Fréttir / 27. febrúar 2019

Aðaldrifkrafturinn að finnast maður skipta aðra miklu máli


Páll Kristinn Pálsson ræðir við Magnús Friðrik Guðrúnarson, sem ánetjaðist ungur tölvuleikjafíkninni um langt árabil en tókst að losna úr möskvum hennar með þátttöku í Unghugastarfi Hugarafls. Magnús Friðrik hefur tekið þátt í ýmsu forvarnastarfi á geðheilbrigðissviðinu, kennt í Bataskóla Geðhjálpar og flutt fyrirlestra um reynslu sína af tölvuleikjafíkn í framhaldsskólum. Aðalstarf hans um þessar mundir er þó við að búa til sögu fyrir stóran tölvuleik sem áætlað er að gefa út eftir nokkur ár.


Þegar við Magnús Friðrik hittumst til að ræða um tölvuleikjafíknina rifjar hann til að byrja með upp atburð frá því í janúar árið 2007: „Klukkan var að nálgast miðnætti og við vorum samankomnir um hundrað nördar fyrir utan BT-verslunina í Skeifunni, sem þá var. Út var að koma nýr tölvuleikur – ég held bara að þetta hafi verið í eitt af fyrstu skiptum sem haldnar voru miðnæturopnanir þegar ný vinsæl vara kemur í verslanir. Þetta var tölvuleikurinn The World of Warcraft, The Burning Crusade, sem var mjög frægur og vinsæll leikur út um allan heim á þeim tíma. Ég var tólf ára gamall og örugglega yngstur þarna í hópnum. Ég var þá þegar ótrúlega mikill tölvuleikjastrákur. Ég spilaði tölvuleiki, ég spjallaði við vini mína um tölvuleiki, ég lifði dáldið mikið í tölvuleikjum. En ég gerði líka helling af öðrum hlutum, og að mínu mati var þetta ekki orðið neitt alvöru vandamál, bara áhugamál. Ég fór út í fótbolta, var í vatnsbyssustríðum með vinum mínum, ég var bara krakki.“

Hvernig gekk þér í skólanum? „Ég er fæddur árið 1993, þann 20. desember, og þegar maður fæðist svo seint á árinu er maður ungur í samanburði við flesta í sama árgangi. Mér gekk mjög vel í skólanum, meira að segja það vel að mér bauðst að fara ári á undan jafnöldrum mínum í menntaskólann. Sem ég gerði og þar byrjaði tölvufíknin. Ég var bara fjórtán ára þegar ég byrjaði í Menntaskólanum í Kópavogi, þar sem ég bjó. Og það sem gerði hlutina eiginlega verri var að ég fór í stöðupróf í ensku og fékk tvo áfanga metna, þannig að í mínum fyrsta enskutíma í menntaskólanum var ég fjórtán ára í tíma með þriðja árs nemum, það er að segja 16 og 17 ára unglingum. Eins og flestir þekkja er hvert ár á þessum aldri stórt bil og mér fannst ég frekar vera grunnskólakrakki en framhaldsskólaunglingur. Ekki bætti heldur úr skák að ég spilaði á harmónikku, það gaf ekki mörg stig í kúlinu – en er þó merkilegt nokk orðið talsvert svalara síðan. Þessi 14 ára krakki innan um 16-18 ára krakka var talinn mjög gáfaður, svo var hann líka í Gettu betur liði skólans. Þetta var ekki blanda sem bjó til vinsælan nemanda …“

