byggir á ofangreindum rannsóknum í samráði við einstaklinginn, s.s. álag, tíðni og tegund þjálfunar. Einnig er 6 mínútna göngupróf framkvæmt og viðkomandi kennt hvernig skráningu á hreyfingu er háttað á.

Eftirfylgni samhæfingaraðilans byggir á því að einstaklingurinn hringir í ákveðið símanúmer eða skráir sig inn á hreyfisedill.is í hvert sinn sem hreyfing er stunduð samkvæmt áætlun. Þessi skráning einstaklingsins auðveldar utanumhald samhæfingaraðilans og gefur möguleika á markvissri eftirfylgd um framvindu og gang mála auk þess sem eftirfylgnin er í formi samtala og hvatningar. Skráningin gefur þátttakendum möguleika á gagnvirkri endurgjöf og auðveldar hún jafnframt árangursmælingar af verkefninu. Læknirinn fylgir einstaklingnum líka eftir sbr. önnur úrræði sem notuð eru innan heilbrgðisþjónustunnar. Þessi hluti ferilsins er einstaklingum að kostnaðarlausu.

Hreyfiúrræði seðilsins

Eins og fram kom hér að ofan þá er gert ráð fyrir því að þjálfunin geti farið fram víða og nauðsynlegt er að í boði sé hreyfiúrræði með mismikilli ákefð, helst í nærumhverfi einstaklinganna. Erlendis er reynslan sú að skortur hefur verið á framboði á hreyfiúrræðum með lítilli ákefð. Enn sem komið er hafa hreyfiúrræðin verið illa kortlögð hér á landi en í lok sumars mun verða opnaður vefurinn hreyfitorg.is. Þar verður hægt að finna þau hreyfiúrræði sem boðið er upp á, en úrræðaaðilar þurfa þá að sjá um að koma upplýsingum inn á vefinn og uppfæra þær reglulega. Þessi vefur mun styðja við framgang og framtíð Hreyfiseðilsins. ÍSÍ mun hýsa vefinn en aðstandendur hans eru m.a. Landlæknisembættið, Félag sjúkraþjálfara, Læknafélagið, Íþróttakennarafélag Íslands, UMFÍ, Reykjalundur og Virk starfsendurhæfingarsjóður.

Í lokin

Eitt af meginhlutverkum SÍBS er að stuðla og vinna að forvörnum. Verkefnissjórn Hreyfiseðilsverkefnis SÍBS er bjartsýn á framtíð verkefnisins, enda ekki annað hægt þar sem heilsugæslur höfuðborgarsvæðisins og á Akureyri hafa tekið jákvætt í framkvæmdina. Velferðarráðuneytið hefur stutt vel við hugmyndirnar og samvinna aðila hefur verið góð í alla staði. Kynning á verkefninu bæði fyrir almenning og fagfólk er mikilvæg og því ert þú lesandi góður beðinn um að taka þátt í þeirri herferð og benda fólki í þínu umhverfi á það sem þú hefur hér lesið.

Auður Ólafsdóttir

Varaformaður SÍBS

Nýtt á vefnum