Greinar / 5. apríl 2016

Fyrir hverja?

Alveg örugglega ekki fyrir börn og unglinga og þar með ekki heldur fyrir foreldra. Alls ekki fyrir þolendur heimilisofbeldis eða annarra ofbeldisglæpa. Ekki fyrir fórnarlömb umferðarslysa.

Heldur ekki fyrir heilbrigðis- og tryggingakerfið eða löggæsluna. Þaðan af síður fyrir geðsjúka eða fyrir þá sem eiga á hættu að fá slíkan sjúkdóm, þar sem áfengisneyslan er stærsti einstaki áhættuþátturinn.

Ef marka má niðurstöður skoðanakannana virðist það að setja áfengi í matvöruverslanir helst vera gert fyrir miðaldra karla sem þá væntanlega hugsa lítið um aðra en sjálfa sig.

Áfengisneysla er þriðji stærsti greinanlegi áhættuþáttur fyrir heilsubresti Íslendinga samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), annar stærsti áhættuþáttur geðraskana, fjórði stærsti áhættuþáttur krabbameina, stærsti áhættuþáttur skorpulifrar og langstærsti áhættuþáttur slysa og áverka sem greina má sem atferlistengdan.

Fyrir utan það sem hægt er að mæla líkt og ofangreint, hefur áfengisneysla einnig áhrif á félagslega og þjóðhagslega þætti gegnum fjölskyldur, umhverfi og vinnustaði. Aukið aðgengi veldur auknu framboði, og aukið framboð eykur neyslu. Þetta eru hagfræðilegar staðreyndir.

Öllu því sem við gerum í lífinu er stýrt af atferli. Jafnvel það að borða snýst ekki aðeins um hitaeiningarnar og næringarefnin, heldur líka það hvernig við borðum. Þetta gildir auðvitað í enn meira mæli um hreyfingu, þar sem atferlið ræður mestu. Við getum einnig hlutast til um streituálag og svefn með bættu atferli og samanlagt þannig haft áhrif á flesta lífsstílstengda áhættuþætti með bætt atferli að vopni. Áfengisneysla vinnur gegn þessu öllu saman.

Takist Íslendingum að draga úr heilsufarsskaða um 1% næmi sá ávinningur sem samsvarar 700 mannárum lifað við bætta heilsu og um 4 milljörðum króna á ári, mælt í landsframleiðslu á mann.

Við verðum að horfa á stóru myndina þegar ákvarðanir sem varða hag og heilsu heillar þjóðar eru teknar.

Guðmundur Löve

Framkvæmdastjóri SÍBS

Nýtt á vefnum