Fréttir / 4. júlí 2006

Enn um reglugerð sem bitnar á hjartasjúklingum


Eins og fram hefur komið sögðu sjálfstætt starfandi hjartalæknar upp samningi sínum við ríkið um síðustu áramót með þriggja mánaða fyrirvara og tók því uppsögnin gild 1. apríl s.l.  Sama dag tók gildi ný reglugerð nr. 241/2006 þar sem segir m.a.:

,,Skilyrði fyrir endurgreiðslu sjúkratrygginga almannatrygginga á hluta kostnaðar sjúkratryggðra

einstaklinga við þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum utan sjúkrahúsa sem starfa án samnings við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er að fyrir liggi tilvísun á sérfræðiþjónustuna frá heilsugæslulækni eða heimilislækni. Hafi sjúkratryggður einstaklingur ekki slíka tilvísun taka sjúkratryggingar almannatrygginga ekki þátt í kostnaði við þjónustuna.”

 

Reglugerðin hefur það í för með sér að ef sjúklingur vill fá heimsókn til hjartasérfræðings greidda þarf hann fyrst að heimsækja heimilislækni. Hann metur þörf viðkomandi sjúklings fyrir aðstoð hjartasérfræðings og gefur út tilvísun ef hann telur að þörf sé á heimsókn til sérfræðingsins. Sjúklingurinn þarf síðan að hafa samband á Tryggingastofnun til að fá endurgreiðslu. Ef sjúklingurinn fer hins vegar beint til sérfræðings þarf hann að greiða heimsóknina að fullu sjálfur.

 

SÍBS og Hjartaheill sendu ályktun til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þar sem reglugerðinni var mótmælt. Í bréfi sem sent var með ályktuninni var bent á að öryggi hjartasjúklinga geti verið stefnt í hættu með tilkomu reglugerðarinnar. Margra daga bið getur verið á viðtalstíma hjá heimilislækni og nokkuð skortir á að allir hafi heimilislækna. Því getur framkvæmd reglugerðarinnar leitt af sér kostnaðarauka bæði fyrir sjúklinga og ríkisvaldið. Stór hluti samskipta hjartalækna og sjúklinga þeirra er reglubundið og nauðsynlegt eftirlit án milligöngu annarra lækna. Reglugerðin væri hamlandi fyrir þessi samskipti.

 

Algerlega er óviðunandi að svo mikil breyting sem framkvæmd reglugerðarinnar hefur í för með sér skuli hafa verið samþykkt af stjórnvöldum án nokkurar vitneskju hvað þá samráðs við samtök þess stóra hóps hjartasjúklinga sem reglugerðin varðar og bitnar á.

 

Afstöðu samtakanna var einnig komið á framfæri á fundi með heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra auk fundar með heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis.

 

Engir samningar í sjónmáli

Svo virðist sem ekki hafi verið teknar ákvarðanir um fund ráðuneytisins með fulltrúum sjálfstætt starfandi hjartasérfræðinga vegna samningagerðar og samningar því ekki í sjónmáli. Fram kom hjá heilbrigðis- og trygginagmálaráðherra að reglugerðin hefði verið sett á til að tryggja endurgreiðslu á þjónustu hjartasérfræðinga og að mat ráðuneytisfólks væri að öryggi sjúklinga væri ekki stefnt í hættu. Hægt væri að fá skjóta þjónustu á heilsugæslu auk bráðaþjónustu á LSH. Fulltrúar SÍBS og Hjartaheilla nefndu hins vegar dæmi þess að sjúklingar hefðu fengið ranga meðferð sem ekki hefði verið ef þeir hefðu farið strax við upphaf einkenna í skoðun til hjartasérfræðings. Þá lengir bið eftir heimsókn hjá heimilislækni tímann að nauðsynlegri meðferð hjartasérfræðings.

 

Samráðsnefnd

Ákveðið var að skipa samráðshóp sem SÍBS og Hjartaheill hefðu aðild að. Samtökin hafa nú tilnefnt fulltrúa í þenna hóp. Þar verður hagsmunum hjartasjúklinga í þessu máli áfram komið á framfæri.

 

Hvatt til samninga

SÍBS og Hjartaheill munu áfram berjast fyrir því að samningar náist og að ofangreind reglugerð verði afturkölluð vegna, að mati samtakanna, augljósra annmarka sem framkvæmd hennar leiðir af sér. Samtökin skora því enn og aftur á samningsaðila að setjast að samningaborðinu og leysa þessa deildu sem allra fyrst.

 

Nauðsyn tilvísunar – vonandi tímabundin

Þar til reglugerðin verður dregin til baka þurfa sjúklingar sem sækja þjónustu sjálfstætt starfandi hjartalækna sem sögðu upp samningum við heilbrigðis- og tryggingamálaáðuneytið að fá tilvísun frá heimilislækni eða heilsugæslulækni til að eiga rétt á endurgreiðslu vegna heimsóknar til sérfræðingsins.

 

Hver tilvísun heimilislæknis eða heilsugæslulæknis gildir í fjóra mánuði

Í 6. gr. reglugerðarinnar stendur: ,,Heilsugæslulæknir eða heimilislæknir sem gefur út tilvísun ákveður gildistíma tilvísunarinnar en þó skal gildistími aldrei vera lengri en fjórir mánuðir.” Sjálfsagt að benda á þá skoðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem nýlega kom fram, að eingöngu sé um tímamörk að ræða á tilvísunum til hjartalækna, ekki séu takmörk á komufjölda innan gildistíma tilvísunarinnar, sem getur að hámarki verið fjórir mánuðir. M.ö.o hver tilvísun heimilislæknis eða heilsugæslulæknis til sjálfstætt starfandi hjartasérfræðings gildir í fjóra mánuði, óháð fjölda heimsókna til hjartasérfræðingsins.

 

Helgi Hróðmarsson, framkv.stj. SÍBS

 


 

Nýtt á vefnum