Greinar / 2. febrúar 2014

Hvað eru lungun að segja þér?

Að undanförnu hefur fólk í vaxandi mæli gert sér grein fyrir mikilvægi hreyfingar til að við­ halda góðri heilsu. Útihlaup og hjólreiðar njóta vaxandi vinsælda og fjölmargir synda reglulega. Til þess að góður árangur náist þurfa lungun að starfa eðlilega og mikilvægt er að greina orsakir áreynslubundinna einkenna í öndunarfærum.

Æskilegt er að fara ekki of geyst í byrjun og nýta sér ráðgjöf sérfræðinga í þessum efnum. Það er eðlilegt að við verðum auðveldlega mæðin við fremur litla áreynslu í byrjun en við reglubundna þjálfun eykst smám saman þolið. En hvenær verður mæðin óeðlileg?

Hlutverk lungnanna

Það er hlutverk lungna að koma súrefni inn­ öndunarloftsins í blóðrásina og losa koltvíildi úr blóðinu. Þessi loftskipti gerast með flæði á lofttegundum milli blóðs í háræðum og lofts í lungnablöðrunum. Til þess að loftflæðið gangi sem best er yfirborð lungnablaðranna gífurlega stórt, eða samtals um 75 m2 . Við eðlilegt ástand þurfum við ekki að hugsa sérstaklega um að anda heldur er önduninni stjórnað af öndunarstöðvum í heilanum. Við öndum 15 til 25 sinnum á mínútu, um það bil hálfum lítra af lofti í hvert sinn. Þetta samsvarar um 12.500 lítrum á sólarhring. Öndunin fer fram með aðstoð öndunarvöðvanna, m.a. þindarinnar. Ef truflun verður á starfsemi öndunarfæra eða öndunarvöðva, eða jafnvægi raskast í starfsemi þeirra, truflast öndunarstarfsemin og mæði gerir vart við sig.

Ýmsir sjúkdómar geta valdið áreynslumæði en algengustu orsakir eru lungnasjúkdómar, hjartasjúkdómar, blóðleysi, tauga-og vöðvasjúkdómar en einnig sjúkdómar í barka. Við þessa sjúkdóma bætast einnig offita og ofþyngd sem orsök mæði í vaxandi mæli.

Öndunarmæling

Lungamæling.JPG

Öndunarmæling er helsta aðferðin við greiningu öndunarvandamála, sem og til að fylgja eftir áhrifum öndunarfæralyfja. Slíkar mælingar hafa verið gerðar allt frá dögum forngrikkja en öndunarmælirinn (spirometer) eins og við þekkjum hann í dag var hins vegar fundinn upp á 19. öld. Menn lærðu snemma að sterk tengsl væru á milli öndunarmælingar, almenns heilsufars og ævilengdar.

Sú mæling sem mest er notuð er svokölluð fráblástursmæling. Með henni mælum við hve mikið og hratt við getum blásið frá okkur, þ.e. bæði hraða og rúmmál. Við mælum einnar sek­ úndu fráblástur (FEV1), þ.e. hve mikið við getum blásið frá okkur af lofti á einni sekúndu.

Öndunarmælingar eru framkvæmdar á flestum heilsugæslustöðvum, á lungnarannsóknarstofu Landspítala í Fossvogi og hjá lungnalæknum í Læknasetrinu í Mjódd.

Áreynsla og astmi

Astmi er algengur bólgusjúkdómur í öndunarfærum (algengi 5-10%) sem oft einkennist af endurteknum köstum með mæði, hósta, surgi og þyngslum fyrir brjósti. Einkenni versna oft í köldu lofti, s.s. við sjósund, hlaup og skíðagöngu þar sem þurrkur í slímhúð í berkjum veldur samdrætti í sléttum vöðvum og losun bólgumiðla frá frumum í slímhúð sem auka enn á berkjusamdráttinn.

Oft er fjölskyldusaga um ofnæmi, astma eða exem. Stundum er einnig saga um þrálátan hósta í tengslum við öndunarfærasýkingar. Í sjaldgæfari tilfellum er nær eingöngu um nætureinkenni að ræða. Einnig er oft saga um barnaastma sem gerir vart við sig að nýju á fullorðinsárum í tengslum við öndunarfærasýkingu eða hreyfingu utan húss í köldu lofti, t.d. hlaup eða hjólreiðar.

Þórbergur Þórðarson lýsir vel astmaeinkennum sínum í bernsku: „Ég náði varla andanum, blánaði allur upp í framan og var næstum kafnaður. Þessi andþyngsli komu yfir mig í köstum … Þau lýstu sér í afskaplegri mæði, þegar ég hljóp dálítið langt og líka þegar ég gekk móti brekku. Suðið og sogið voru meiri í köldu veðri en hlýju“ .

Langflestir þeirra einstaklinga sem hafa astma fá einkenni við áreynslu en einnig eru dæmi um að einstaklingar hafi astmaeinkenni eingöngu við áreynslu. Dæmigerð einkenni áreynsluastma koma oftast í kjölfar hreyfingar og lýsa sér sem andþyngsli og erfiðleikar við útöndun. Vert er að hafa í huga að astmi er tvöfalt algengari hjá íþróttafólki en öðrum og talsvert vangreindur. Mikilvægt er þó að muna að astminn hefur ekki hindrað þessa einstaklinga í að komast í fremstu röð í sínum greinum með réttri meðferð.

