Greinar / 7. október 2015

Eru fæðubótarefni nauðsynleg?

Fæðubótarefni eru í tísku, þau eru fjölmörg og mikið auglýst, mörg hver með loforðum um bætta heilsu og árangur. Auk þess er fólkið sem auglýsir þau oftast í mjög flottu formi samkvæmt stöðlum nútíma samfélags. Því má telja nokkuð eðlilegt að fæðubótarefni þyki spennandi og að fólk, sér í lagi yngri kynslóðin, prófi þau, bara til að reyna hvort þau virki og henti. Það getur verið allt í lagi ef um örugg fæðubótarefni er að ræða en ef það endar með því að einstaklingurinn nærist að miklu leyti á dufti, drykkjum og pillum þá hefur skapast tiltekið ójafnvægi sem er ekki gott fyrir heilsuna þegar til lengri tíma er litið.

Vítamín2.jpg

Það að setjast niður og borða máltíð með öðru fólki er líka hluti af menningu okkar, samveru við aðra og andlegri vellíðan.

Skiptar skoðanir eru um nauðsyn og gildi fæðubótarefna en fagfólk er almennt sammála um að fjölbreytt og hollt mataræði sé besti og öruggasti kosturinn auk þess sem það að borða fæðuna í stað þess að drekka hana sé sú leið sem gefur hvað besta mettunartilfinningu sem hjálpar til við að stýra fæðuneyslu.

Notkun fæðubótarefna

Þau fæðubótarefni sem koma upp í huga okkar þegar við heyrum orðið eiga sér ekki svo ýkja langa sögu þó svo að hún sé orðin nokkur. Hins vegar hefur lýsi verið notað í margar aldir og má segja að það sé ennþá eina fæðubótarefnið sem maðurinn virkilega þarfnast, sér í lagi þeir sem búa á norðurhveli jarðar.

Sértækar ráðleggingar um fæðubótarefni ná til ófrískra kvenna og snúa að fólasíni. Konur þurfa almennt að gæta þess að fá nægjanlegt járn úr fæðunni en stundum þarf að grípa til járnviðbótar ef illa gengur að ná upp járni í blóði, til dæmis eftir barnsburð.

Fæðubótarefni voru sannarlega ekki á allra vörum þegar margar af okkar skærustu íþróttastjörnum uxu úr grasi og stigu sín fyrstu og mikilvægustu skref á leið sinni til afreksmennsku. Samt urðu draumar þeirra að veruleika og þeir urðu það sem þeir urðu vegna hæfileika og getu, vinnusemi, næringar og andlegra þátta, með góðum stuðningi og að lokum með smávegis af heppni í farteskinu. Þessir þættir eru þeir sem mestu máli skipta fyrir hvern íþróttamann. Eflaust myndu einhverjir segja að þessi og hinn hefði getað orðið mun betri með aukinni vitneskju og fræðslu um næringu, sem er rétt, og sjálfsagt hefðu sumir nært sig betur hefðu þeir haft aðgang að góðum upplýsingum.

Það er sjaldan hægt að alhæfa um nokkurn hlut og slíkt getur gilt um það að segja að enginn þurfi fæðubótarefni. Hins vegar eru stundum einhverjar forsendur sem gefa hið gagnstæða til kynna og sér í lagi þegar mannskepnan á í hlut þar sem við erum öll einstök með mismunandi þarfir á líkamlegum og andlegum sviðum. Í tengslum við fæðubótarefni þá eru ávallt einhverjir sem ekki ná að uppfylla næringarog orkuþörf sína með mat og drykk vegna lystarleysis vegna sjúkdóma, lyfja, vonleysis og depurðar. Einnig þekkist að einstaklingar, jafnt í íþróttum sem ekki, borði vísvitandi ekki nóg og í samræmi við orku- og næringarþörf, sá hópur hefur oft gagn af bætiefnum. Það er þó oft sagt að þeir sem taka fæðubótarefni ættu að þurfa minnst á þeim að halda þar sem þeir borða yfirleitt næringarríkan og hollan mat.

