Fréttir / 5. september 2014

Mataræði og holdarfar

Í upphafi vikunnar deildum við grein eftir Björn Geir Leifsson, skurðlækni, sem ber yfirskriftina „Aftur til upprunans - borðum mat sem við erum hönnuð til að þola“, á Facebook-síðu SÍBS. Ætla má að Björn hafi í greininni komið vangaveltum og áhyggjum æði margra í orð, því þegar þetta er ritað hafa hátt í 140 aðilar deilt greininni áfram.

Í greininni segir Björn Geir með annars: „Sú kynslóð sem er að taka við af okkur er sannanlega allt of feit eins og svo ógnvænlega kemur fram í niðurstöðum nýrrar, vandaðrar rannsóknar á íslenskum ungmennum.“

Rannsóknin sem hann vísar til var gerð til að kanna líkamlega heilsu 18 ára framhaldsskólanema með því að mæla alla helstu áhættuþætti fyrir lífsstílssjúkdóma, svo sem holdafar, úthald, hreyfingu, blóðþrýsting, blóðfitu og blóðsykur og setja fram tölur um hversu margir í þessum hópi væru yfir hættumörkum hvað varðar þessa þætti. Undirmarkmið var að bera saman líkamlega heilsu bóknáms- og verknámsnemenda.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að íslenskir 18 ára nemendur í framhaldsskólum eru mjög illa á sig komnir hvað holdafar varðar, hvort heldur sem þeir eru skoðaðir út frá BMI- eða hlutfalli líkamsfitu enda kom í ljós að 23% nemenda voru þungir/feitir, 20% höfðu of mikið mittismál og 51% greindust með of hátt hlutfall líkamsfitu.

Það voru þau Sigurbjörn Árni Arngrímsson þjálfunarlífeðlisfræðingur, Erlingur Birgir Richardsson íþróttafræðingur, Kári Jónsson íþróttafræðingur og Anna Sigríður Ólafsdóttir næringarfræðingur sem unnu að rannsókninni. Hægt er að kynna sér efni hennar nánar á vef Læknablaðsins.

Nýtt á vefnum