Hugarfar og heilsuefling

 

Er yfirskrift á nýjasta SÍBS blaðinu, önnur blöð fjalla um hreyfingu, næringu og lýðheilsu

Skoða nánar

SÍBS blaðið Námskeið

 

Reykjalundarnámskeið SÍBS um heilbrigði og lífsstíl eru aðlöguð útgáfa af námskeiðum sem notuð eru í meðferð á Reykjalundi. Námskeiðin eru kennd af okkar færustu sérfræðingum á hverju sviði og þú getur treyst faglegu innihaldi þeirra.

SÍBS 2011 trans.png

 

Hugarfar og heilsuefling

Tímasetning

28. apríl – 19. maí 2015

Lengd námskeiðs

6 skipti, 12 tímar

Almennt verð
Verð fyrir félagsmenn í aðildarfélögum SÍBS

48.900
45.900

 

Lýsing

Námskeiðið er hugsað fyrst og fremst fyrir þá sem vilja huga að bættri andlegri og líkamlegri heilsu.

Að vera til getur verið flókið verkefni í nútímasamfélagi og margir þættir sem þarf að huga að til að viðhalda góðri heilsu. Sumir þurfa að breyta um lífsstíl og þá geta verið ýmsar hindranir í veginum sem gott er að kunna ráð við, á meðan aðrir þurfa frekar aðstoð við að viðhalda góðum lífsstíl.

Á námskeiðinu er farið í ýmis bjargráð til dæmis við þunglyndi, kvíða og svefnvanda. Einnig er fjallað um mataræði, streitu, áhrif hreyfingar á andlega líðan, jafnvægi í daglegu lífi, minni og einbeitingu, félagsfærni, ákveðniþjálfun, tengsl og að lokum mikilvægi þess að lifa í „núinu“.

Námskeiðið byggir á sérþekkingu og áralangri reynslu sérfræðinga á Reykjalundi við að meðhöndla vanda og miðla þekkingu.

 

Smelltu hér til að skrá þig

 

Innihald

Efni

Leiðbeinandi

Tímasetning

Þunglyndi, einkenni og bjargráð

Inga Hrefna Jónsdóttir

sálfræðingur

þriðjudagur

28. apríl 2015

kl. 16:30 – 18:30

Kvíði, einkenni og bjargráð

Rósa María Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur

Heilbrigður lífsstíll, hollt mataræði

Guðrún Jóna Bragadóttir

næringarfræðingur

fimmtudagur

30. apríl 2015

kl. 16:30 – 18:30

Svefn

Jóhanna Kristín Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur

Streita og bjargráð

Arnbjörg Guðmundsdóttir

sjúkraþjálfari

þriðjudagur

5. maí 2015

kl. 16:30 – 18:30

Áhrif hreyfingar á andlega líðan

Kristbjörg Helgadóttir

sjúkraþjálfari

Jafnvægi í daglegu lífi

Louisa Sif Mønster

iðjuþjálfi

fimmtudagur

7. maí 2015

kl. 16:30 – 18:30

Minni og einbeiting

Claudia Ósk Georgsdóttir

taugasálfræðingur

Félagsfærni

Rúnar Helgi Andrason

sálfræðingur

þriðjudagur

12. maí 2015

kl. 16:30 – 18:30

Ákveðniþjálfun

Ingibjörg Flygenring

félagsráðgjafi

Tengsl

Lilja Sif Þorsteinsdóttir

sálfræðingur

þriðjudagur

19. maí 2015

kl. 16:30 – 18:30

Að lifa í „núinu“

Anna Kristín Þorsteinsdóttir

hjúkrunarfræðingur

 

Nánari lýsing

Þunglyndi, einkenni og bjargráð

Farið er í margvísleg einkenni þunglyndis og áhrif þess á daglegt líf og skilið á milli venjulegrar depurðar og alvarlegs þunglyndis. Helstu áhættuþættir eru skoðaðir og einnig ýmis bjargráð byggð á hugrænni atferlismeðferð (HAM). HAM-bókar vefur Reykjalundar www.ham.reykjalundur.is er kynntur en þar er að finna gagnreynt sjálfshjálparefni.

