Greinar / 7. október 2015

Breyttar áherslur í mataræði

Á síðustu áratugum hefur dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms lækkað verulega hér á landi eins og annars staðar á Vesturlöndum. Þetta má fyrst og fremst þakka góðum árangri í forvarnarstarfi og framförum í meðferð sjúkdómsins. Minni reykingar, lægra kólesterólmagn í blóði og betri blóðþrýstingsstjórnun eru þeir þættir forvarna sem virðast hafa skipt mestu máli hér á landi.

Lengi hefur verið ljóst að fylgni er á milli kólesteróls í blóði og hættunnar á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta samband er þó flókið, margir sem hafa hátt kólesteról fá aldrei kransæðasjúkdóm og margir sem fá hjarta- og æðasjúkdóma hafa litla hækkun á kólesteróli í blóði.

Um árabil hafa lýðheilsuyfirvöld víða um heim birt ráðleggingar um heilsusamlegt mataræði. Þegar kemur að forvörnum gegn hjarta- og æðsjúkdómum hafa þessar ráðleggingar lagt megináherslu á fæðu sem líkleg er til að lækka kólesterólmagn í blóði.

Fita1.JPG

Fyrir rúmum 30 árum síðan taldi Manneldisráðs hér á landi að mataræði Íslendinga einkenndist af óvenju mikilli neyslu á mettaðri fitu. Mjólkurneysla hér á landi var ein sú mesta í Evrópu og fituskert mjólk eins og léttmjólk eða fjörmjólk stóð Íslendingum ekki til boða.

Til að stemma stigu við vaxandi tíðni krans- æðassjúkdóms lagði ráðið áherslu á að minnka mettaða fitu í fæðunni og auka hlut grænmetis og ávaxta. Hvatt var til þess að velja fituminni mjólkurvörur í stað þeirrar feitu og nota olíu í matargerð í staðinn fyrir hart smjörlíki eða smjör.

Matvælaframleiðendur brugðust fljótt við þessu, léttmjólk kom á markað hér á landi og úrval fituminni mjólkurvöru af ýmsu tagi jókst verulega.

Árið 2003 tilkynnti Manneldisráð að mikill árangur hefði náðst við að draga úr fituneyslu Íslendinga miðað við könnun sem gerð var 1990. Hafði heildarneysla fitu sem hlutfall orkuneyslu minnkað úr 41% í 35% og var talið nálgast æskileg mörk sem þá hljóðuðu upp á 25-30%

Hins vegar höfðu á þessum tíma orðið ýmsar aðrar breytingar sem ekki gátu allar talist jákvæðar. Mest áberandi var minni neysla á fiski og kartöflum en meiri neysla gosdrykkja, vatns, grænmetis, ávaxta, brauðs og pasta.

Heildarneysla kjöts breyttist lítið en þó minnkaði neysla á lambakjöti en neysla á kjúklingakjöti og svínakjöti jókst. Athygli vekur að fiskneysla minnaði um 45 prósent. Þá jókst sykurneysla mikið á tímabilinu og neysla gosdrykkja jókst um 37 prósent.

Á sama árabili jókst tíðni offitu hér á landi umtalsvert og hefur sú aukning haldið áfram allar götur síðan. Jafnframt hefur nýgengi sykursýki af tegund 2 farið hratt vaxandi. Þetta er sama þróun og átt hefur sér stað annars staðar á vesturlöndum.

Þrátt fyrir að árangur hafi náðst við að draga úr dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms er ljóst að vaxandi tíðni offitu og sykursýki er mikið áhyggjuefni. Niðurstöður rannsókna sem birtar hafa verið á síðustu árum benda til að breyttar áherslur þurfi í ráðleggingum um mataræði til að stemma stigum við þessarri þróun.

Fita hefur löngum gegnt lykilhlutverki þegar kemur að ráðleggingum um mataræði. Því er rétt, áður en lengra er haldið að fjalla nánar um mismunandi gerðir fitu og hlut þeirra í mataræði okkar.

Fita og fituneysla

Fita er einn af þremur af meginorkugjöfum okkar, hinir eru kolvetni og prótein (eggjahvíta). Fitur eru gríðarlega miklvæg næring og ýmsar fitur gegna lykilhlutverki í starfsemi líkamans. Til eru margar gerðir fitu og þær má finna bæði í dýra- og jurtaríkinu. Dæmi um fitur sem oft er fjallað um eru kólesteról, mettuð fita, transfita, fjölómettaðar fitusýrur (þar á meðal eru omega-3 og omega-6), og einómettaðar fitusýrur.

