Greinar / 2. febrúar 2013

Hreyfing, langlífi og þjóðarhagur

Árið 1953 birtu Morris og félagar tímamótagrein í hinu virta tímariti The Lancet sem sýndi að miðaverðir, sem hlupu upp og niður stigana í tveggja hæða vögnum Lundúnaborgar, fengu síður kransæðasjúkdóma en bílstjórarnir sem sátu allan daginn. Síðan hefur staða þekkingar á fjölþættu gildi hreyfingar sem forvarnar- og meðferðarforms sífellt verið að eflast. Þrátt fyrir það benda kannanir til að stór hluti Íslendinga á öllum aldri hreyfi sig ekki nóg (Hólmfríður Þorgeirsdóttir ofl., 2011; Currie ofl., 2012). Af hverju? Er mikilvægi reglulegra hreyfingar og áhætta kyrrsetulífernis almennt vanmetið eða hvetja aðstæður og umhverfi ekki nóg til hreyfingar? Rannsóknir sýna að bæði skiptir máli, þ.e. annars vegar þættir sem snúa að einstaklingum sjálfum og einnig þeirra nánasta umhverfi (Bauman o.fl., 2012).

Smitsjúkdómar ekki lengur helsta ógnin

Ekki þarf að hafa mörg orð um þær miklu breytingar sem hafa orðið á þróuðum samfélögum líkt og því íslenska á síðustu árum og áratugum. Samkvæmt WHO (2012) valda nú langvinnir og ósmitnæmir sjúkdómar1 mestri sjúkdómabyrði (77%) og flestum dauðsföllum (88%) í Evrópu í stað vannæringar og farsótta fyrr á tímum. Og stærstur hluti þeirrar sjúkdómabyrgði og ótímabærra dauðsfalla sem má fyrirbyggja í Evrópu kemur til vegna hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, langvinnrar lungnateppu og sykursýki og vegna sameiginlegra áhættuþátta þessara sjúkdóma, þ.e. tóbaksneyslu, skaðlegrar neyslu áfengis, kyrrsetu og óholls mataræðis auk offitu.

Flest ótímabær dauðsföll tengjast lífsstíl, Ef við lítum okkur nær og skoðum stöðuna á Íslandi eru, samkvæmt nýlegri samantekt IHME (2012), flest ótímabær dauðsföll vegna kransæðasjúkdóma, lungnakrabbameins, heilablóðfalla og sjálfsskaða. Flest lífár með skerta getu eru hins vegar áætluð vegna verkja í mjóbaki, alvarlegs þunglyndis, verkja í hálsi og annarra stoðkerfisvandamála. Þá er áætlað að flest glötuð góð æviár , þar sem tillit er tekið til lífára við skerta getu auk ótímabærra dauðsfalla, séu vegna verkja í mjóbaki, kransæðasjúkdóma, alvarlegs þunglyndis og falla. Þessar niðurstöður samræmast t.d. ágætlega niðurstöðum rannsóknar Stefáns Thorlaciusar og Sigurðar B. Stefánssonar (2010) þar sem kemur m.a. fram að langalgengustu orsakir örorku 16-66 ára fólks á Íslandi eru geðraskanir (33,1% hjá kvk og 41,5% hjá kk) og stoðkerfisraskanir (35,7% hjá kvk og 17,2% hjá kk).

Hreyfing, heilsa og sjúkdómabyrði

Með helstu heilsufarsógnir Íslendinga í huga má sjá að rannsóknir í gegnum tíðina staðfesta að hreyfing er einn af lykiláhrifaþáttum heilbrigðis, samanber töflu 1 (Lee ofl., 2012). Til viðbótar við þau atriði sem koma fram í töflunni má einnig nefna að hreyfing spornar gegn streitu og bætir svefn (USDHHS, 2008). Hreyfing er því ekki aðeins mikilvæg til að fyrirbyggja ótímabæran dauða og skert lífsgæði vegna fjölmargra sjúkdóma heldur stuðlar hún ekki síst að því að fólk sé almennt betur í stakk búið til að takast á við áskoranir daglegs lífs.

En hvað á kyrrseta stóran þátt í sjúkdómabyrði langvinnra sjúkdóma? Lee o.fl. (2012) áætla að kyrrseta orsaki á heimsvísu um 6% kransæðasjúkdóma, um 7% sykursýki af tegund 2, um 10% brjóstakrabbameina, um 10% ristilkrabbameina og um 9% ótímabærra dauðsfalla almennt. Vísindamennirnir benda einnig á að kyrrseta hafi svipuð áhrif á lífslíkur og reykingar og offita.

Auk beinna áhrifa hreyfingar á heilsu hefur t.d. virkur ferðamáti, líkt og ganga og hjólreiðar, einnig jákvæð áhrif umhverfið (m.a. mengun og hávaða) sem hefur aftur góð áhrif á heilsu allra íbúa og hag samfélaga almennt (Woodcock o.fl., 2009).

Hreyfing og lífslíkur

Kyrrseta er fjórða algengasta dánarorsökin á heimsvísu (WHO, 2010). Ef nánar er litið á tölulegar upplýsingar gerðu t.d. Moore o.fl. (2012) nýlega umfangsmikla rannsókn á því hversu mörg lífár gætu unnist hjá 40 ára og eldri eftir því hversu mikil hreyfing var stunduð í frítíma. Í töflu 2 eru tekin dæmi um áhugaverðar niðurstöður úr rannsókninni en nánari upplýsingar um efnivið, aðferðir, vikmörk o.fl. má sjá í umræddri grein.

