Greinar / 25. júní 2015

Í formi fyrir golfið

Á undanförnum árum hafa vinsældir golfíþróttarinnar aukist gríðarlega. Aðstæður til iðkunar hafa batnað þrátt fyrir erfitt veðurfar og möguleiki á æfingum innanhúss gerir kylfingum kleift að æfa einnig yfir vetrartímann. Mikil aukning er á framboði golfferða til útlanda allan ársins hring og eftirspurn hefur aukist að sama skapi.

Fyrir alla aldurshópa

Vinsældir golfsins má rekja til margra þátta. Íþróttin hentar fólki á öllum aldri og er kjörin fjölskylduíþrótt þar sem fjölskyldan getur sameinast í gleði og útiveru. Golfið er krefjandi, bæði líkamlega og hugarfarslega, og stöðugt er hægt að bæta árangur og setja sér ný markmið.

golf.png

En til að geta stundað golfið til lengri tíma, notið þess og náð árangri þarf almenn heilsa að vera góð og líkamsástandið gott. Þar sem golfhreyfingin krefst mikils samspils milli hreyfanleika, stöðugleika og nákvæmni eru margir þættir sem þarf að huga að. Auk líkamlega formsins vegur jákvætt hugarfar, gott sjálfstraust og góð einbeiting þungt. Regluleg hreyfing, heilbrigt mataræði, hugarró og góður svefn eru allt þættir sem þurfa að vera í jafnvægi til að byggja upp og viðhalda góðri heilsu. Því er mikilvægt að skilja samhengið, þekkja líkama sinn, greina veikleika sína og styrkleika og vinna heildrænt að því að efla hreysti og fyrirbyggja heilsubrest.

Þrátt fyrir að golfíþróttin innihaldi mikla hreyfingu og góða útiveru er meiðslatíðni ansi há. Golfhreyfingin eða sveiflan er ósamhverf og alltaf í sömu áttina. Það eykur hættu á að ósamræmi myndist milli vöðvahópa sem veldur óæskilegu álagi á liðamót. Meiðsli hjá kylfingum geta komið fram hvar sem er í líkamanum.

Algengustu meiðslin eru þó í baki, olnbogum og öxlum en einnig þarf að huga vel að úlnliðum, hnjám og mjöðmum.

Hvað þarf góður golfari að hafa?

  • Vöðvastyrk og samræmi milli vöðvahópa
  • Þol og úthald
  • Stöðugleika og jafnvægi
  • Liðleika
  • Góða líkamsvitund og samhæfingu

Vöðvastyrkur og samræmi milli vöðvahópa er mikilvægt til að hafa vald á sveiflunni og stuðla að lengra höggi. Styrktarþjálfun styrkir vöðva, bein og sinar auk þess að auka beinþéttni og grunnefnaskipti í líkamanum. Dæmi um styrktaræfingar eru tækja- og lóðaæfingar en einnig er mögulegt að gera fjölbreyttar æfingar með eigin líkamsþyngd. Þol og úthald er einnig mikilvægt til að geta spilað 18 holur og viðhaldið einbeitingu, en 18 holur samsvara u.þ.b. 10 km göngu. Ýmis ytri áreiti eins og veður, fuglar og hljóð geta truflað einbeitingu.

Þol- og úthaldsþjálfun bætir starfsemi hjarta, lungna og æðakerfis. Það eykur súrefnisupptöku, lækkar hvíldarpúls og eykur blóðflæði. Dæmi um þolþjálfun eru röskleg ganga, skokk og hjólreiðar

Stöðugleiki og jafnvægi þarf að vera fyrir hendi til að geta haldið réttri líkamsstöðu og stjórnað sveiflunni. Stöðugleikaþjálfun byggir á æfingum sem styrkja innra vöðvakerfi um liðamót og fyrirbyggir álagsmeiðsl. Dæmi um stöðugleikaþjálfun eru æfingar á jafnvægisbretti, bolta, jafnvægispúða og æfingar sem gerðar eru á öðrum fæti.

Liðleiki eykur líkur á lengri sveiflu, aukinni högglengd og getur jafnframt bætt líkamsstöðu. Liðleikaþjálfun eykur sveigjanleika og hreyfigetu líkamans ásamt því að losa spennu og streitueinkenni. Dæmi um liðleikaþjálfun eru vöðvateygjur og sveifluæfingar.

Góð líkamsvitund og samhæfing er einnig mikilvægt til að ná valdi á réttri tækni í golfsveiflunni. Æfingar til að bæta líkamsvitund og samhæfingu eru ýmsar samsettar æfingar þar sem verið er að vinna með fleiri en eina hreyfingu í einu. Til að bæta sveifluna er árangursríkt að vinna með hreyfingar sem líkja sem mest eftir golfhreyfingunni. En þá er mikilvægt að þær séu framkvæmdar í báðar áttir til að viðhalda samræmi milli vöðvastyrks og hreyfanleika.

Ýmis námskeið eru í boði fyrir kylfinga til að þjálfa og byggja upp líkama sinn og vinna með heilsuna. Árangursrík leið til að innleiða reglulega hreyfingu og ná varanlegum árangri er að fara ekki of geyst af stað, þ.e. að greina stöð- una sína, byrja rólega og virða mörkin sín. Ekki skemmir að vera í góðum hópi fólks sem er að vinna að líkum markmiðum.

Anna Borg

Fagstjóri þjálfunar hjá Heilsuborg

Nýtt á vefnum