Greinar / 7. október 2015

Þarf ég bætiefni?

Kannanir á mataræði þjóðarinnar hafa verið gerðar reglulega undanfarna áratugi, en niðurstöðurnar gefa okkur meðal annars upplýsingar um hvort almenn hætta sé á skorti á völdum vítamínum eða steinefnum. Þessar kannanir gefa einnig vísbendingar um hvaða fæðutegundir eru lykiluppsprettur hvers næringarefnis fyrir sig í íslensku mataræði. Kannanir á mataræði eru grundvöllur þess að hægt sé að yfirfæra vísindalega þekkingu um þörf líkamans fyrir hin ýmsu næringarefni yfir í einfaldar ráð- leggingar um mataræði, það er hvaða mat við ættum að borða til að líkaminn fái öll þau efni sem hann þarfnast. Í slíkum ráðleggingum er mikið lagt upp úr fjölbreytni, enda er fjölbreytni lykillinn að hollu mataræði þar sem engin ein fæðutegund inniheldur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Hver fæðuflokkur hefur sína sérstöðu.

radleggingarummataraedi.jpg

Sumir þurfa sérfæði aðrir velja sérfræði

Ráðleggingar um mataræði henta þó ekki öllum. Hluti fólks þarf að fylgja sérfæði til dæmis vegna fæðuofnæmis, fæðuóþols eða annarra kvilla. Nýlegar rannsóknir benda einnig til að næringarmeðferð sem felur í sér útilokun einstakra fæðutegunda eða heilu fæðuflokkanna getur bætt lífsgæði ýmissa hópa. Má þar til dæmis nefna einstaklinga með iðraólgu (irritable bowel syndrome) og börn með ADHD (Attention Deficit Hyperactivity Disorder). Eins og áður sagði þá hefur hver fæðuflokkur sína sérstöðu. Mikilvægt er að allir þeir sem af heilsufarsástæðum geta ekki fylgt almennum ráðleggingum um mataræði fái viðeigandi aðstoð til að tryggja gott næringarástand. Næringarfræðingar hafa ítrekað bent á að það þurfi að bæta aðgengi almennings að næringarfræðingum. Þess má geta að enginn næringarfræðingur er starfandi í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sérfræðiþekking í næringarmeðferð er að finna innan veggja Landspítala, en þangað er einungis erfiðustu tilfellunum vísað og litlir möguleikar á að veita langtíma næringarmeðferð sem um leið hefði forvarnargildi.

En það eru ekki bara þeir sem af heilsufars- ástæðum þurfa að vera á sérfæði sem sleppa því að neyta ákveðinna fæðutegunda í okkar samfélagi. Sumir hreinlega velja að neyta ekki fæðu úr ákveðnum fæðuflokkum og notkun á sérfæði virðist hafa aukist meðal almennings á Íslandi á síðastliðnum árum. Má þar nefna lág-kolvetnamataræði, steinaldarmataræði, grænmetisfæði og fleira. Það er ekki mitt að dæma hvað fólk velur að leggja sér til munns, né að dæma þann lífsstíl sem fólk velur sér. Sem næringarfræðingur verð ég hins vegar oft áhyggjufull fyrir hönd þeirra sem eru á sérfæði, hvort þeir geri sér grein fyrir því hvaða sérstöðu sá fæðuflokkur hefur sem tekinn er út. Ef til vill eru þetta óþarfa áhyggjur og hver einstaklingur ber jú ábyrgð á eigin heilsu – eða hvað?

Mataræði Íslendinga

Rad1.JPG

Rad2.JPG

Töflur 1 og 2 byggja á niðurstöðum Landskönnunar á mataræði Íslendinga árin 2010-2011 um framlag mismunandi fæðuflokka til heildarneyslu vítamína og steinefna (Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011. Helstu niðurstöður. tafla 4.1. Embætti landlæknis, Matvælastofnun og Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahús). Í töflu 1 er tekið dæmi um meðal Íslendinginn sem ákveður að fara í megrun með því að sleppa öllum kornvörum úr fæði sínu. Kornvörur gefa að meðaltali tæplega 30% af heildarorku fæðunnar, þannig að líklegt verður að teljast að sá hinn sami muni ná árangri við þyngdartapið, að því gefnu að við- komandi geri engar aðrar breytingar á fæði sínu. Spurningin er sú hvort þessi einstaklingur geri sér grein fyrir því að kornvörur eru gríðarlega mikilvægar uppsprettur trefjaefna, járns, fólats, þíamíns og magnesíum í íslensku mataræði. Til langs tíma gæti jafnvel verið hætta á skorti sé ekkert að gert.