Nú, þótti ekki fínt að vera í Gettu betur? „Nei, ekki í MK á þessum tíma, ekki eins og stjörnurnar í MR og Versló. Það tók mig svo alveg tvö ár að átta mig á því að ég þekkti engan í skólanum. Ég fór alltaf beint heim eftir skóla og settist við tölvuna, gerði aldrei neitt með neinum eftir skóla. Enginn vildi vera með 14 ára krakka, hvað þá að bjóða honum í partí um helgar. Mig langaði alveg að eiga vini í skólanum en átti enga. Allir vissu samt alveg hver ég var – en ég var fastur í þeirri sjálfsímynd að ég væri ekki gjaldgengur félagslega, enginn talaði við mig. Ég var skrýtni krakkinn, ofurnördinn. Það var á þessum tíma sem tölvan varð vandamál hjá mér frekar en áhugamál. Hún gerði mér kleift að komast yfir þá vansæld að langa til að eignast vini en finnast ég vera félagslega vanhæfur til þess. Í stað þess að reyna að leysa það öðruvísi, öðlast þann félagsþroska sem til þurfti, þá var ég bara í tölvunni. Smám saman fór mér svo að þykja erfitt að mæta í skólann, hann uppfyllti engar af mínum þörfum og mér leið bara illa.“

Varstu nokkuð lagður í einelti? „Nei, ég myndi ekki segja það. Það var aldrei komið illa fram við mig, en það reyndi enginn að vingast við mig. Ég reyndi svo sem heldur ekki að vingast við aðra. Ég þorði það ekki. Það hefði verið frábært ef einhver hefði reynt að vingast við mig, en ég get ekki verið fúll yfir því að enginn hafi gert það. Hins vega átti ég vini í tölvunni, bæði útlendinga og Íslendinga, og margir þeirra eru vinir mínir enn þann dag í dag. Vandamálið við vinina í tölvunni, sérstaklega þá sem bjuggu í Bandaríkjunum, var að kvöldin hjá þeim eru nætur á Íslandi. Svo það leið ekki á löngu uns ég var farinn að spila tölvuleiki til fjögur og fimm á morgnana. Vaknaði svo klukkan átta og hugsaði hvort mig langaði til að fara í skólann, þar sem mér leið illa, eða halda bara áfram að sofa og fara svo að spila tölvuleiki með vinum mínum þegar ég vaknaði aftur. Ég var ekki lengi að gera það upp við mig. Ég bjó einn með mömmu minni og MK var bara hinum megin við götuna. Á tímabili var það þannig að ég fór út með henni á morgnana, hún fór í vinnuna en ég labbaði einn hring í hverfinu og fór svo aftur heim og svaf til hádegis. Sem endaði auðvitað með því að mamma komst að því að ég var hættur að mæta í skólann – en þá hafði þetta staðið yfir í tvo til þrjá mánuði.“

Var ekkert haft samband við þig úr skólanum? „Nei, það er það furðulega við þetta. Það var ekki hringt eða neitt – og svo kom bara bréf um að ég hefði verið rekinn vegna lélegrar mætingar og það var þá sem mamma komst að þessu. Ég veit ekki hvort það hefði breytt einhverju ef það hefði verið hringt og ég boðaður í viðtal eða eitthvað slíkt. En það var bara ekki gert og ég hitti aldrei námsráðgjafa á meðan ég var í MK. Og ég er ekki að segja þetta til að gera lítið úr MK. Ef hoppað er yfir næstu árin þá útskrifaðist ég loksins í fyrra, eftir 9 ár og 6 framhaldsskóla. Ég prófaði sem sagt ansi marga og það var alltaf sama sagan: Ég stundaði námið ágætlega í byrjun en hætti svo að mæta. Alltaf sama munstrið. Ég stóð ekki undir pressunni sem fylgdi því að fara út í félagslegt umhverfi. Ég fór í Borgarholtsskólann í Grafarvogi á eftir MK, ég átti þar nokkra góða vini sem ég hafði kynnst í gegnum tölvuleikina. Það var ágætt að hafa hafa þá nálægt sér en aðallega svaf ég bara þann tíma sem ég var í Borgó. Ég svaf í sófanum á bókasafninu og það eru mínar minningar þaðan. Svo fór ég í Hraðbraut og svo Tækniskólann og þaðan norður að Laugum, en þar kenndi pabbi minn. Það mistókst líka og þá tók ég mér frí frá námi í tvö ár og gerði lítið annað en að vera í tölvunni. Loks fór ég í Fjölbrautaskólann í Ármúla og þar fannst mér í fyrsta sinn ég vera sestur á skólabekk til að klára stúdentsprófið – og gerði það sem sagt í fyrra.“

