Fréttir / 1. nóvember 2018

SÍBS þing

Þing SÍBS var haldið laugardaginn 27. október að Reykjalundi á 80 ára afmælisári SÍBS. Þing eru haldin annað hver ár samkvæmt lögum SÍBS. Að því tilefni voru eftirfarandi aðilar sæmdir gullmerki SÍBS, Brynja Dís Runólfsdóttir, Sveinn Indriðason og Davíð Gíslason. Þá tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson við gullmerkinu á afmælisdegi SÍBS miðvikudaginn 24. október.

Á þinginu voru lagðar fram skýrslur aðildarfélaga auk þess sem félögin tilnefna fulltrúa sína í stjórn, kosinn er formaður og varaformaður stjórnar auk tveggja varamanna, sjá stjórnskipulag SÍBS.

Á þinginu var meðal annars ályktað um heilbrigðisstefnu og endurnýjun rekstrarsamnings velferðarráðuneytisins við Reykjalund.

Ályktun þings SÍBS: Mörkuð verði opinber stefna í forvarnamálum sem hluti af væntanlegri heilbrigðisstefnu

Hlutverk hins opinbera í forvarnastarfi kristallast í að innleiða „heilsu í allar stefnur“ (e. health in all policies). Mikilvægt er að inn í slíka vinnu rati aðilar utan hins eiginlega heilbrigðiskerfis, svo sem menntakerfið, framhaldsfræðslan, sveitarfélögin, vinnustaðir og frjáls félagasamtök. Samhliða „heilsu í allar stefnur“ er æskilegt að komið verði á formlegu ferli um lýðheilsumat (e. health impact assessment) sem taki bæði til aðgerða opinberra aðila og einkaaðila sem líkleg eru til að hafa áhrif á lýðheilsu. Hér má minna á mikilvægi þess að leggja gjald á heilsuspillandi vörur, til dæmis sykurgjald, líkt og þegar hefur verið gert með áfengisgjald og tóbaksgjald, auk fyrirbyggjandi skimunar á áhættuþáttum langvinnra og lífsstílstengdra sjúkdóma. Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að unnið verði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu á yfirstandandi þingi. Skorað er á heilbrigðisráðherra að sem flest af ofangreindu verði að finna í þeirri stefnu.

Nýtt á vefnum