Með aukinni vitneskju og fræðslu um þá þætti sem skipta mestu máli fyrir íþróttir og afrek, til að mynda næringu, er hægt að koma mörgu til leiðar er snýr að réttri orku sem endist íþróttamanninum en jafnframt styður við vöxt og þroska þeirra yngri. Rétt fæða gerir svo margt fleira, færir til að mynda líkamanum næringarefni sem stuðla að orkuframleiðslu úr fæðunni, sem og að verja líkamann gegn álagi frá umhverfinu og æfingum.

Fæðubótarefni flokkast sem matvæli

Fæðubótarefni flokkast sem matvæli (sjá skilgreiningu á vef Matvælastofnunar http:// www.mast.is/matvaeli/faedubotarefn) en eins og nafnið ber með sér er þeim ætlað að koma til viðbótar við fæðu sé næringunni ábótavant, en ekki í stað hennar. Því þurfa innflytjendur að hlíta tilteknum lögum og reglum. Ég nota þó oft samlíkinguna um fæðubótarefni og snyrtivörur, það er að ef þú notar snyrtivörur og færð kláða eða útbrot getur þú þvegið þér og húðin jafnar sig. Hins vegar ef þú tekur inn fæðubótarefni þá er það komið inn í líkamann rétt eins og þú hefðir tekið lyf. Það getur verið slæmt fyrir heilsuna ef fæðubótarefnið inniheldur til dæmis hátt hlutfall af örvandi efni eða mjög stóran skammt af steinefnum, til dæmis járni eða kalíum og fituleysanlegu vítamínunum. Einnig getur mikið magn af einu efni hamlað upptöku á öðru og þá skapast skortur og ójafnvægi. Hér á setningin „að meira sé ekki betra“ vel við. Af þessum sökum eru strangar reglur um fæðubótarefni. Auk þess þarf að upplýsa og fræða ef fram koma vörur sem ekki uppfylla strangar kröfur um gæði og hreinleika, því þótt ótrúlegt megi virðast þá greinast bæði óhreinindi, aðskotaefni og jafnvel ólögleg efni í sumum fæðubótarefnum, efni sem hvorki eiga að vera þar né koma fram á umbúðum. Hópurinn Upplýst hefur lagt sig fram um að fræða um meðferðir og vörur sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um slíkt og heldur hópurinn úti vefsíðunni www.upplyst.org.

Úr opinbera geiranum eru það þó Heilbrigðiseftirlitið og Matvælastofnun sem eiga að fylgjast með fæðubótarefnum og birta upplýsingar um það ef eitthvað er varhugavert við eitthvert þeirra. Ábyrgðin er þó í höndum neytenda sem þurfa að kynna sér innihald þess sem þeir ætla að neyta og gera sér grein fyrir því að fæðubótarefni geta verið menguð. Íþróttafólk þarf að kynna sér vel þau fæðubótarefni sem það hyggst taka inn og gæta þess að þau innihaldi ekki efni sem eru á bannlista Alþjóða lyfjaeftirlitsins (WADA). Þekkingarskortur getur þó verið mjög hamlandi þegar hingað er komið og oft eru innihaldslýsingar mjög torlesnar og illskiljanlegar.

Helstu flokkar fæðubótarefna

Að þessu sögðu er rétt að gera grein fyrir flokkum fæðubótarefna og mætti fyrst telja duft, drykki og næringarstangir sem ætlað er í stað máltíðar (e. meal replacement) og innihalda prótein, kolvetni, og ýmis vítamín og steinefni, einnig einhvern fitugjafa og jafnvel trefjar.

