Fréttir / 1. nóvember 2018

Afmæliskveðja frá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra

Ég sendi SÍBS kærar afmæliskveðjur á þessu merkisári, 80 ára starfsafmæli félagsins. SÍBS hefur mikilvægu hlutverki að gegna við eflingu heilbrigðis og lýðheilsu. Starfsemin, sem upphaflega hafði það markmið að berjast gegn berklasjúkdóminum, er nú mun víðtækari og lýtur meðal annars að forvörnum og langvinnum lífsstílstengdum sjúkdómum.

Forvarnir og fræðsla til sjúklinga eru veigamikill þáttur í heilbrigðisþjónustu. Í starfi mínu sem heilbrigðisráðherra hef ég lagt mikla áherslu á mikilvægi forvarna og lýðheilsustarfs sem lið í eflingu heilbrigðisþjónustu.

Áhersla á endurhæfingu eftir slys og sjúkdóma hefur aukist á síðustu árum og þar gegnir starfsemi félagsins lykilhlutverki. Á Reykjalundi hefur byggst upp mikil reynsla og þekking á þessu sviði sem myndar mikilvægan hlekk í heilbrigðisþjónustunni.

Frjáls félagasamtök líkt og SÍBS gegna veigamiklu hlutverki og starf félagasamtaka er mikilvægt samfélaginu öllu, og fyrir framlag SÍBS í þeim efnum er hér með þakkað. Félögum, stjórn og öllum velunnurum SÍBS sendi ég heillakveðjur í tilefni þessara tímamóta, og óska SÍBS velfarnaðar í starfi framvegis.

Nýtt á vefnum