Hvað er fita?

Fita2.JPG

Fita er orð sem nær yfir lífræn efnasambönd sem eiga það sameiginlegt að leysast illa upp í vatni. Þrjár helstu gerðir fitu í matvælum eru þríglýseríð, fosfólípíð og steról.

Þrígýseríð er langalgengasta fitan í matvælum og líkaminn geymir mest af fitu sinni í formi þríglýseríða. Þegar talað er um fitu eða olíur er yfirleitt átt við þríglyseríð. Aðeins lítill hluti fitu í matvælum eru fosfólípíð og steról. Kólesteról er þekktasta sterólið.

Fitusýrur

Fitusýrur eru meginundireining fitu. Þær eru í raun keðjur af kolefnisatómum með carboxýl hóp á öðrum endanum og metýl hóp á hinum endanum. Í þríglýseríði eru þrjár fitusýrur bundnar glýseróli. Fitusýrur sem ekki eru bundnar öðrum efnum eru kallaðar fríar fitusýrur.

Hvert kolefnisatóm í fitusýru hefur fjórar tengingar. Í mettuðu fitusýrunni hér að neðan eru öll fjögur tengi kolefnisatómanna (dökku atómin) fullnýtt. Þau tengjast annað hvort öðru kolefnisatómi eða vetnisatómum (ljósu atómin). Þegar öll tengin eru notuð á þennan hátt er talað um að fitusýran sé mettuð.

Í ómettaðri fitusýru eru tengi kolefnisatómanna ekki fullnýtt og því er í raun pláss fyrir fleiri vetnisatóm. Í þessum tilvikum er tvítengi á milli kolefnisatómanna. Ef fitusýran inniheldur aðeins eitt slíkt tvítengi telst hún einómettuð en ef tvítengin eru mörg telst hún fjölómettuð. Þannig eru til þrjár gerðir af fitusýrum: mettaðar, ein- ómettaðar og fjölómettaðar.

Engin matvæli innihalda eingöngu mettaðar fitusýrur eða eingöngu ómettaðar fitusýrur. Matvæli innihalda alltaf blöndu af fitusýrum. Hins vegar eru matvæli sem innihalda mikið af ómettuðum fitusýrum líklegri til að vera fljótandi við stofuhita (t.d. ólífuolía) á meðan matvæli sem innihalda mikið af mettuðum fitusýrum (t.d. smjör) eru líklegri til að vera hörð við stofuhita.

Transfita

Transfita verður til við herðingu á ómettuðum fitusýrum, oftast jurtaolíum. Með því að hita olíuna við mög háan hita og dæla gegnum hana vetnisatómum er unnt að breyta fitunni í fast form. Mettunarferlið er hins vegar stöðvað áður en fitan verður fullhert eða mettuð. Þessi efnafræðilega breyting eykur geymsluþol matvörunnar.

Rannsóknir benda til að transfitur séu óhollar til neyslu og auki hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

Transfitu er helst að finna í unnum matvörum eins og djúpsteiktum mat, sumu smjörlíki, kökum, snakki, sælgæti af ýmsu tagi, sumu poppkorni og kartöfluflögum. Í desember 2012 voru settar hér á landi reglur um hámarksmagn transfitusýra sem leyfilegt er að hafa í matvælum sem seld eru hér á landi.

Kólesteról

Steról hafa allt aðra efnafræðilega uppbyggingu en þríglýseríð. Flest steról innihalda engar fitusýrur. Kólesteról er langþekktasta sterólið.

Kólesteról er lífsnauðsynlegt efni. Það gegnir lykilhlutverki í frumuhimnum og við framleiðslu ýmissa hormóna. Mikið er af kólester- óli í frumum taugakerfisins, heila, mænu og taugum. Lifrin notar kólesteról við framleiðsu á gallsöltum.

Líkaminn getur framleitt kólesteról og því þurfum við ekki að fá það með fæðunni. Talið er að líkaminn framleiði um 1000 milligrömm af kólesteróli á hverjum degi. Þessi framleiðsla minnkar ef við fáum kólesteról með fæðunni.

Kólesteról er aðallega að finna í fæðu úr dýraríkinu. Eggjarauða inniheldur mikið af kólesteróli. Einnig er mikið af kólesteróli í brjóstamjólk sem bendir til að efnið sé mikilvægt í upphafi þroskaferils líkamans.