Próteindrykkir og próteinstangir eru sambærilegir þessum drykkjum en þar er þó próteinhlutinn stærstur og þeir sem stunda íþróttaiðkun og líkamsrækt eru stærsti neytendahópurinn. Uppistaðan í flestum próteinfæðubótarefnum eru mysuprótein (whey) og ostprótein (casein) sem eru hreinlega sömu próteinin og finnast í mjólk. Sambærilegar vörur eru skyrdrykkir og próteinríkir mjólkurdrykkir til að mynda Hleðsla og Hámark. Munurinn liggur þó í því að þeir síðarnefndu eru framleiddir í mjólkurbúi eða innan matvælaframleiðslu og eiga því margir erfitt með að sjá þá sem eiginlegt fæðubótarefni. Slíkir drykkir eru óþarfir fyrir langflesta því að sýnt er að almennt er fólk að taka inn næga orku, næga næringu og sér í lagi næg prótein í gegnum fæðuna. Íþróttafólk eykur próteinneyslu sína oftast ósjálfrátt, hreinlega með því að borða stærri skammta og oftar. Ekki er rétt að alhæfa um að enginn hafi gagn af slíkum próteinfæðubótarefnum og margir nýta sér drykkina til að létta undir í daglegu amstri þegar lítill tími er aflögu. Slíkir drykkir gagnast þó helst þeim sem ekki ná að nærast nægjanlega vel vegna sjúkdóma, slysa eða vegna þess að þeir geta ekki matast á venjulega máta.

Prótein.jpg

Næst má nefna vítamín og steinefni sem koma í töflu-, úða-, duft- eða fljótandi formi. Einhverjir gætu haft gagn af því að nota vítamín- og steinefnablöndur ef mataræðið er mjög ábótavant, til dæmis vegna ofnæmis eða óþols. Einnig þeir sem nærast illa vegna veikinda eða lystarleysis. Langflestir sem borða fæðu úr öllum fæðuflokkunum og eru að borða í samræmi við þörf ættu þó ekki að þurfa að nota slík bætiefni. Æskilegast er að fá vítamín og steinefni úr fæðunni, þannig eru þau náttúruleg, vinna með fæðunni og því sem hún gefur. Ekki hefur verið sýnt fram á að vítamín og steinefni auki langlífi eða bæti heilsu þeirra sem borða fjölbreytta og vel samsetta fæðu. Ef fólk ákveður að taka fjölvítamín með steinefnum er nauðsynlegt að fylgja leiðbeiningum á umbúðum, því meira er ekki betra.

Plöntuefni sem eru ýmis næringarefni sem plantan framleiðir, koma einnig við sögu sem næring fyrir líkama mannsins og til að halda honum heilbrigðum. Dæmi um plöntuefni eru lycopene úr tómötum en sum fæðubótarefni byggja á þessu efnasambandi. Margir vilja þó meina að þegar efnið hefur verið einangrað úr plöntunni og tekið úr samhengi við annað sem plantan býr yfir sé virknin í töflunni eða duftinu ekki sú sama og þegar tómaturinn er borðaður.

Lýsi eða annar verulegur D-vítamíngjafi er þó undanskilið þar sem vitað er að skortur er á D-vítamíni í fæðu flestra hér á Íslandi, sér í lagi vegna lítillar fiskneyslu. Auk þess sem sólar gætir ekki í nægjanlegu magni til að húðin geti framleitt það sem upp á vantar. Því hefur verið skerpt á ráðleggingum um lýsisneyslu og ráð- lagður dagskammtur hækkaður í samræmi við niðurstöður rannsókna í sem nemur einni matskeið á dag, til að stuðla að góðri beinheilsu og almennu heilbrigði. Það er spurning hvað framtíðin leiðir í ljós en nú þegar eru nokkrar fæðutegundir D-vítamínbættar, til að mynda ISIO-4 jurtaolían, Fjörmjólk, Fjörostur og Léttmjólk með D-vítamíni. Þó svo að þessar fæðutegundir séu ekki eiginlegt fæðubótaefni þá eru þær eins og lýsið nokkurs konar fæðubót.

Kalk. Í tengslum við lýsi, D-vítamín og beinheilsu er ekki hægt að undanskilja kalk, sem er nauðsynlegur hlekkur í fullnægjandi beinmyndun. Helsta uppspretta kalks er mjólk og mjólkurvörur og eru flestir sammála um gæði þess kalks og nýtingu. Ekki ætti að vera þörf á sérstökum kalktöflum nema í tilfellum þar sem mjólkurofnæmi er til staðar, kalsíumsítrat er það form sem oftast er tilgreint sem besti kosturinn. Þeir sem ekki þola mjólkurvörur vegna ofnæmis hafa einnig val um nokkrar tegundir af svokallaðri jurtamjólk: soja-, hafra-, rís- og möndlumjólk. Mikilvægt er að velja kalkbætta vöru úr þessum flokkum.