Mjólkurvörur er annar fæðuflokkur sem sumir þurfa að forðast af heilsufarsástæðum, en aðrir ákveða að sneiða framhjá af öðrum ástæðum. Tafla 2 sýnir framlag þessa fæðuflokks til heildarneyslu valinna næringarefna í íslensku mataræði. Flestir vita að mjólkurvörur eru mikilvæg uppspretta kalks í fæðu og reyna þar af leiðandi að bæta sér það upp á annan hátt. Hins vegar vita færri að þriðjungur joðs í fæði Íslendinga kemur úr mjólkurvörum. Þó að joð sé lífsnauðsynlegt næringarefni fyrir okkur öll þá er það talið sérstaklega mikilvægt fyrir barnshafandi konur (og þar með konur á barneignaaldri) og ung börn, enda er joð mikilvægt næringarefni fyrir þroska miðtaugakerfisins. Ísland hefur í gegnum tíðina verið kennslubókardæmi um land sem ekki glímir við joðskort og er í raun eina landið í Evrópu þar sem joðskorti hefur ekki verið lýst. Ástæðan er almenn og rífleg neysla á mögrum fiski (sem er mun joð- ríkari en feitur fiskur) og rífleg mjólkurneysla, en þessir tveir flokkar gefa samtals 76% af joði í Íslensku fæði.

Umræða um afleiðingar joðskorts hefur aldrei farið hátt, enda engin almenn ástæða til að hafa áhyggjur, nema ef fólk er á sérfæði sem felur í sér skerðingu á mjólkur og/eða fiskneyslu. Víða erlendis þar sem mjólkur- og fiskneysla hefur verið minni en á Íslandi, og joðskortur almennur, hefur verið gripið til þess ráðs að joðbæta salt, ýmist eingöngu borðsalt eða allt salt sem notað er í matvælaiðnaði. Í Danmörku er til að mynda skylt að nota joðbætt salt í brauðgerð og borðsalt skal einnig vera joðbætt. Ekki er talið fýsilegt að hvetja til notkunar á joðbættu salti á Íslandi, enda myndi almenn notkun þess auka líkur á ofskömmtum hjá þeim hluta þjóðarinnar sem borðar fisk og notar mjólkurvörur í samræmi við ráðleggingar. Varað er við óhóflegri notkun á bætiefnum sem innihalda joð og matvælum sem geta innihaldið mjög mikið magn af joði (á borð við þara), vegna hugsanlegra skaðlegra áhrifa.

Fjölbreytt fæði

Þetta eru bara tvö lítil dæmi um flækjustigið sem getur myndast þegar ákveðnum fæðutegundum eða fæðu úr heilum fæðuflokkum er sleppt. Þetta er ástæðan fyrir því að næringarfræðingar hvetja fólk, sem þarf ekki af heilsufarsástæðum að sneiða framhjá ákveðnum fæðutegundum, til að borða fjölbreytt fæði úr öllum fæðuflokkum. Ef næringarfræðingar fá tækifæri til að veita þjónustu í heilsugæslunni á komandi misserum þá yrði kröftum þeirra best varið við að aðstoða einstaklinga sem þurfa að vera á sérfæði heilsu sinnar vegna. Ekki væri hægt að réttlæta niðurgreiðslu næringarráðgjafar til hópa sem velja sérfæði án heilsufarsástæðu. Við berum jú ábyrgð á eigin heilsu. Sérfæði krefst þekkingar, en það á ekki að vera flókið að fá öll þau næringarefni sem líkaminn þarf á að halda með því að fylgja ráðleggingum um mataræði, fyrir þá sem geta.

Ingibjörg Gunnarsdóttir

Prófessor í næringarfræði

Nýtt á vefnum