Hátt kólesterólmagn í blóði er talinn einn af megináhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Lágt kólesterólmagn í blóði hefur einnig verið tengt við ýmsa sjúkdóma.

Breyttar áherslur

Fita3.JPG

Fjöldi rannsókna sem birtar hafa verið á síðustu árum benda til að breyta þurfi áherslum varð- andi ráðleggingar um mataræði til að draga úr tíðni langvinnra lífstílssjúkdóma.

Þessar áherslur snerta meðal annars ráðleggingar um saltnotknun, mismunandi tegundir fitu svo og hlutverk kolvetna og viðbætts sykurs.

Almennt er markmið ráðlegginga um mataræði að tryggja að almenningur fái öll nauðsynleg næringarefni sem líkaminn þarf til að viðhalda heilsu auk þess sem áhersla er lögð á fæðuval sem líklegt er til að hjálpa fólki að viðhalda eðlilegri líkamsþyngd og draga úr líkum á sjúkdómum.

Síðustu fimmtíu ár hefur ríkuleg áhersla verið lögð á mikilvægi þess að draga úr fituneyslu, sérstaklega neyslu mettaðrar fitu og kólesteróls.

Nýlegar rannsóknir benda hins vegar til að þess að þessar ráðleggingar hafi ekki verið á rökum reistar og þurfi því að endurskoða.

Kólesteról í fæðu

Um árabil hafa læknar ráðlagt sjúklingum með hjarta- og æaðsjúkdóma að forðast egg vegna þess að þau innihalda tiltölulega mikið magn kólesteróls og ættu samkvæmt því að geta valdið hækkun kólesteróls í blóði sem álitið er slæmt.

Nú hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að neysla kólesteróls veldur sjaldan mikilli hækkun á kólesteróli í blóði auk þess sem faraldsfræðilegar rannsóknir hafa ekki sýnt fylgni á milli neyslu á kólesteróli og hættunnar á hjarta- og æðasjúkdómum.

Flestum er ljóst að egg eru holl og næringarrík fæða og því dapurlegt til þess að hugsa að þau skuli hafa verið á eins konar bannlista um áratuga skeið.

Flestir sérfæðingar telja nú að ekki sé ástæða til að vara fólk við að neyta eggja eða annarrar fæðu sem er rík af kólesteróli.

Mettuð fita

Um áratuga skeið hafa lýðheilsuyfirvöld mælt með því að neyslu á mettaðri fitu sé haldið í lágmarki. Meginrökin á bak við þessa ráðleggingu er sú að sýnt hefur verið fram á að mikil neysla mettaðrar fitu hækkar oft kóleserólmagn í blóði.

Margir sérfræðingar telja að minnkuð neysla á mettaðri fitu síðustu árin skýri lækkun sem orðið hefur á kólesteróli í blóði víða á vesturlöndum, m.a. hér á landi.

Hins vegar kunna margir aðrir þættir að skýra lækkun kólesteróls í blóði og er ekki hægt að ganga út frá því að þessi lækkun sé eingöngu vegna minni neyslu á mettaðri fitu. Sem dæmi má nefna að talið er að einungis 20% af lækkun þeirri sem varð á kólesteróli meðal Bandarikjamanna á árabilinu 1980-2000 megi rekja til breytinga á fituneyslu. Þá er talið að ekkert af lækkun kólesteróls í blóði meðal Frakka á sama tímabili skýrist af breyttri fituneyslu.

Á síðustu árum hafa fjölmargar faraldsfræðilegar rannsóknir sýnt að ekki er fylgni á milli neyslu á mettaðri fitu og hættunnar á hjarta- og æðasjúkdómum.

Sambærilegar rannsóknir benda til að óæskilegt sé að skipta út mettaðri fitu fyrir kolvetni.

Þótt margir sérfæðingar telji nú að ekki sé þörf á að vara við neyslu mettaðrar fitu er líklegt að ein- og fjölómettaðar fitusýrur séu almennt betri kostur þegar markmiðið er að draga úr hættunni á hjarta- og æðasjúkdómum.

Viðbættur sykur

Margt bendir til að vð höfum vanmetið hlut sykurneyslu í tilurð hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsóknir sýna að neysla viðbætts sykurs eykur hættuna á sykursýki af tegund 2 sem er sterkur áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdómum.

Fita4.JPG

Líklegt er að minnkuð sykurneysla hér á landi geti bætt lýðheilsu verulega, dregið úr hættu á offitu og sykursýki af tegund 2, og haft jákvæð áhrif á tilurð hjarta- og æðasjúkdóma.

