Fréttir / 3. september 2014

Deiliskipulag sem hvetur íbúa til hreyfingar

Hverfi sem eru skipulögð á þann hátt að þau ýti undir að íbúar þess hreyfi sig sem mest geta haft afgerandi áhrif á líkamlega heilsu fólks. Þetta kemur fram í skýrslu sem kynnt var í breska þinginu fyrir skömmu og blaðið The Guardian segir frá.

Í greininni kemur fram að hefðbundin hreyfing dags daglega geti haft meiri áhrif á líkamlega heilsu fólks en skipulagðar æfingar í líkamsræktarstöðvum. Til að svo megi vera þurfi hverfin hins vegar að vera skipulögð á réttan hátt, til dæmis þannig að fólk eigi auðvelt með að komast til og frá vinnu, til dæmis gangandi eða á hjóli, og með auðveldu aðgengi að grænum svæðum og koma upp aðstöðu til líkamsræktar.
New York er tekin sem dæmi um borg sem hefur tekist vel til í þessum efnum en þar lögðu opinberar stofnanir og einkafyrirtæki hönd á plóg og réðust í breytingar á nokkrum hverfum til þess að hvetja íbúa þeirra til að hreyfa sig.
Veðráttan hér heim á Fróni gerir okkur vissulega erfitt fyrir stundum, en æ fleiri láta það ekki á sig fá og búa sig einfaldlega betur á leið til og frá vinnu, hvort heldur sem er gangandi eða hjólandi.
Það er óhætt að mæla með greininni í Guardian. Hana má lesa hérna!


 

Nýtt á vefnum