Greinar / 15. júní 2015

Hreyfing íslenskra ungmenna

Öllum er orðið ljóst að hreyfing er heilsusamleg og getur dregið úr líkum á svokölluðum lífsstílssjúkdómum, sjúkdómum sem að miklu leyti orsakast af hegðun okkar, s.s. hreyfingarleysi, lélegri næringu, tóbaksnotkun, áfengisneyslu og streitu. Af þeim sökum hefur Embætti Landlæknis gefið út hreyfiráðleggingar þar sem kemur fram að börn og unglingar eigi að hreyfa sig í 60 mínútur á dag af miðlungserfiðri og erfiðri ákefð og að aðrir aldurshópar eigi að hreyfa sig í 30 mínútur á dag af miðlungserfiðri ákefð1. Nú kunna einhverjir að velta fyrir sér hvers vegna fullorðnir eigi að hreyfa sig minna en börn, hvað það er sem gerist við 18 ára aldurinn sem veldur því að ráðlögð hreyfing helmingast?

Svarið er ekkert, það er ekkert sem gerist. Hins vegar er það svo að börn gera yfirleitt það sem þeim er sagt og munu því hreyfa sig í 60 mínútur fái þau slík fyrirmæli frá fullorðnum. Sé fullorðnum aftur á móti sagt að hreyfa sig í 60 mínútur á dag er hætt við að þeir beri við tímaleysi og geri ekki neitt. Meiri líkur eru á að fullorðnir gefi sér 30 mínútur á dag í hreyfingu og því eru ráðleggingarnar þannig þó svo að það sé fullorðnum augljóslega jafn hollt og börnum að hreyfa sig í klukkutíma dag hvern.

Hreyfing eða æfing

Hreyfing er hver sú notkun beinagrindarvöðva sem felur í sér orkueyðslu. Æfing er hins vegar hreyfing með eitthvað að markmiði, s.s. að auka þol eða styrk. Fólk hugsar því oft ranglega að æfingar séu eina hreyfingin sem skipti máli á meðan í raun öll hreyfing skiptir máli, t.d. ganga (í vinnunna), garðvinna, gólfþvottur og fleira. Hins vegar getur verið erfitt að meta hreyfinguna og ákefð hennar. Athafnir mannfólksins hafa því verið reiknaðar út frá grunnorkuþörfinni (sú orkunotkun sem líkaminn þarf í fullkominni hvíld) og þær athafnir sem krefjast orkunotkunar sem eru 3-6 sinnum grunnorkuþörfin eru taldar meðalerfiðar2 . Erfið hreyfing er svo yfirleitt talin vera 6-9 sinnum grunnorkuþörfin2 . Nánari útlistun á meðalerfiðri og erfiðri hreyfingu má finna í 2. tölublaði SÍBS frá 20133.

Lengi vel var mjög erfitt að meta ákefð og lengd hreyfingar og einungis notast við spurningalista eða viðtöl. Báðar aðferðirnar eru háðar minni fólks og líklegt að aðspurðir fegri þátt sinn, gefi upp lengri og ákafari hreyfingu en átti sér stað. Því fóru rannsakendur að mæla þol fólks og nota sem ígildi hreyfingar þar sem þolæfingar auka þol og rökrétt að álykta að þolmeira fólk hreyfi sig meira. Hins vegar er þol einnig talsvert háð erfðum og því er ekki alveg hægt að leggja þol og hreyfingu að jöfnu. Á tíunda áratugnum urðu skrefmælar vinsælt tæki til að mæla hreyfingu vegna þess að þeir voru ódýrir og nokkuð nákvæmir og fljótlega komu út ráðleggingar sem sögðu að fólk ætti að taka a.m.k. 10.000 skref á dag4. Þessar ráðleggingar áttu að vera mjög sambærilegar þeim ráðleggingum að hreyfa sig í 30-60 mínútur dag hvern. Upp úr aldamótunum ruddu hröðunarmælar sér rúms en þeir mæla hröðun líkamans og breyta í slög. Þessir mælar eru mjög nákvæmir en nokkuð hefur verið deilt um hversu mörg slög teljast meðalerfið hreyfing5-7.

