Greinar / 3. október 2014

Heilsa, jöfnuður og réttlæti, ábyrgt lýðheilsustarf

Markmið lýðheilsustarfs er að efla heilsu og vellíðan og fyrirbyggja sjúkdóma. Það byggist á því að finna þætti sem hafa áhrif á heilsu og vellíðan og beita víðtækum, almennum aðgerðum til að draga úr áhættuþáttum og auka verndandi þætti meðal almennings. Sem dæmi um slíkar aðgerðir má nefna reglugerðir og álagningu í tengslum við neysluvörur sem hafa neikvæð áhrif á heilsu (t.d. tóbak, áfengi, sykraða gosdrykki og sælgæti), fræðslu og vitundarvakningu (t.d. „5 á dag“ og „Geðorðin 10“), opinberar ráðleggingar (t.d. ráðleggingar um mataræði og ráðleggingar um hreyfingu), og árleg samfélagsverkefni á borð við „Tóbakslaus bekkur“, „Göngum í skólann“ og „Hjólum í vinnuna“.

Heilsueflandi samfélag.JPG

Embætti landlæknis hefur markað sér stefnu í lýðheilsustarfi sem byggist á því að beina sjónum fyrst og fremst að hinu stærra samhengi – þeim efnahagslegu, félagslegu og samfélagslegu þáttum sem stýra að miklu leyti lífsvenjum fólks, valkostum og tækifærum. Þessi nálgun tekur tillit til þess að lífsvenjur almennings eru ekki bara spurning um val eða „lífsstíl“ heldur ráða umhverfi og aðstæður miklu um tækifæri fólks til að lifa heilbrigðu lífi. Á nýafstaðinni Norrænni lýðheilsuráðstefnu í Þrándheimi ríkti almenn samstaða um að jöfnuður varðandi heilsu og vellíðan væri pólitískt val. Þannig er það ábyrgð þeirra, sem ráða mestu um skipulag þjóðfélagsins, að skapa samfélag sem setur mannleg gildi í öndvegi og gefur öllum íbúum rými og tækifæri til heilbrigðs lífs. Þátttakendur töldu meginverkefnið í þessu tilliti vera að vinna gegn félagslegum ójöfnuði.

Þeir sem eru í mestri hættu varðandi vanheilsu eru hópar sem hafa minnsta persónulega stjórn á eigin lífi.(2) Þetta eru hópar sem búa við takmarkanir sökum félags- og efnahagslegrar stöðu og hafa minni tækifæri til þess að lifa heilbrigðu lífi en aðrir. Fátækt, atvinnuleysi, skortur á menntun og skortur á félagslegum stuðningi eru dæmi um þætti sem hafa mikil áhrif á þá sjúkdóma sem helst ógna lífi og heilsu fólks í nútímasamfélagi. Því má velta fyrir sér hvort orðið „lífsstílssjúkdómar“ sé heppilegt – eða réttmætt – í þessu tilliti eða hvort eðlilegra sé að tala um „umhverfistengda sjúkdóma“ eða ósmitbæra sjúkdóma (non-communicable diseases). Hættan er sú að með því að skilgreina þessa sjúkdóma sem afleiðingar slæms „lífsstíls“ sé athyglinni beint frá vægi hinna stærri umhverfis­ þátta auk þess sem mögulega er alið á skömm og ásakandi umræðu í garð þeirra sem þegar standa höllum fæti. Bent hefur verið á að lýð­ heilsustarf sem byggist á einstaklingsábyrgðinni án tillits til stærra samhengis eigi á hættu að verða ómarkvisst, árangurslítið og jafnvel sið­ ferðilega vafasamt.