Oft er viss afneitun til staðar, ekki síst á unglingsárum en einnig e.t.v. ótti um að komast ekki í keppnisliðið ef maður hefur astma. Mikilvægt er að meðhöndla astma hjá íþróttafólki svo það nái sem bestum árangri. Strangar reglur gilda um notkun lyfja hjá keppnisíþróttafólki og mikilvægt að skrá niður öll lyf. Í stöku tilfellum getur þurft að sækja um undanþáguleyfi fyrir lyfjanotkun en hefðbundin innöndunarlyf sem notuð eru við astma eru leyfð.

Langvinn lungnateppa

Langvinn lungnateppa er langvinnur bólgusjúkdómur í lungum sem veldur skerðingu á fráblástursgetu lungnanna. Í byrjun er skerðingin væg og viðkomandi einstaklingur því einkennalaus í hvíld. Helstu einkenni eru áreynslumæði, hósti, slímuppgangur, en einnig þreyta og úthaldsleysi ef sjúkdómurinn er kominn á hærra stig. Sjúkdómurinn kemur oftast fyrir hjá þeim sem eru 40 ára og eldri og reykingar eru sterkur áhættuþáttur.

Samkvæmt faraldsfræðilegri rannsókn hér á landi reyndust 18% einstaklinga 40 ára og eldri hafa væga skerðingu á fráblæstri en 9% reyndust hafa talsverða skerðingu. Tíðni sjúkdómsins hefur einnig farið vaxandi hjá konum og greinast nú fleiri konur árlega með sjúkdóminn en karlar.

Önnur áreynslubundin einkenni

Áreynslutengd öndunarfæraeinkenni geta einnig komið fram vegna sjúkdóma í barka. Þessi einkenni koma oftast fram við hámarks­ áreynslu eða við hraða spretti og einkennast af andnauð, þ.e. erfitt er að draga andann að sér. Orsakir þessa eru fyrst og fremst svokallaður barkaspasmi, sem kemur til af slímhúðarþurrki og bólgu í slímhúð, t.d. vegna bakflæðis. Einnig geta óeðlilegar hreyfingar á raddböndum valdið erfiðleikum við innöndun, t.d. vegna raddbandalömunar eða annarra sjúkdóma í raddböndum. Til að greina sjúkdóma í barka eru nefgöng þrædd með holsjá og skoðað aftur í nefkokið og þar sveigt aftan við mjúka góminn þar til vel sést yfir barkakýlið og raddböndin. Bjúgur og roði í aftari hluta barka er mjög sterk vísbending fyrir súru bakflæði.

Samantekt

Algengustu orsakir öndunarfæraeinkenna eru án vafa vegna sýkinga og ganga oftast yfir án sérstakrar meðferðar hjá þeim sem hraustir eru fyrir. Ef einkenni eru hins vegar viðvarandi, eða gera oft vart við sig, er mikilvægt að leita læknis og fá greiningu á vandanum. Mikilvægast í því sambandi er öndunarmælingin en fleiri sérhæfðar rannsóknir má fá á lungnarannsóknarstofu Landspítala í Fossvogi. Æskilegt er að hver einstaklingur þekki fráblástursgildið sitt svo að greina megi snemma ef einhver frávik verða þar á. Öndunarmæling ætti því að vera jafnsjálfsögð og mæling á blóðþrýstingi. Sérstaklega er mælt með öndunarmælingu hjá þeim sem hafa öndunarfæraeinkenni, s.s. hósta, áreynslumæði eða slímuppgang og hjá öllum sem reykja.

Heimildir
  1. Shim YM, Burnette A, Lucas S, Herring RC, Weltman J et al. Physical Deconditioning as a Cause of breathlessness among Obese Adolescents with a Diagnosis of Astma. PLoS ONE 8(4):e61022.doi:10.1371/journal.pone.0061022.
  2. Exercise-induced asthma, respiratory and allergic disorders in elite athletes: epidemiology, mechanisms and diagnosis: part I of the report from the Joint Task Force of the European Respiratory Society (ERS) and the European Academy of Allergy and Clinical Immunology (EAACI) in cooperation with GA2LEN. Allergy 2008; 63: 387-403.
  3. Þorbergur Þórðarson. Steinarnir tala, 6 kafli, Helgafell 1956.
  4. Ludviksdottir D, Bjornsson RB. Leiðbeiningar um greiningu astma hjá íþróttafólki. Embætti landlæknis 2012. landlæknir.is/utgefid-efni/skjal/item16547 – November 2012
  5. Guðmundsson Gunnar. Öndunarfæraeinkenni hjá sundmanni.Læknablaðið 2013;99:83-85.
  6. Öndunarmælingar. Landspítali lungnarannsóknarstofa 2009.
  7. Christopher KL, Morris MJOtolaryngol Clin North Am. 2010 Feb;43(1):43-66, viii. doi: 10.1016/j.otc.2009.12.002. Vocal cord dysfunction, paradoxic vocal fold motion, or laryngomalacia? Our understanding requires an interdisciplinary approach.
  8. Langvinn lungnateppa. Landspítali lyflækningavið I, lungnadeild 2007.
  9. Benediktsdóttir B, Guðmundsson G, Jörundsdóttir KB, Vollmer W, Gíslason Þ. Hversu algeng er langvinn lungnateppa, Læknablaðið 2007; 93: 471-77.

Dóra Lúðvíksdóttir

Lungnalæknir

Nýtt á vefnum