Hreyfing minnkar með aldrinum

Rannsóknarstofa í íþrótta- og heilsufræði á Menntavísindasviði við Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands á Laugarvatni hefur undanfarinn rúman áratug rannsakað hreyfingu barna, unglinga og ungs fullorðins fólks sem og aldraðra. Á meðal barna og unglinga og fram á þrítugsaldurinn fer hreyfingin minnkandi með vaxandi aldri og algengara er að yngri börn nái að uppfylla hreyfiráðleggingar Embættis Landlæknis. Þó er svolítið erfitt að meta það því að mæliaðferðin er ekki alltaf sú sama (skrefmælar eða hröðunarmælar) og breytingar hafa verið gerðar á því hversu mörg slög á hröðunarmælunum þarf til þess að hreyfingin teljist meðalerfið. Þannig töldust nær öll 9 ára börn og 50-80% 15 ára barna ná ráðleggingum Embættis Landlæknis um daglega hreyfingu samkvæmt þeim slagafjölda sem Trost og félagar5 settu fram sem viðmið um meðalerfiða hreyfingu. Þegar nýrri og uppfærð viðmið um slagafjölda voru birt6, náðu einungis 5% sömu 9 ára barna ráðleggingunum og 10% sömu 15 ára barna. Nýjustu tölur meðal íslenskra skólabarna þar sem enn önnur viðmið voru notuð7 sýna svo að um 40% barna á grunnskólaaldri uppfylli ráðleggingar Embættis Landlæknis8.

Þrátt fyrir þessar tilfærslur á viðmiðum um slagafjölda fyrir meðalerfiða hreyfingu virðist hreyfing barna og unglinga hafa minnkað undanfarin áratug hverju svo sem er um að kenna.Ekki verður horft fram hjá því að afþreying í formi skjátíma hefur aukist en auk hefðbundinna tölva hefur flóra leikjatölva aukist og spjaldtölvur og snjallsímar hafa rutt sér verulega rúms síðustu fimm árin. Einnig hefur útsendingartími sjónvarps lengst. Því er ekki skrítið að skjátími taki upp eitthvað af þeim tíma sem áður fór í hreyfingu og þekkt er meðal foreldra að drengir spili heldur fótbolta í leikjatölvu heldur en að fara út og spila raunverulegan fótbolta. Eign á spjaldtölvum, snjallsímum o.þ.h. eykst einnig eftir því sem börn og unglingar verða eldri og gæti það að hluta orsakað minnkandi hreyfingu með vaxandi aldri. Því ber samt að halda til haga hreyfing eldri barna og unglinga hefur alltaf verið minni heldur en hinna yngri og því spila tækninýjungar ólíklega stórt hlutverk í minnkandi hreyfingu með vaxandi aldri.

Ungt fólk eins og gamalmenni

Hreyfing eldri unglinga og ungs fólks sem er rétt komið yfir tvítugsaldurinn er verulegt áhyggjuefni. Einungis um þriðjungur 18 ára unglinga tóku 10.000 skref á dag9 og hreyfing unglinga yfir átta ára tíma bil (frá 15 til 23 ára) minnkaði mikið. Við 23 ára aldurinn var hreyfingin í raun svo lítil að hana mátti bera saman við hreyfingu gamalmenna sem voru komin hátt á áttræðisaldur. Það er hins vegar hægt að sporna við þessari þróun og í íhlutunarrannsókn tókst að auka hreyfingu sjö ára barna verulega10. Sú íhlutun fór fram í skólum og hafði það að markmiði að auka hreyfingu á skólatíma þannig að hvert barn fengi 60 mínútur af hreyfingu á dag í skólanum. Þetta var ekki gert með því að fjölga íþróttatímum heldur með því að auka hreyfingu í hefðbundnum bóknámsgreinum. Auk þess voru börnin viljugri til að sinna bóknáminu eftir hreyfinguna.

Drengir hreyfa sig að jafnaði meira en stúlkur og karlar meira en konur. Hvað veldur er ekki alveg vitað en þó er talið að karlpeningurinn velji sér áhugamál og vinnu sem krefjist meiri hreyfingar. Drengir eru til að mynda líklegri til að leika sér í ærslafullum leikjum með hlaupum og jafnvel slagsmálum meðan stúlkur eru oftast rólegri í leikjum sínum. Hins vegar ber svo við að á meðal barna og unglinga með þroskahömlun fannst enginn kynjamunur á hreyfingu8. Líklegasta ástæðan fyrir því er sú að hreyfing barna með þroskahömlun var svo lítil að hún var lítið meira en athafnir daglegs lífs. Verulegur munur var á daglegri hreyfingu þessa hóps og almennra skólabarna. Auk þess var enginn munur á hreyfingu þeirra fyrrnefndu um helgar og á virkum dögum en almenn skólabörn hreyfðu sig meira á virkum dögum en um helgar. Meira af hreyfingu barna með þroskahömlun átti sér auk þess stað á skólatíma samanborið við eftir skóla en enginn slíkur munur fannst á meðal almennra skólabarna. Börn með þroskahömlun voru mun líklegri til að taka þátt í íþróttum sem stundaðar eru á lágri ákefð, s.s. boccia, göngu eða dans meðan almenn skólabörn tóku frekar þátt í íþróttum af hárri ákefð eins og fótbolta, handbolta eða frjálsíþróttum. Ástæður barnanna fyrir að hreyfa sig voru einnig ólíkar. Hærra hlutfall barna með þroskahömlun stundaði hreyfingu/æfingar til þess að léttast meðan almenn skólabörn hreyfðu sig fyrst og fremst til að verða betri í ákveðinni íþrótt eða til þess að komast í betra form.