Magnesíum. Fæðubótarefni sem samanstanda af magnesíum á einhverju formi eru auglýst grimmt og eru margir að taka þau inn, úða á sig eða baða sig upp úr þeim. Vert er að hafa í huga að stórir skammtar geta hæglega valdið niðurgangi. Magnesíum er nauðsynlegt fyrir vöðvasamdrátt og vöðvaslökun og flestir ná að uppfylla þörf sína með venjulegu mataræði. Margar algengar fæðutegundir innihalda magnesíum, til dæmis mjólkurvörur, hýðishrísgrjón, spínat, bananar og þurrkaðir ávextir. Ekki margar vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á að notkun þess á formi fæðubótarefnis vinni gegn krömpum hjá heilbrigðum einstaklingum sem borða fjölbreytta fæðu. Þó eru margir sem nota magnesíum og finna mun á sér við það, en það eru gjarnan hlauparar sem hlaupa tugi kílómetra í viku hverri.

Kalíum hefur mikilvægu hlutverki að gegna við náttúrulega vöðvaslökun eins og magnesíum. Sumir íþróttamenn og aðrir sem hreyfa sig mikið taka inn kalíum með það að markmiði að bæta vöðvaslökun og draga úr hættu á að fá vöðvakrampa. Þetta gagnast þó ekki alltaf því oft er ástæðan fyrir vöðvakrampa skortur á vökva, mikil þreyta eða að viðkomandi hefur hreinlega farið of geyst miðað við líkamlegt form og bakgrunn. Mjög ólíklegt er að kalíum skorti í fjölbreyttu mataræði ef eftirfarandi kalíumríkar fæðutegundir fá notið sín: ferskt grænmeti, kartöflur og steinselja, apríkósur og bananar, pistasíuhnetur, möndlur og avókadó (lárpera).

Íþróttadrykkir og orkudrykkir eru oft nefndir í sömu andrá. Þessir drykkir eru þó nokkuð ólíkir, helst að því leyti að orkudrykkirnir innihalda örvandi efni og minna vandaða kolvetnauppsprettu heldur en alvöru íþróttadrykkir gera. Íþróttadrykkir (kolvetnadrykkir) innihalda auk kolvetnanna, steinefni, aðallega natríum sem er það steinefni sem mest tapast af þegar við svitnum. Önnur algeng sölt (steinefni) í slíkum drykkjum eru kalíum og magnesíum. Íþróttadrykkir voru þróaðir með það fyrir augum að auðvelda íþróttafólki og þeim sem reyna mikið á sig, sér í lagi við heitar aðstæður, að viðhalda vökva- og steinefnajafnvægi líkamans. Drykkina má nota fyrir átök, við átök og eftir, allt eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni. Kolvetnagel hafa rutt sér til rúms í hlaupa- og hjólamenningunni sem þægileg leið til að taka inn kolvetni á ferðinni og viðhalda nærri hámarks orku við átökin. Kolvetnagel er notað þannig að gelið er kreist upp í munninn og síðan teknir 2-3 góðir sopar af vatni til að skola því niður.

Skyldar vörur eru steinefnaduft sem blandað er saman við vatn og notað til að endurhlaða sölt sem tapast hafa við það að svitna mikið. Slíkir drykkir skipta suma miklu máli og draga úr líkunum á því að fá vöðvakrampa og sinadrátt. Það er þá í tilfellum þeirra sem svitna mjög söltum svita og svitna mikið.

Það er varasamt að drekka orkudrykk og fara svo að reyna á sig því koffeinið í drykknum virkar örvandi á hjartsláttinn og hækkar jafnvel blóðþrýstinginn sem eru ekki hollar aðstæður fyrir líkamann fyrir áreynslu. Það eru því ástæður fyrir því að bannað er að selja ungmennum undir 15 ára aldri orkudrykki.

Tannheilsan er þáttur sem huga þarf að ef kolvetnadrykkir og -gel eru mikið notuð því sykurinn og sýran geta skemmt glerung og tennur. Ráð er að skola munninn reglubundið með vatni en umfram allt að hugsa vel um tennurnar.