Hvenær náðirðu að snúa við blaðinu í tölvuleikjafíkninni? „Þessi tvö ár sem ég var ekki í framhaldsskólanum náði tölvufíknin hæstu hæðum hjá mér. Dæmigerður dagur var þannig að ég vaknaði um hádegið og fór í hádegismat til frænku minnar, sem var mér eins og amma á þessum árum og hélt mér á lífi með því að gefa mér að borða í hádeginu. Fór svo heim í tölvuna og spilaði til um klukkan fjögur um nóttina. Ég tók mér alltaf eitt hlé um miðnættið, fór upp í eldhús og skellti frosinni pítsu í ofninn. Þetta voru mínar tvær máltíðir á hverjum degi. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég fór að fitna, annars hef ég alltaf verið og er núna mjög grannur. Það sem hélt mér lifandi var að ég átti vini sem ég spilaði með leikinn Drekar og dýflissur (Dungeons and Dragons) einu sinni í viku. Ég held í alvörunni að það hafi bjargað mér því þetta var í eina skiptið í hverri viku sem ég hitti annað fólk, það eina sem dró mig út úr húsi til að gera eitthvað annað en að skjótast í hádegismat til frænku og aftur til baka.“

Hvernig brást mamma þín við þessu öllu saman? „Mamma reyndi allt sem hún gat til að koma mér á rétta braut. Einu sinni tók hún beininn með sér í vinnuna, en það virkaði ekki betur en svo að ég strauk að heiman þann dag. Ég var nú ekkert lengi í burtu, en þetta ásamt því sem á undan var gengið varð til þess að hún gafst upp. Ég hafði greinilega gert upp við mig að það væri mikilvægara að vera í tölvunni en búa heima. Ég er ekkert stoltur af þeim sigri. En hún kom mér þó til sálfræðings, Eyjólfs Arnar Jónssonar sem er einmitt sérfræðingur í tölvufíkn og hefur gert mér rosalega margt gott í gegnum árin. Ég gekk til hans mjög lengi, byrjaði hjá honum árið 2010 en hætti þegar ég fór norður til pabba þar sem ég var í tvö ár og byrjaði hjá honum aftur einu ári eftir að ég kom aftur hingað suður. Hann og mamma höfðu ýtt mér út í Unghugastarf hjá Hugarafli, félagsskapar sem starfar með fólki sem á við geðræna erfiðleika að stríða og í mínu tilfelli var það sem sé tölvufíknin. Þá var þetta allt öðruvísi hópur, flestir voru miklu eldri en ég og þetta var svona meira vinahópur sem hittist á kvöldin en virknihópur sem starfaði á daginn. Þegar ég kom svo aftur í Unghuga árið 2016 þá varð þetta eiginlega bara nýja vinnan mín, það sem ég vaknaði til á morgnana í stað þess að fara beint í tölvuna. Það var allra mikilvægasta skrefið á leiðinni út úr tölvufíkninni, að fara á fætur spenntur fyrir því að gera eitthvað annað en að setjast við tölvuna. Og við Unghugar höfðum alltaf eitthvað fyrir stafni, vorum virk og spennt fyrir því sem var í gangi.“


Það er afgerandi munur á því að vakna á morgnana og mæta í Hugarafl í átta tíma og taka þátt í spennandi verkefnum en að sitja öllum stundum við tölvuna.


Hvað voruð þið að gera? „Meðal annars tókum við þátt í að skipuleggja fyrstu „Úr myrkrinu í ljósið“ gönguna á vegum Pieta samtakanna, sem vinna að forvörnum gegn sjálfsvígum. Þessi ganga er orðin að árvissum atburði í starfsemi Pieta. Svo unnum við með Norrænu ráðherranefndinni að rannsóknarverkefni sem snerist um geðheilbrigði á Norðurlöndunum og þá sérstaklega hjá ungu fólki. Ég var fulltrúi Íslands um það verkefni á pallborði í Osló í janúar 2017. Í framhaldi af því hafði Anna Gunnhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Geðhjálpar samband við mig í tengslum við stofnun Bataskólans, sem rekinn er af Geðhjálp. Hún bauð mér að fara með hópi til Nottingham á Englandi til að kynnast fyrirkomulaginu hjá slíkum skóla sem þar starfaði. Ég sló til og tók síðan þátt í stofnun Bataskólans, kenndi þar tvo áfanga ásamt Helgu Arnardóttur og Aðalheiði Stefaníu Helgadóttur. Það þótti mér alveg geggjað.“

