Greinar / 25. febrúar 2015

Skilgreining á örorku

Örorka var áður skilgreind hérlendis sem „Mikil eða alger skerðing á starfsgetu af slysi eða veikindum, til dæmis lömun“ (Orðabók Menningarsjóðs). Hér er um frekar takmarkaðan skilning að ræða og vísar einkum til skerðingar á starfsgetu. Síðustu 10-15 ár hefur örorka í meira mæli verið metin út frá læknisfræðilegum forsendum. Hefur þessa m.a. gætt við mat á örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR), en áður var örorka jafnframt metin út frá félagslegum forsendum. Þannig er ekki lengur einvörðungu miðað við getu einstaklings til starfa á vinnumarkaði þegar örorka er metin hjá TR.

Starfsgeta háð mörgum þáttum

Fyrsti vísir að sjúkra- og slysatryggingum hér á landi varð til kringum aldamótin 1900. Tryggingastofnun ríkisins (TR) var stofnuð með heildstæðum lögum um alþýðutryggingar árið 1936 og fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1947. Þjóðverjar (Bismarck) voru fyrstir til að koma á tryggingakerfi í Evrópu seint á 19. öldinni, fyrst atvinnuleysisbótum, en seinna slysabótum, örokubótum og ellilífeyri (sem þá var miðaður við 70 ára aldur).

Starfsgeta er háð miklu fleiri þáttum en eingöngu líkamlegum eða læknisfræðilegum. Menntun er einn af þeim þáttum sem skipta þar miklu máli. Þá hefur aðgengi að vinnu veruleg áhrif og þegar atvinnuleysi ríkir bitnar það ekki síst á þeim sem eru með einhverja skerðingu á færni eða eru lítt menntaðir. Þetta hefur lengi verið þekkt. Í áhugaverðum ritgerðum Henry Mayhew sem gefnar voru út í bók árið 1861 var fjallað um vinnandi fólk í Lundúnum í byrjun 19. aldar. Mayhew skipti fólki í þrjá hópa:

  • Þeir sem geta unnið
  • Þeir sem geta ekki unnið
  • Þeir sem vilja ekki vinna

Og bætti svo einnig við þeim sem þurfa ekki að vinna (svo allir væru taldir með). Ef þeir sem tilheyra fyrsta hópnum fá ekki vinnu eiga þeir rétt á atvinnuleysisbótum eða öðrum bótum frá samfélaginu. Þeir sem tilheyra öðrum hópnum eiga rétt á örorkubótum ef sjúkdómar eða afleiðingar slysa skerða starfsorku þeirra. Þeir sem tilheyra þriðja hópnum eiga ekki rétt á bótum (en þiggja oft bætur).

Nýjar skilgreiningar

Þegar fjallað er um örorku eða skerta færni hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) á síðari árum tekið upp nýjar og breyttar skilgreiningar. Með skerðingu (impairment) er átt við að líkamsstarfsemi hafi truflast vegna afleiðinga sjúkdóms eða slyss. Með fötlun er átt við þá truflun á líkamlegri eða andlegri færni sem hlýst af skerðingunni. Með örorku er síðan átt við þær félagslegu afleiðingar sem fötlunin hefur fyrir viðkomandi einstakling. Hugtökin athafnir og þátttaka (activities and participation) hafa síðan komið í stað hugtaksins örorka og að nokkru leyti hugtaksins fötlunar. Áhersla er nú lögð á getu í stað vangetu.

Örorka sem metin er hjá TR og gefur m.a. rétt til örorkubóta hefur farið vaxandi á Íslandi á síðustu tveim áratugum. Frá árinu 1996 til ársins 2002 jókst algengi örorku úr 4,8% í 6,2%. Í lok árs 2009 var algengi örorku hjá konum 9,1% og hjá körlum 5,9% og hafði þá vaxið óverulega frá árinu 2005. Ekki er líklegt að afleiðingar hrunsins á algengi örorku hafi verið komnar fram á árinu 2009 (og eru líklega ekki að öllu leyti komnar fram enn). Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu TR var algengi örorku hjá konum 9,5% í desember 2013 og 6% hjá körlum. Geðraskanir og stoðkerfisraskanir hafa verið algengustu orsakir örorku. Í desember 2005 voru orsakir örorku hjá konum um 31% vegna geðraskana og 35% vegna stoðkerfisraskana, en sambærilegar tölur hjá körlum voru 40% og 17%.