Probiotics – hvað í veröldinni er það? Áhugaverðar rannsóknir er snúa að þarmaflóru mannsins og hvaða áhrif hún hefur á heilsu, frá ofnæmum til offitu, hafa dregið athyglina að ýmiss konar mjólkursýrugerlum sem eru dæmi um velviljaðar bakteríur eða probiotics. Helstu mjólkursýrugerlarnir eru lactobacillus, bifidobacterium bifidum og lactobacillus GG og þá er aðallega að finna í meltingarvegi, þvagkerfi og kynfærum. Virkni þeirra felst meðal annars í því að þeir framleiða tiltekin efnasambönd, eitt eða fleiri, sem slæmu bakteríurnar þrífast illa eða ekki í. Þeir hjálpa þannig til við að bæta heilsu og fyrir þá sem þurfa að taka sýklalyf er inntaka gagnleg til að endurvekja og viðhalda eðlilegri þarmaflóru.

Margir taka probiotic-gerla, oft nefndir ABgerlar, inn að staðaldri og þá aðallega með því að borða mjólkurvöru með AB-gerlum. Einnig er hægt að fá þá sem fæðubót, ýmist fljótandi, þurrkaða, frosna, duft eða í töfluformi.

Kreatín er það fæðubótarefni sem hafði í kringum sig tiltekinn ljóma fyrst þegar það kom fram á sjónarsviðið í kringum 1990. Kreatín er framleitt í líkamanum á náttúrulegan máta, auk þess sem það kemur með fæðu úr dýraríkinu. Nóg er því til staðar hjá flestum. Kreatín spilar stórt hlutverk við orkubúskap fruma líkamans. Með því að taka kreatín á formi fæðubótarefnis má auka framboð þess sem sýnt er að auki við snerpu og hraða, til að mynda í spretthlaupum, og aukna getu í öðrum kraftgreinum. Ekki hefur verið sýnt fram á árangursbætingu í úthaldsgreinum. Ekki er æskilegt að taka inn kreatín ef nýrna- og lifrarvandamál eru til staðar, en annars ætti neysla þess að vera örugg svo framarlega sem vökvadrykkja er nægjanleg.

Eru fæðubótarefni örugg?

Það er víst að einhver fæðubótarefni eru örugg og þau eru mörg. Hins vegar leynast svartir sauðir inn á milli en vandaðar rannsóknir hafa leitt í ljós að allt of mörg fæðubótarefni, jafnvel fjórðungur, innihalda ekki það sem þau eru sögð innihalda eða eru menguð. Það getur verið sérlega varhugavert að versla fæðubótarefni á netinu, þá eru viðurkenndar verslanir mun betri kostur.

Þeir sem ætla sér að nota fæðubótarefni geta haft að leiðarljósi að velja þau sem merkt eru „drug free“ eða hafa vottun frá sérstakri eftirlitsstofnun í Köln í Þýskalandi. Ávallt skal þó forð- ast fæðubótarefni sem sögð eru hækka magn testósteróns í líkamanum. Algeng dæmi um slík eru Chrysin, Saw Palmetto og Tribulus Terrestris ásamt forhormónum (prohormones).

Það er nauðsynlegt að fylgja leiðbeiningum á umbúðum um notkun og sjúklingar ættu að ráðfæra sig við lækni áður en fæðubótarefni eru notuð. Ófrískar konur og konur með barn á brjósti ættu ekki að nota fæðubótarefni nema þá samkvæmt leiðbeiningum frá sínum lækni eða ljósmóður.

Öll fræðsla unnin af fagfólki er mikilvæg en einnig að standa fast á þeirri leiðbeinandi reglu að þeir sem eru yngri en 18 ára ættu að forðast notkun á fæðubótarefnum.

Að lokum … Gullvægar setningar úr bók minni „Góð næring betri árangur í íþróttum og heilsurækt“ sem höfð eru eftir einum þekktasta íþróttanæringarfræðingi í heimi, Skotanum Ron Maughan, segja meira en margt annað um fæðubótarefni: „Ef það virkar – er það líklega bannað.“ „Ef það er ekki bannað – þá virkar það líklega ekki.“

Fríða Rún Þórðardóttir

Næringarfræðingur, formaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands

Nýtt á vefnum