Þetta hafa verið mikil viðbrigði fyrir tölvuleikjafíkilinn … „Já, heldur betur. Þarna í ársbyrjun 2017 var ég í fyrsta sinn farinn að hugsa um sjálfan mig þannig að ég væri búinn að öðlast bata á tölvufíkninni. Á tveimur mánuðum hafði ég farið í tvær utanlandsferðir vegna þátttöku minnar í geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi – ekki sem sjúklingur eða notandi kerfisins heldur sem einhver sem er að taka þátt í því að gera kerfið betra. Þetta var snögg breyting fyrir mig á einu ári.“

Varstu þá ekkert að spila tölvuleiki á þessum tíma? „Jú, á hverjum degi – en miklu minna. Það er afgerandi munur á því að vakna á morgnana og mæta í Hugarafl í átta tíma og taka þátt í spennandi verkefnum en að sitja öllum stundum við tölvuna. Geðfræðslan hjálpaði mér örugglega einna mest. Þá fór ég í menntaskólana og sagði sögu mína af tölvuleikjafíkninni. Ég hef mjög gaman af því að standa fyrir framan hóp af fólki og spjalla. Ég hef alltaf átt að veldara með að halda fyrirlestur en að tala við eina manneskju. Þegar ég held fyrirlestur veit ég að ég hef orðið, athyglin er óhjákvæmilega á mér, en verð óöruggur í almennu spjalli. Annað sem gerðist á þessum tíma var að ég eignaðist kærustu. Það var orðinn ómöguleiki hjá mér áður, því maður missir allt álit á sjálfum sér þegar enginn er í kringum mann. Ég hafði enga trú á því að ég gæti nokkurn tíma eignast vini sem væru ekki nördar eins og ég, hvað þá kærustu. Það var ekki pláss fyrir annað en tölvuleikina, ég hafði ekkert annað að tala um.“

Er nördinn meðvitaður um að hann sé nörd? „Ég held það, almennt séð. Það eru tvö orð í gangi yfir þetta, nörd og „geek“. Það er endalaust verið að rífast um skilgreiningar á þessu tvennu. Geek er yfirleitt þýtt á íslensku sem lúði, það er sá sem er til dæmis mjög djúpt sokkinn í myndasögubækur, sérstaklega japanskar teiknimyndir, ofurhetjumyndir og þess háttar. Nördinn er gáfaður gleraugnaglámur, iðulega mjög sérhæfður og klár á einhverju einu sviði, svo sem stærðfræðiséní. Þetta er ekki það sama og að vera einhverfur, heldur beinist öll athyglin að einu eða mjög fáum áhugasviðum. Ég vil til dæmis meina að fyrir utan að vera tölvunörd sé ég líka nörd í hlutverkaleiknum Drekar og dýflissur, jafnvel meira í síðarnefnda því ég kann svo sem ekkert mikið á tölvur. En þegar kemur að því að segja sögur, eða einhverju frásagnartengdu, þá er ég nörd. Þegar ég horfi á bíómynd fer ég strax í að kryfja hana í fyrsta, annan og þriðja þátt, persónusköpunina og svo framvegis. Ég er þannig líka áhugamaður um kvikmyndir og bækur. Fátt er betra en góð kvikmynd, en fátt er líka eins ömurlegt og léleg kvikmynd, að sitja fastur í tvo klukkutíma yfir einhverju drasli því ég er líka þannig gerður að mér finnst ég verða að klára allt sem ég byrja að horfa á, hvort sem það er gott eða lélegt. Hvað varðar bækur, þá er ég hrifnastur af fantasíubókmenntum og les nánast eingöngu slíkar sögur. En mér finnst þó tölvuleikir besta leiðin til að segja sögur.“