Félagslegir þættir

Fyrir utan heilsufar hafa félagslegir þættir áhrif á algengi örorku. Má þar einkum nefna hærri aldur, lágt menntunarstig og atvinnuleysi. Það er þekkt að atvinnuleysi hefur neikvæð áhrif á heilsufar. Í nýlegri rannsókn frá Noregi kom fram að líkur á örorku hjá fólki um fertugt með stoðkerfisraskanir voru allt að 42% eftir atvinnuleysistímabil. Um 8000 einstaklingum var fylgt eftir í 18 ár og þegar leiðrétt var fyrir aldri og menntunarstigi minnkuðu líkurnar á örorku en voru þó um 25%. Svipaðar niðurstöður hafa fengist í Finnlandi, en þar hafði atvinnuleysi hjá tvíburum með bakverki marktækt forspárgildi um örorku. Í nýlegri rannsókn Sigurðar Thorlacius og Stefáns Ólafssonar voru áhrif atvinnuleysis á heilsufar og örorku á Íslandi skoðað fyrir tímabilið 1992 til 2007. Á tímabilinu voru tvö skeið með auknu atvinnuleysi, 1993-1995 og 2002-2003. Á báðum tímabilum jókst nýgengi örorku. Þeir ályktuðu að á tímum atvinnuleysis væri fólk með heilsubrest þvingað af vinnumarkaði fremur en að atvinnuleysi hefði neikvæð áhrif á heilsu fólks. Að mínu mati er líklegt að hvorutveggja eigi við. Sigurður og Stefán leggja til að starfsendurhæfing verði aukin á Íslandi.

Endurhæfing á Reykjalundi

Reykjalundur var reistur af SÍBS og fyrsti sjúklingurinn var innskrifaður í febrúar 1945. Margir berklasjúklinganna sem komu fyrst á Reykjalund voru ungir að árum. Stofnunin hét upphaflega Vinnuheimilið að Reykjalundi og þar var strax frá upphafi rekin starfsendurhæfing og voru hér bæði vinnustofur og vísir að iðnskóla. Hugtakið endurhæfing var þá varla til í íslensku en fyrsti íslenski endurhæfingarlæknirinn, Haukur Þórðarson, kom til starfa á Reykjalundi eftir sérnám í Bandaríkjunum upp úr 1960. Endurhæfingarlækningar eru meðal yngstu sérgreina í læknisfræði. Endurhæfing nær til hvers konar aðgerða sem miða að því að öðlast, auka eða viðhalda færni til að lifa og starfa. Endurhæfing miðar að bættum lífsgæðum með aukinni sjálfsbjargargetu og sjálfstæði. Þegar sjúklingur sem kemur til endurhæfingar og telst vera óvinnufær en vill komast aftur til starfa má segja að öll endurhæfing sé í eðli sínu starfsendurhæfing. Á Reykjalundi hefur þó verið starfrækt sérstakt teymi í starfsendurhæfingu frá árinu 1999. Upphaflega starfaði það á sérstökum þjónustusamningi við TR. Frá sama tíma var starfrækt endurhæfingaramatsteymi hjá TR sem m.a. sendi sjúklinga á Reykjalund og í Hringsjá. Í grein í Læknablaðinu frá 2002 kemur fram að árangur starfsendurhæfingar fyrstu starfsárin væri góður og segir m.a. í ályktun höfunda: „Árangur af starfsendurhæfingu á vegum TR er svipaður og af starfsendurhæfingu á vegum Tryggingastofnana í Svíþjóð. Árangurinn sýnir að væntingar um að starfsendurhæfing geti komið í veg fyrir örorku hafa staðist.“

Eins og áður er fram komið eru algengustu orsakir örorku á Íslandi geðraskanir og stoð- kerfisraskanir. Á árunum 2004 til 2011 fór fram rannsókn á verkjasviði Reykjalundar þar sem sérstaklega voru skoðuð áhrif hugrænnar atferlismeðferðar hjá fólki sem kom í endurhæfingu vegna þrálátra verkja. Alls tóku 115 sjúklingar þátt í rannsókninni og var þeim fylgt eftir í 3 ár. Áður hafði verið gerð rannsókn á árangri meðferðar á verkjasviði á árunum 1997-1999. Alls tóku 158 sjúklingar þátt í þeirri rannsókn. Í fyrri rannsókninni var árangur meðferðar mjög góður, en um 18% sjúklinganna voru vinnufærir fyrir meðferð en um 50% eftir meðferðina og um 60% voru vinnufærir einu ári eftir meðferð.