Ef litið er á hópinn almennt eru t.d. 40 ára og eldri sem hreyfa sig minna en hreyfiráðleggingar segja til um, en þó eitthvað, í um 20-25% minni (sjá áhættuhlutfall) hættu á að deyja en þeir sem hreyfa sig ekkert. Fyrrnefndi hópurinn er einnig líklegur til að lifa allt að 2,5 árum lengur (sjá áunnin lífár). Að sama skapi eru þeir sem stunda lágmarkshreyfingu miðað við ráðleggingar í rúmlega 30% minni hættu á að deyja og eru líklegri til að lifa um 3,4 árum lengur en þeir sem hreyfa sig ekkert. Þeir sem eru hættir að reykja geta minnkað hættuna á dauða um tæp 40% og aukið lífslíkur um rúm 4 ár með því að hreyfa sig í samræmi við lágmarksráðleggingar borið saman við þá sem eru hættir að reykja en hreyfa sig ekkert. Reykingamenn sem hreyfa sig a.m.k. í samræmi við lágmarksráðleggingar geta minnkað hættuna á dauða um 25% og bætt um 2,6 árum við lífið samanborið við aðra reykingamenn sem hreyfa sig ekkert. Heilt yfir má sjá að jafnvel lítil hreyfing hefur töluverð, jákvæð áhrif á lífslíkur og ávinningurinn verður meiri eftir því sem fólk hreyfir sig meira, en afmarkast þó á endanum af getu hvers og eins.

Hagrænt gildi hreyfingar

Kostnaður vegna kyrrsetu hefur ekki verið metinn með heildstæðum hætti fyrir Ísland. Ef litið er til annarra þjóða er áætlað að beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna kyrrsetu sé á bilinu 28,4-334,4 USD á hvern íbúa í Ástralíu, Bretlandi og í Sviss. Ef óbeinn kostnaður er reiknaður með er upphæðin á bilinu 154,7 – 418,9 USD á hvern íbúa í Kanada og í Bandaríkjunum (Kohl o.fl., 2012).

Vel þekkt er að fæðingum er að fækka á meðan hlutfall fólks á eftirlaunaaldri er sífellt að aukast með tilheyrandi áskorunum fyrir velferðarkerfi þjóða. WHO leggur því ríka áherslu á að leita sem hagkvæmastra leiða til að fólk lifi ekki aðeins lengur heldur lifi eins sjálfstæðu, heilbrigðu og almennt góðu lífi og kostur er.

Hér hefur verið fjallað um fjölþætt gildi hreyfingar fyrir heilsu, líðan og lífslíkur. Fyrir liggur að stór hluti þjóðarinnar hreyfir sig ekki nóg og því ljóst að kyrrseta er lýðheilsuvandamál sem verður að taka alvarlega. Aðgerðir sem sporna gegn kyrrsetu og stuðla að hreyfingu landsmanna á öllum æviskeiðum eru sannarlega dæmi um leiðir sem eru líklegar til að bæta hag einstaklinga og samfélagsins í heild svo um munar. Valið er okkar.

Heimildir
  • Adrian E. Bauman o.fl. (2012). Correlates of physical activity: why are some people physically active and others not? The Lancet, 380, 258-271.
  • Currie, C. o.fl. (2012). Social determinants of health and wellbeing among young people (HBSC). Kaupmannahöfn: WHO Regional Office for Europe.
  • Harold W. Kohl 3rd. o.fl. (2012). The pandemic of physical activity: global action for public health. The Lancet, 380, 294-305.
  • Hólmfríður Þorgeirsdóttir o.fl. (2011). Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Reykjavík: Embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði.
  • Institute for Health Metrics and Evaluation. (2012). GBD profile: Iceland. Sótt 15/4 2013 á www.healthmetricsandevaluation.org/gbd/country-profiles
  • I-Min Lee o.fl. (2012). Effects of physical inactivity on major non-communicable diseases world-wide: an analysis of burden of disease and life expectancy. The Lancet, 380, 219-229.
  • Sigurður Thorlacius og Sigurjón B. Stefánsson. (2010). Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2009 og samanburður við árin 2002 og 2005. Sótt 3/5 2013 á www.tr.is/ media/skjol-a-pdf/Algengi-ororku-2009-Skyrsla.pdf.
  • US Department of Health and Human Sevices. (2008). Physical activity advisory committee report. Sótt 3/5 2013 á www.health.gov/paguidelines/Report/Default.aspx WHO. (2010). Global recommendations on physical activity for health. Genf: WHO.
  • WHO Europe. (2012). Action Pland for implementation of the European Strategy for the Prevention and Control of Noncommunicable Diseases 2012-2016. Kaupmannahöfn: WHO Regional Office for Europe.
  • WHO Europe. (2013). The European health report 2012. Charting the way to well-being. Kaupmannahöfn: WHO Regional Office for Europe.
  • Woodcock o.fl. (2009). Public health benefits of strategies to reduce greenhouse-gas emissions: urban land transport. The Lancet, 374, 1930-43.

Gígja Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri heilsueflandi samfélags hjá embætti landlæknis
Nýtt á vefnum