Magnusnord

Og nú er það orðin atvinna þín, ekki satt, að semja tölvuleikjasögur? „Jú, það hljómar eins og þversögn að eitt af því sem gerðist samfara bata mínum af tölvuleikjafíkninni í gegnum starfið hjá Hugarafli þá bauðst mér frábært tækifæri þegar vinir mínir stofnuðu fyrirtæki utan um lokaverkefni sitt í Háskólanum í Reykjavík og ákváðu að búa til tölvuleik saman. Þá vantaði einhvern til að semja sögu fyrir leikinn og buðu mér að taka þátt í því. Þar sem ég taldi mig lausan við tölvuleikjafíknina, en hafði þó enn áhuga á þeim, viðráðanlegan áhuga skulum við segja, ákvað ég að slá til. Þetta var sumarið 2017, fyrirtækið kallast Myrkur, og þar starfa ég enn, einu og hálfu ári síðar. Þetta er einn fantasíutölvuleikur, sem gerist í sínum eigin heimi þannig að það þarf að skapa allt sem viðkemur þeim heimi, sögu hans, hvernig galdrarnir sem þar eru stundaðir virka, hvers konar verur tilheyra honum og svo framvegis. Það var fyrsta skrefið, svo komu helstu persónur leiksins og allt fólkið sem býr í heiminum. Þriðja skrefið felst í því að búa til einhverja sögu sem þarna gerist og sú vinna er enn í gangi. Þetta tekur sem sagt allt heillangan tíma og við stefnum að því að gefa leikinn út árið 2021.“


„Leikurinn okkar er sögudrifinn og bara spilaður einu sinni í gegn. Notandinn upplifir hann eiginlega sem bíómynd. Mér þykir mikilvægt að leikurinn endi og spilarinn sé þar með frjáls undan honum.“


Hvað með kærustuna? „Við erum enn saman, búin vera það í um tvö ár. Hún hefur ekki vitund áhuga á tölvuleikjum. Aðaláhugamál hennar er söngur og hún stundar nám í FÍH-skólanum. Það er örugglega það mikilvægasta sem ég græddi á því að taka þátt í starfi Hugarafls og geðheilbrigðiskerfinu, að ég get tengst öðru fólki en nördum, fólki á öðrum sviðum en tölvuleikjunum. Við kærastan mín eigum engin sameiginleg áhugamál en þykir bara gaman að umgangast hvort annað. Við finnum okkur alltaf eitthvað að gera, og það skiptir ekki máli hvort það er áhugamál hennar eða mitt eða hvorugs – við njótum þess einfaldlega að vera saman.“

Eftir þessa reynslu af tölvuleikjafíkninni – hvað viltu segja öðrum um hana? „Ég hef mjög miklar og ákveðnar skoðanir á tölvufíkn. Ég held að hún sé í rauninni alveg sama eðlis og það sem fær fólk til að sitja og horfa á sjónvarp allan daginn. Þetta er flótti, fólk vill slökkva á huganum og fá að detta í eitthvað annað en eigin vandamál hversdagsins. En ég held að aðalmunurinn á tölvufíkn og sjónvarpsfíkn – og ástæða þess að tölvufíknin er alvarlegri en sjónvarpsfíknin – sé sá að svo margir tölvuleikir eru hannaðir þannig að þeir enda aldrei. En þættir í sjónvarpinu enda langflestir einhvern tíma. Fyrrnefndur tölvuleikur The World of Warcraft er að ég held fyrsti leikurinn sem heltók allan tölvuheiminn, það voru til svipaðir leikir áður en náðu ekki almennum vinsældum. The World of Warcraft var hannaður þannig að fólk greiðir af honum mánaðarlegt afnotagjald og hann hættir aldrei. Heimurinn er stöðugt í gangi og hægt að spila áfram og áfram og áfram. Þetta er ekki afmörkuð saga, eða afmörkuð upplifun – þetta er bara annað líf. Og þegar fólki bauðst að hverfa úr sínu erfiða hversdagslega lífi yfir í hitt lífið þar sem hver einstaklingur er hetja sem margir þekkja og vilja fá með sér í lið og upplifa með ævintýrin – þá var auðvelt að velja … Þegar þessi leikur náði hápunkti sínum voru þátttakendurnir hátt í 20 milljónir sem skiptust niður á netþjóna en um hvern slíkan sameinuðust tugir þúsunda notenda. Flestir spila svo í 5 til 40 manna hópum og það sem gerist við það er að hver spilari verður í senn háður öðrum og aðrir háðir honum. Spilamennskan hættir þar með að vera einkamál hvers og eins – ef einhver í hópnum mætir ekki til leiks skemmir hann fyrir hinum. Þessu fylgir ekki bara mikil ábyrgð heldur upplifir hver spilari að hann sé mikils virði fyrir aðra. Þetta held ég að sé aðaldrifkrafturinn í þessu öllu saman, það var það að minnsta kosti fyrir mig, sem sé að finnast ég skipta aðra miklu máli.“

