Greinar / 1. júní 2014

Að bæta árum við lífið og lífi við árin

Um níu af tíu dauðsföllum á Íslandi stafa af sjúkdómum sem eru að einhverju leyti á áhrifasviði lífsstíls.

Dauðsföll ein og sér segja þó ekki alla söguna um heilsufarið. Þegar meta skal heilsufar þjóða notar Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) kvarða sem nefnist „glötuð góð æviár“, og eru þá lögð saman þau ár sem glatast vegna ótímabærs dauða og og árafjöldi sem lifað er við örorku.

Samkvæmt tölum WHO úr skýrslunni „Global burden of disease“ frá 2012, eru stærstu ógnir við heilsufar Íslendinga eftirfarandi: stoðkerfisraskanir, geðraskanir, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar – í þessari röð. Ef það kemur einhverjum á óvart að heilsufarsskaðinn sé meiri af völdum stoðkerfisraskana og geðraskana en krabbameina og hjarta- og æðasjúkdóma er mögulega einnig ástæða til að vera hissa á hvaða áhættuþættir vega þyngst: Þar er nefnilega mataræði í efsta sæti, og þar á eftir ofþyngd, reykingar og háþrýstingur.

Lífsstílsbreyturnar að baki þessum áhættuþáttum og sjúkdómum eru fjölmargar. Ásamt mataræði má telja hreyfingu, tóbaksreykingar, áfengisog vímuefnanotkun, svefnvenjur, streituumhverfi og andlega líðan. Þegar lagt er upp í þá vegferð að bæta lífsstílinn segir tölfræðin að hægt sé að bæta nokkrum árum við lífið og líka talsverðu lífi við árin ef vel tekst til, um leið og samfélagið sparar stórfé vegna lægri sjúkrakostnaðar og aukins vinnuframlags.

Það þarf víða að bera niður til að ná utan um vandamálið og aðstoða landsmenn við að finna leiðina að betri heilsu. Íslenska heilbrigðiskerfið er hins vegar í eðli sínu viðbragðsdrifið – hannað til að bregðast við og vinda ofan af skaða sem þegar er skeður – í stað þess að koma í veg fyrir skaðann. Þannig kosta spítalarnir okkur um 60.000 milljónir á ári og heilsugæslan um 40.000 milljónir, meðan aðeins er varið kringum 500 milljónum til beinna forvarna (stærst eru framlög vegna krabbameinsskoðunar og áfengis- og vímuvarnamála).

Brýna nauðsyn ber til að hið opinbera herði róðurinn og veiti meira fé til forvarna á sviði lífsstíls. Þjóðin er að eldast, og að óbreyttu gæti næsta kynslóð lifað skemur en foreldrar hennar.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum