Fréttir / 9. janúar 2018

SÍBS 80 ára 2018

SÍBS verður 80 ára 2018 og að því tilefni verður í næsta SÍBS blaði farið yfir sögu samtakanna auk þess sem þar verða kynnt verða helstu verkefni, rekstrareiningar og aðildarfélög. SÍBS á og rekur ReykjalundMúlalund, SÍBS Verslun og Happdrætti SÍBS. Aðildarfélög SÍBS eru Hjartaheill, Berklavörn, Samtök lungnasjúklingar, Astma- og ofnæmisfélag Íslands, Vífill og Sjálfsvörn.  

Helstu verkefni SÍBS og Reykjalundar snúa að endurhæfingu, fræðslu og forvörnum gegn langvinnum og lífsstílstengdum sjúkdómum. Í verkefninu SÍBS Líf og heilsa bjóða SÍBS, aðildarfélög og Samtök sykursjúkra landsmönnum upp á heilsufarsmælingar í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög. SÍBS býður upp á fjölbreytt námskeið tengd heilsueflingu og hlaut í október viðurkenningu sem framhaldsfræðsluaðili.  

Haustið 1938, hinn 24. október, voru 26 berklasjúklingar samankomnir á Vífilsstaðahæli til að stofna Samband íslenskra berklasjúklinga. Tilgangurinn var að reyna að hjálpa útskrifuðum berklasjúklingum að ná fótfestu í lífinu, eftir ára eða áratuga dvöl á heilsuhælum.  Farið var af stað í fjáröflun sem varð til þess að hægt var að kaupa land af Reykjabændum í Mosfellssveit.  Með tilkomu berklalyfjanna 1947-1952 fór berklasjúklingum fækkandi og því var talið rétt að fá til liðs við SÍBS aðra sjúklingahópa þá var jafnframt nafni félagsins breytt í Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. Í dag vinnur SÍBS að stofnun Stuðningsnets sjúklingafélaganna en með tilkomu þess hafa 16 sjúklingafélög sameinast um að bjóða upp á jafningjastuðning fyrir sjúklinga og aðstandendur. Stuðningsnetið byggir á fyrirmynd frá Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra.

Mynd: Stofnendur SÍBS 

Nýtt á vefnum