Sjálfsmyndin hvílir í þessu? „Já, algjörlega. Allir þessir netþjónar sem ég nefndi innihéldu spjallrásir þar sem allar þessar þúsundir þátttakenda gátu talað saman. Og ég var mjög lengi að ná árangri, að ná mér upp á hæstu stigin, en þegar ég loks komst upp á hæsta stigið fylgdi því alveg gríðarleg ánægjutilfinning. Þegar ég byrjaði að spila The World of Warcraft voru stigin 60, og það gat tekið marga mánuði að komast upp á hæsta stigið – og þá einungis með því að spila í marga klukkutíma á hverjum degi. Og þess konar hönnun leikja er orðin mjög ríkjandi í dag.“

Er The World of Warcraft enn í gangi með öllum þessum þátttakendum? „Leikurinn er enn í gangi, en þátttakendum hefur víst eitthvað fækkað. Núna hafa margir fært sig yfir í leiki eins og League of Legends, Overnight og auðvitað Fortnite. Og maður tekur eftir því að allir stærstu leikirnir, sem fólk talar mest um og græða mest af peningum, eru þeir leikir þar sem þátttakendur eru mjög margir og spilarar mynda hópa og leikurinn snýst um að vera stöðugt í gangi.“

WW.JPG

Kostar ekki mikið fyrir fólk að spila þessa leiki? „Í The World of Warcraft borgaði ég mánaðarlega áskrift, um 1500 krónur. Þetta er því ekkert rosalega dýrt, fyrirtækin græða á fjölda spilara ekki á því að ná sem mestu af hverjum og einum. Svo eru fjölmargir símaleikir stöðugt í gangi, þá er spilað frítt en einnig hægt að kaupa sig áfram inni í leiknum með ýmsum hætti ef maður vill fara hraðar í gegnum hann. Þeir eru allir hannaðir þannig að hægt sé að spila endalaust og þetta eru leikir sem berjast um athygli spilara og að halda þeim sem lengst. Ég held að tölvuleikir séu í sjálfu sér ekki slæmt fyrirbæri. Núna eru þeir stærsti hluti skemmtanaiðnaðarins í heiminum, það er meiri gróði í tölvuleikjum en bíómyndum. En það sem við erum að gera hjá Myrkur er að búa til sögudrifinn leik. Notandinn upplifir hann eiginlega sem bíómynd. Leikurinn er bara spilaður einu sinni í gegn og þá er hann búinn. Mér þykir það mikilvægt atriði, að leikurinn endi og spilarinn sé þar með frjáls undan honum.“

Er það vegna þinnar eigin reynslu? Það er jú meiri bissness í leikjum sem enda aldrei … „Það er alveg markaður fyrir leiki sem eru takmarkaðir í tíma, leiki sem enda. Það er hægt að hagnast á slíkum leikjum þótt sá hagnaður verði aldrei í líkingu við vinsælustu leikina sem enda aldrei. Þannig leikir eru algengastir og það ríkir gríðarleg samkeppni á milli þeirra. Þeir þurfa allir að fólk eyði sem mestum spilatíma í þá, helst endalausum, á meðan okkar leikur kallar ekki nema á einhverja afmarkaða klukkutíma til að klára. Hann er miðaður við 10 til 15 klukkustunda spilatíma og hægt að dreifa honum að vild á einhverja daga.“