Verða að hreyfa sig meira

Eins og sagði í upphafi stuðlar hreyfing að heilsusamlegu lífi og því talsvert áhyggjuefni að sjá hvað hefur dregið úr hreyfingu meðal barna og unglinga undanfarinn áratug. Einnig er hreyfing meðal fólks á þrítugsaldri mjög lítil og börn með þroskahömlun hreyfa sig lítið umfram athafnir daglegs lífs. Því má búast við að heilsufari Íslendinga fari hrakandi á komandi árum verði ekkert að gert. Skólar eru þar í lykilhlutverki og geta haft veruleg áhrif á hreyfingu með fjölgun íþróttatíma sem og með því að auka hreyfingu í bóknámstímum.

Því skjóta sérstaklega skökku við þær tillögur Mennta- og menningarmálaráðuneytisins að fækka tímum í líkams- og heilsurækt í framhaldsskólum um 50-70% samfara styttingu náms til stúdentsprófs og líklegt að þær valdi heilsutapi hjá íslensku þjóðinni til langs tíma litið. Sveitar- og bæjarfélög geta einnig stutt við hreyfingu almennings með auknum göngu- og hjólastígum sem og svæðum til útivistar og hreyfingar. Það er í það minnsta morgunljóst að hreyfingu íslenskra ungmenna verður að auka með öllum ráðum.

Heimildir
  • Faghópur Lýðheilsustöðvar um ráðleggingar um hreyfingu. Ráðleggingar um hreyfingu. Lýðheilsustöð, Reykjavík, 2008. Sótt 7/5 2015 af http://www.landlaeknir. is/servlet/file/store93/item11179/version15/NM30399_ hreyfiradleggingar_baeklingur_lores_net.pdf
  • World Health Organization. Physical Activity and Health in Europe: Evidence for Action. WHO Regional Office for Europe, Kaupmannahöfn. 2006.
  • Arngrímsson, S.Á. Aðferð fyrir alla: Að meta ákefð hreyfingar. SÍBS blaðið. 29: 22-24, 2013
  • Tudor-Locke C, Bassett DR, Jr. How many steps/day are enough? Preliminary pedometer indices for public health. Sports Medicine. 34: 1-8, 2004.
  • Trost SG, Pate RR, Sallis JF, Freedson PS, Taylor WC, Dowda M, et al. Age and gender differences in objectively measured physical activity in youth. Medicine and Science in Sports and Exercise. 34: 350-355, 2002
  • Magnússon, K.Þ., Arngrímsson, S.Á., Sveinsson, T., Jóhannsson E. Líkamshreyfing 9 og 15 ára íslenskra barna í ljósi lýðheilsumarkmiða. Læknablaðið. 97: 75-81, 2011.
  • Evenson KR, Catellier DJ, Gill K, Ondrak KS, McMurray RG. Calibration of two objective measures of physical activity for children. Journal of Sports Sciences. 26: 1557- 1565, 2008.
  • Einarsson IO, Olafsson A, Hinriksdottir G, Johannsson E, Daly D, Arngrimsson SA. Differences in physical activity among youth with and without intellectual disability. Medicine and Science in Sports and Exercise. 47: 411- 418, 2015.
  • Arngrímsson, S.Á., Richardsson, E.B., Jónsson, K., Ólafsdóttir, A.S. Holdafar, úthald, hreyfing og efnaskiptasnið á meðal 18 ára íslenskra framhaldsskólanema. Læknablaðið. 98(5): 277-282, 2012. 10. Magnusson KT, Sigurgeirsson I, Sveinsson T, Johannsson E. Assessment of a two-year school-based physical activity intervention among 7-9-year-old children. The International Journal of Behavioral Nutrition and Physical Activity. 8: 138, 2011.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

PhD. Prófessor, Rannsóknarstofa í íþrótta- og heilsufræði á Laugarvatni Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Nýtt á vefnum