Fréttir / 11. desember 2001

Umboðsmannafundur á Reykjalundi


Fundur með umboðsmönnum Happdrættis SÍBS var haldinn á Reykjalundi 16. nóv. s.l. Til fundarins komu yfir 60 umboðsmenn og starfsmenn umboða og happdrættis. Pétur Bjarnason, framkvæmdastjóri setti fundinn og stýrði honum.

 

Tilgangur fundarins var m.a. að kynna umboðsmönnum starfsemi SÍBS, ýmis atriði í samskiptum skrifstofu við umboðsmenn og ekki síst að starfsmenn hitti umboðsmenn og menn skiptist á skoðunum um málefni happdrættisins.

Haukur Þórðarson, formaður SÍBS og Helgi Hróðmarsson, félagsmálafulltrúi samtakanna kynntu hina fjölþættu starfsemi sem fram fer á vegum SÍBS, aðildarfélög þess og röktu söguna. Sambandið hefur starfað á sjöunda áratug og er orðið fjölskipað bandalag brjóstholssjúklinga, þar sem Landssamtök hjartasjúklinga er fjölmennasta aðildarfélagið. Driffjöður framkvæmda á vegum SÍBS er happdrættið og í krafti tekna frá því hefur verið framkvæmt fyrir svo milljörðum skiptir á undanförnum áratugum, einkum á Reykjalundi og Múlalundi.

Næst var starfsemi Múlalundar, vinnustofu SÍBS kynnt. Steinar Gunnarsson, framkvæmdastjóri fór yfir sögu Múlalundar og kynnti framleiðslu hans. Múlalundur hefur starfað frá 1959 og nú vinna  þar 52 starfsmenn, langflestir fatlaðir. Helgi Kristófersson, markaðs- og gæðastjóri sagði frá ýmissi þjónustu sem Múlalundur getur veitt fyrirtækjum og einstaklingum, svo sem sérprentun á möppum, lausblaðabókum, töskum og ýmsu fleiru. Langstæsti hluti framleiðslunnar eru þó hin landsþekktu Egla bréfabindi.

Pétur Bjarnason sagði frá starfsemi Múlabæjar og Hlíðabæjar, sem SÍBS rekur í samvinnu við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands. Í Múlabæ er rekin dagvistun aldraðra, þar sem vistmenn eru að jafnaði um 50 talsins. Þar er í boði leikfimi, hárgreiðsla og klipping, baðþjónusta og heitir bakstrar, blaðalestur, spilaklúbbar, vinnustofur og margt fleira, svo sem ferðalög og skemmtanir.

Mjög hliðstæð starfsemi fer fram í Hlíðabæ, en þar eru Alzheimersjúklingar í dagvistun, að jafnaði 20 talsins.

Þau Björn Ástmundsson, forstjóri á Reykjalundi og Hjördís Jónsdóttir yfirlæknir fjölluðu næst um Reykjalund, þá uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað, allar götur síðan 1945, nýbygginguna sem vígð verður eftir næstu áramót og þá margvíslegu starfsemi sem nú fer fram á Reykjalundi. Atvinnuleg endurhæfing hefur verið þáttur í starfi Reykjalundar allt frá stofnun hans 1945. Starfsmenn eru nú 260 í um 200 stöðugildum en innlagnir á Reykjalund eru um 1.300 á ári. Níu meðferðarsvið á Reykjalundi eru: Hjartasvið, lungnasvið, verkjasvið, miðtaugakerfissvið, geðsvið, hæfingarsvið, gigtarsvið næringarsvið og svið atvinnulegrar endurhæfingar. Þá má nefna heimilið Hlein, sem er á Reykjalundi tengt endurhæfingarsjúkrahúsinu. Þar eru sjö einstaklingsíbúðir og sameiginlegt rými. Þarna koma ungir einstaklingar með mikla líkamlega fötlun til endurhæfingar.

Þessu næst var farin skoðunarferð um staðinn undir leiðsögn þeirra Hjördísar og Björns. Mikla athygli vakti “steypudeildin”, þar sem háþróaðar vélar og vélmenni framleiða málningardósir og margvíslegar mjólkurvöruumbúðir með miklum afköstum.

Þá var hin glæsilega endurhæfingarstöð skoðuð og vakti ekki minni athygli. Aðeins er um eitt og hálft ár síðan byrjað var að byggja og fyrirhugað er að vígja hana 4. janúar næstkomandi, svo óhætt er að segja að vel hafi gengið. Þarna eru tvær sundlaugar ásamt heitum potti, mjög stór íþróttasalur og þrír þjálfunarsalir. Búningsklefarnir eru 7 talsins og auk alls þessa er aðstaða fyrir starfsmenn, tæknirými margs konar og geymslur. Heildarfermetratala er 2.700. Mjög langt er komið að ganga frá þarna og er meðal annars mjög smekkleg og falleg aðkoma að húsinu með steinlagðri aðkeyrslu  og hlöðnum garði meðfram. Húsið fellur mjög vel að umhverfinu.

Að skoðunarferð lokinni var kaffi og síðan tók Ingvi Jökull Logason frá auglýsingastofunni Hér og nú að fræða umboðsmenn um störf að markaðs- og kynningarmálum happdrættisins á liðnum árum og fjalla um árið framundan.

Síðasti liður á dagskránni var um tölvuvæðinguna og hvað myndi breytast með nýju tölvukerfi. Stefán Sæmundsson, sem er höfundur tölvukerfis okkar og raunar hinna happdrættanna lengst af, rakti síðan þær breytingar sem framundan eru og farið var yfir ýmis mál sem upp kynnu að koma eftir áramótin.

Að loknum fjörugum og góðum umræðum sleit Pétur Bjarnason fundi, þakkaði umboðsmönnum og fyrirlesurum fyrir ánægjulegan og fróðlegan fund og óskaði þeim góðrar heimferðar og heimkomu. Síðan var gengið til kvöldverðar sem framreiddur var af listakokkum Reykjalundar og bragðaðist hann vel svo sem vænta mátti.

Af viðtölum við umboðsmenn að fundi loknum var að heyra sem almennt væru menn ánægðir með þetta framtak og teldu það geta leitt til meiri og tíðari samskipta í framtíðinni milli umboðsmanna og starfsmanna happdrættisins.

 

Nýtt á vefnum