Nokkuð ljóst er að ráðleggingar lýðheilsuyfirvalda um að draga úr fituneyslu voru matvælaframleiðendum hvatning til að framleiða fituskertar vörur, t.d. mjólkurvörur sem oft innihalda mikið af viðbættum sykri. Fáir efast í dag um að mikil neysla á unnum kolvetnum og viðbættum sykri sé ein af ástæðum offitufaraldursins sem nú herjar á Vesturlandabúa.

Saltneysla

Lýðheilsuyfirvöld hafa lengi bent á að saltneysla vesturlandabúa sé allt of há. Því hefur verið lögð áhersla á að draga úr saltneyslu almennings og enda talið að það muni hafa jákvæð áhrif á lýðheilsu. Mælt hefur verið með að ekki sé neytt meira en 2.300 milligramma af salti (natríumklóríð) á dag.

Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að mataræði með lágu saltinnihaldi hefur jákvæð áhrif á sjúklinga sem glíma við háþrýsting. Hins vegar hafa sérfræðingar nýverið varað við því að slíkar rannsóknarniðurstöður séu heimfærðar á almenning, ekki síst í ljósi þess að nýlegar rannsóknir hafa sýnt að of lítil saltneysla getur verið skaðleg fyrir heilbrigða einstaklinga.

Líklegt er að mest af því salti sem við neytum komi úr unnum matvælum og er ólíklegt að hófleg saltnotkun við neyslu ferskra óunnina matvæla sé skaðleg.

Miðjarðarhafsmataræðið

Á síðustu árum hafa fjölmargar rannsóknir sýnt jákvæð áhrif Miðjarðarhafsmataræðisins, ekki síst þegar kemur að hjarta- og æðsjúkdómum. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta mataræði upprunnið frá löndum við Miðjarðarhafið og er aðallega kennt við Suður-Ítalíu og Grikkland.

Meginuppistaða Miðjarðarhafsmataræðisins eru ávextir, grænmeti, heilkorn, pasta, baunir, fræ, ólífur og ólífuolía. Einnig er lögð áhersla á neyslu sjávarfangs af ýmsu tagi, jógúrts, osta og eggja í hófi. Hvað kjöt varðar er aðallega mælt með alífuglakjöti, neysla á rauðu kjöti er lítil. Sætinda er neytt í hófi.

Miðjarðarhafsmataræðið er tiltölulega fituríkt. Stærsti huti fitunnar kemur úr sjávarafurðum, ólífuolíu, hnetum og fræjum. Ólífuolía er notuð alfarið í stað smjörs og smjörlíkis.

Víndrykkja tilheyrir Miðjarðarhafsmataræðinu. Þó er um að ræða mjög hóflega drykkju, ekki meira en eitt vínglas á dag fyrir konur og tvö fyrir karla.

Lokaorð

Mikill árangur hefur náðst í baráttunni við hjartaog æðasjúkdóma og er það ekki síst að þakka minni reykingum og almennt heilbrigðara líferni. Þrátt fyrir þetta hefur tíðni offitu og sykursýki aukist hratt og er líklegt að þetta muni valda versnandi lýðheilsu hér á landi á næstu árum með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Nýlegar rannsóknarniðurstöður benda til að fituneysla sé almennt ekki eins skaðleg og álitið var. Líklegt er að skilaboð lýðheilsuyfirvalda til matvælaframleiðanda um að draga úr fituneyslu hafi leitt til aukinnar neyslu óhollra kolvetna og viðbætts sykurs.

Í nýlegum norrænum leiðbeiningum um matar- æði er lögð meiri áhersla á gæði fitu en magn hennar. Þá er mælt með heldur minni kolvetnaneyslu en áður þótt hlutur kolvetna sé enn hár. Líklegt er að ráðleggingar sérfræðinga eigi eftir að breytast enn frekar í þessa átt á næstu árum. Norrænu leiðbeiningarnar mæla með að kolvetni komi sem mest úr trefjaríkri fæðu frá nátturunnar hendi eins og t.d. heilkornavörum, grænmeti og ávöxtum.

Að lokum er rétt að hvetja alla sem vilja forðast offitu og hjarta- og æðasjúkdóma til að neyta grænmetis og ávaxta í ríkum mæli. Það er á ábyrgð stjórnvalda að sjá til að slíkar hollustuvörur séu aðgengilegar almenningi á viðráðanlegu verði.

Axel F. Sigurðsson

Hjartalæknir

Nýtt á vefnum