Fréttir / 3. október 2016

Þúsund manns út að ganga í haustáskorun SÍBS og Vesens og vergangs

Haustáskorun SÍBS og gönguklúbbsins Vesens og vergangs hefur aldrei verið vinsælli en nú, þegar tæplega eitt þúsund manns tóku þátt í þeim 6 göngum sem boðið var upp á.  „Göngurnar voru léttar í fyrstu en enduðu á dagsferð um Síldarmannagötur laugardaginn 1. október þar sem 164 tóku þátt,“ segir Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS. „Að göngu lokinni tók Hulda á Fitjum í Skorradal á móti göngufólki með súkkulaði og kleinum í boðið SÍBS, en hún sagðist ekki vita til þess að jafn stór hópur hafi gengið þessa leið áður.“

„Þeir sem ekki náðu að vera með í haustáskoruninni koma bara með okkur í voráskorunina sem auglýst verður fljótlega eftir áramót. Við viljum að sem flestir komi með okkur í göngur og bjóðum sérstaklega velkomna þá sem hafa lítið gengið eða vilja koma sér af stað eftir langt hlé,“ segir Guðmundur.

Gönguáskoranirnar hófust 2014 og eru liður í forvarna- og lýðheilsustarfi SÍBS að sögn Guðmundar. Markmiðið sé að fólk geri göngur að daglegri venju, eflist að líkamlegum og andlegum styrk og kynnist skemmtilegu fólki.

Nýtt á vefnum