Í síðari rannsókninni var einnig um góðan árangur að ræða, en þá var ríflega þriðjungur sjúklinga vinnufær fyrir meðferð, en tæp 60% þremur árum eftir meðferð (sjá mynd). Gerð var heilsuhagfræðileg úttekt á niðurstöðum rannsóknarinnar sem kom mjög vel út.

vinnufaerni.jpg

Þverfagleg úrræði skortir

Til að sporna gegn vaxandi algengi örorku á Íslandi þarf annars vegar að bæta aðgengi að endurhæfingu svo og að efla menntunarkerfið og auka aðgengi að fullorðinsfræðslu. Þá skortir verulega möguleika á vinnumarkaði fyrir fólk með skerta starfsorku, bæði verndaða vinnu og atvinnu með stuðningi. Undirritaður tekur því undir með þeim Sigurði Thorlacius og Stefáni Ólafssyni að auka þurfi starfsendurhæfingu á Íslandi. Með tilkomu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs ættu möguleikar á aukinni starfsendurhæfingu að hafa batnað. Það verður hins vegar að segjast eins og er að raunveruleg þverfagleg starfsendurhæfingarúrræði fyrir utan Reykjalund eru allt of fá hér á landi enn sem komið er og eins og málum er háttað er afkastageta starfsendurhæfingarteymis Reykjalundar fremur takmörkuð.

Ekki skortir á rannsóknir sem styðja þjóðhagslega hagkvæmni endurhæfingar bæði nýlegar og eldri. Rannsókn sem framkvæmd var fyrir heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð frá árinu 2000 sýndi að hver króna sem eytt var í endurhæfingu gaf níu krónur til baka til samfélagsins. Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við niðurstöður heilsuhagfræðilegrar úttektar á árangri með- ferðar á verkjasviði Reykjalundar. Kostnaður meðferðarinnar var um 1200 þúsund fyrir hvern sjúkling og sjúklingur sem var útskrifaður vinnufær var áætlaður skila um 10 milljónum til baka til samfélagsins.

Heimildir
  • Skýrsla Félags íslenskra endurhæfingarlækna, 2012.
  • Henry Mayhew; London labour and the London poor, 1861 Magnús Ólason. Um mat á miska og örorku. Lögmannablaðið, 1996.
  • Sigurður Thorlacius, Sigurjón B. Stefánsson og Stefán Ólafsson; Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2005, Læknablaðið, 2007.
  • Sigurður Thorlacius og Sigurjón B. Stefánsson; Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2009 og samanburður við árin 2002 og 2005; TR, http://www.tr.is/media/skjol-a-pdf/ Algengi-ororku-2009-Skyrsla.pdf.
  • Heimasíða TR, http://www.tr.is/tryggingastofnun/ tryggingastofnun_i_tolum/stadtolur/toflur-fyrir-arid-2013/.
  • Lydia Abasolo og fleiri. Prognostic factors for long-term work disability due to musculoskeletal disorders. Rheumatology International. 32(12):3831-9, 2012.
  • Morten Stover og fleiri. Unemployment and disability pension--an 18-year follow-up study of a 40-year-old population in a Norwegian county. BMC Public Health. 12:148, 2012.
  • Annina Ropponen og fleiri. Effects of work and lifestyle on risk for future disability pension due to low back diagnoses: a 30-year prospective study of Finnish twins. Journal of Occupational & Environmental Medicine. 54(11):1330-6, 2012.
  • Sigurður Thorlacius og Stefán Ólafsson. From unemployment to disability? Relationship between unemployment rate and new disability pensions in Iceland 1992-2007. European Journal of Public Health. 22(1):96-101, 2012.
  • Sigurður Thorlacius, Gunnar K. Guðmundsson og Friðrik H Jónsson. Starfshæfni eftir starfsendurhæfingu á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Læknablaðið, 2002.
  • Magnús Ólason. Outcome of an interdisciplinary pain management program in a rehabilitation clinic. WORK 22(1):9-15, 2004.
  • Héðinn Jónsson. Kostnaðarnytjagreining á verkjasviði Reykjalundar. Meistaraprófsritgerð, HÍ, 2011.
  • Statens offentliga utredningar (SOU). Rehabilitering till arbete en reform med individen i centrum, SOU 2000:78, 2000. http://www.regeringen.se/sb/d/108/a/2831.

Magnús Ólason

Framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi

Nýtt á vefnum