Nálgun Embættis landlæknis í lýðheilsustarfi hefur verið sú að vinna með umhverfið, stuðla að kerfislægum breytingum sem draga úr ójöfnuði til heilsu og skapa aðstæður sem ýta undir heilbrigða lifnaðarhætti. Í því skyni hefur embættið skipulagt yfirgripsmikil, heildræn heilsueflingaverkefni með það að markmiði að ná til allra hópa samfélagsins, yfir allt æviskeiðið, með öflugu samstarfi við skóla, vinnustaði og sveitarfélög. Innan þessara verkefna er unnið á markvissan hátt með ákveðna grunnþætti, s.s. næringu, hreyfingu, geðrækt, tóbaks-, áfengis- og vímuvarnir, og áhersla lögð á stefnumótun og skipulag umhverfis. Miklu máli skiptir að hugað sé jafnt að félagslegum, andlegum og líkamlegum þáttum og að mannrétt­indi, jafnrétti og lýðræði séu höfð að leiðarljósi í heilsueflingarstarfi. Þannig er lögð áhersla á að ekki fari fram neikvæð eða ásakandi umræða innan verkefnanna, að heilsuefling skapi ekki óþægilegan þrýsting eða vanlíðan og að hugað sé að félagslegu réttlæti með tilliti til aldurs, kyns, holdafars og annarra mannlegra eiginleika.

Áhrifaþættir heilbrigðis.JPG

Framgangur þessara verkefna hefur verið vonum framar. Í dag starfa allir framhaldsskólar landsins í anda Heilsueflandi framhaldsskóla4 og þriðjungur grunnskólanna eru Heilsueflandi grunnskólar(5) . Mikilvægt samstarf hefur einnig skapast milli Embættis landlæknis og nokkurra sveitarfélaga, svo sem Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar, sem hafa skuldbundið sig til þess að verða Heilsueflandi samfélög, með því að setja af stað margvíslegar, kerfislægar aðgerðir til að efla heilsu og vellíðan íbúanna. Þar sem áhrifaþættir heilsu ná langt út fyrir heilbrigðiskerfið er mikilvægt að vinna að bættri lýð­ heilsu þvert á málaflokka og til að ná árangri er mikilvægt að huga að áhrifum allra stjórnvaldsaðgerða á heilsu og líðan almennings. Stórt skref var stigið í átt að þessu markmiði hér á landi þegar ráðherranefnd um lýðheilsu var sett á laggirnar en fulltrúar Embættis landlæknis sitja bæði í lýðheilsunefnd og verkefnastjórn nefndarinnar. Mikil von er við það bundin að með þessum hætti takist að skapa heilsueflandi umhverfi hér á landi sem vinnur jöfnum höndum að félagslegu réttlæti, heilsu og hamingju fólksins í landinu.

Þeim sem vilja fylgjast með heilsueflandi starfi í skólum er bent á Facebook síður Heilsueflandi grunn- og framhaldsskóla: www.facebook.com/ heilsueflandigrunnskóli og www.facebook.com/ heilsueflandiframhaldsskoli.

Heimildir
  1. http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/ item24605/Trandheimsyfirlysingin-%E2%80%93-nyvidmid-i-norranu-lydheilsustarfi..
  2. Syme, L.S. (2007). The prevention of disease and promotion of health: the need for a new approach. European Journal of Public Health, 17, 329-330.
  3. Mansfield, L. & Rich, E. (2013). Public health pedagogy, border crossings and physical activity at every size. Critical Public Health, 23, 356-370.
  4. http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/ item12345/Heilsueflandi_framhaldsskoli..
  5. http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/ item12346/Heilsueflandi_grunnskoli.
  6. http://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/ item20429/Samstarf-a-svidi-lydheilsu.
  7. http://www.mosfellsbaer.is/mannlif/heilsa-og-hreyfing/ heilsueflandi-samfelag/.
  8. http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/7923.
  9. Dahlgren og Whitehead. west-norfolk.gov.uk/default. aspx?page=22422.

Sigrún Daníelsdóttir

Verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti Landlæknis

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Sálfræðingur og lýðheilsufræðingur, sviðsstjóri á Lýðheilsusviði hjá embætti landlæknis
Nýtt á vefnum