Þú byrjaðir hér í upphafi að segja frá miðnæturopnun fyrir nýja útgáfu tölvuleiks í verslun BT í Skeifunni … hver var punkturinn í þeirri sögu? „Já, ég nota þá sögu mikið í fyrirlestrum mínum um tölvufíkn í skólunum. Punkturinn er að þegar ég stóð þarna fyrir utan með hinum hundrað nördunum þá kom starfsmaður út fyrir miðnætti og lokaði á eftir sér. Stóð svo um stund og horfði yfir nördaröðina. Við störðum á hann á móti með eftirvæntingu í augunum, spenntir fyrir að komast inn að ná í leikinn. Hann hrópaði svo yfir hópinn það sem við höfðum allir heyrt mjög oft áður: „Get a life!“ – Eignist líf! Þetta hafa tölvuleikjanördar sem sé oft heyrt frá öðrum – sérstaklega á þessum tíma – og þýðir að við værum lúðar og ættum að reyna að gera eitthvað annað. En ástæðan fyrir því að ég nota þessa sögu og man svo vel eftir þessari stund er að einn úr hópnum hrópaði þá á móti: „Eftir hverju heldurðu að við séum að bíða?!“ Það var þó ekki á þeirri stundu sem ég fór að hugsa um áhugann á tölvuleikjum sem fíkn – það kom seinna – því þarna var ég eins og hinir fíklarnir að bíða eftir nýja innskoti af spennu í líf mitt. Þarna var ég tólf ára. Og gerði mér ekki grein fyrir því þá, en þarna var ég greinilega orðinn tölvuleikjafíkill! Þetta er orðið enn algengara í dag en þá – sem þýðir að þetta er orðinn hamlandi hlutur í lífi enn fleiri einstaklinga. En ég held samt að það hafi ekki verið tölvuleikirnir sem slíkir sem gerðu mig félagslega fælinn og þunglyndan – heldur hafi þeir gert mér kleift að halda áfram að vera það sem ég var fyrir … Sumir liggja bara í rúminu allan daginn, eða nota áfengi eða önnur fíkniefni, sem flóttaleið – ég notaði tölvuna.“

Finnst þér þá kannski þú hafa fengið eitthvað gott út úr tölvufíkninni, þrátt fyrir allt? „Ég veit ekki hvort ég geti gengið svo langt að segja að ég hefði ekki viljað vera án þessarar reynslu. En ég er mjög ánægður með stöðu mína í dag og hún markast auðvitað mjög af tölvunotkuninni. Ég starfa við það sem mér þykir skemmtilegast, að segja sögur. Þótt ég sé mjög sáttur við líf mitt í dag breytir það ekki því að mér leið mjög illa á þessum tíma. Og ég tel að hefði kerfið verið orðið eins meðvitað um neikvæðu hliðina á tölvuleikjum og það er í dag … Núna eru námsráðgjafar í öllum skólum sem hringja í nemendur ef þeir hætta að mæta reglulega, og það er boðið upp á þjónustu sálfræðinga í mörgum skólum … Ef eitthvað slíkt hefði verið til staðar þegar ég fór út af sporinu er meira en líklegt að fimm ár af ævi minni hefðu ekki farið í þetta. Ég hefði líklega klárað stúdentinn á fjórum árum og farið í háskóla – líf mitt væri allt öðruvísi. Ég veit svo sem ekki hvort það væri betra eða verra, en tel mig geta verið ánægðan með það sem ég er í dag þrátt fyrir að ég sjái eftir því að hafa misst þess ár … Þau gerðu mig að manneskjunni sem ég er en þau voru líka mjög erfið, þau voru líka sár.“

Páll Kristinn Pálsson

Ritstjóri

Nýtt á vefnum