Kvíði, einkenni og bjargráð

Fjallað verður um eðli kvíða, einkenni og bjargráð. Áhersla er lögð á að kvíði er eðlileg tilfinning og ef hann er í hófi og undir góðri stjórn getur hann verið hjálplegur og aukið getu einstaklingsins. Farið verður í helstu kvíðaraskanir, einkenni og meðferð. Megináhersla verður lögð á hugræna nálgun eins og hugsanir sem vekja og viðhalda kvíða og hvernig unnið er með kvíðavekjandi hugsanir og aðstæður.

Heilbrigður lífsstíll, hollt mataræði

Mataræði hefur áhrif á heilsu okkar, hvort tveggja andlega og líkamlega. Fjölbreytt og hollt fæðuval er lykilinn að bættri heilsu. Farið er yfir áhrif mataræðis og máltíðamynsturs á almenna líðan  okkar þar sem heilbrigður lífsstíll helst gjarnan í hendur við hollt, fjölbreytt og gott fæðuval. Lögð er áhersla á mikilvægi reglulegra máltíða og bent á hvaða áhrif mismunandi fæðutegundir hafa á líðan okkar.

Svefn

Farið er yfir grunnþætti svefns, hugsanlegar orsakir svefnvandamála, afleiðingar þess að sofa ekki og áhrif svefnlyfja, áfengis og vímuefna á svefn. Þá er fjallað um svefnbætandi ráð, lífsstílsbreytingar og áhersla lögð á að finna lausnir. Í lokin er hugræn atferlismeðferð við svefnvanda kynnt og skjólstæðingum kennt að ná tökum á hugsunum og hegðun sem valda svefnvanda.

Streita og bjargráð

Byrjað er á því að fjalla um streitu almennt. Síðan er farið í ótta-flótta viðbragðið og lífeðlisfræði streitunnar, þ.e. hvað er það sem gerist í líkamanum. Helstu streituvaldar í okkar þjóðfélagi í dag eru ræddir. Greinum á milli hvað gerist við streitu í líkamanum og hvað getur gerst við langvarandi streituálag þ.e. hvaða sjúkdómar geti þróast. Skoðum streitukúrfuna. Förum yfir bjargráð og þá sérstaklega þau sem snúa að hreyfingu og þjálfun.

Áhrif hreyfingar á andlega líðan

Segjum frá rannsóknum um jákvæðar niðurstöður þjálfunar á þunglyndi. Ræðum hversu mikið þurfi að þjálfa til að ná árangri og skoðum: Af hverju virkar þjálfun? Hvað gerist í líkamanum við þálfun. Tökum fyrir hvernig á að þolþjálfa. Hvað er eðlilegur hvíldarpúls? Hvað er hámarkspúls og hvernig breytist hann með aldrinum? Hvað er átt við með þjálfunarpúlsi? Förum yfir mismunandi þjálfunarleiðir og skoðum hvað gæti þurft til að þjálfun og hreyfing verði eðlilegur hlutur af daglega lífinu.

Jafnvægi í daglegu lífi

Hugmyndafræðin sem lögð er til grundvallar í þessum fyrirlestri er að jafnvægi þurfi að vera milli eigin umsjár, starfa, tómstundaiðju og hvíldar til að við höldum góðri heilsu og lífsgleði. Farið er yfir hvernig öðlast má nýja sýn á daglega iðju, hvað felst í jafnvægi í daglegri iðju, hvernig því er viðhaldið og hvað veldur ójafnvægi. Skoðað er hvað þátttakendur gera til að ná jafnvægi í daglegri iðju. Einnig er farið yfir í hvaða „hlutverkum“ fólk er, hvaða viðfangsefni tilheyra hverju hlutverki fyrir sig, hvaða hlutverk eru einstaklingnum mikilvæg og hvort hann er að nota orku sína og tíma í þessi mikilvægu hlutverk.

Minni og einbeiting

Farið er inn á þætti sem geta haft áhrif á minni og einbeitingu. Einnig er fjallað um tengsl við andlega og líkamlega líðan. Það er ekki óeðlilegt að einbeiting minnki og fólk eigi erfiðara með að muna þegar það er að glíma við andleg eða líkamleg veikindi. Ræddar eru leiðir til að bæta minni og einbeitingu.

Félagsfærni

Fjallað er um hvað liggur til grundvallar félagsfærni. Farið er inn á atriði eins og óyrt samskipti, tilfinningalega stjórnun, sjálfsþekkingu og þætti sem geta hindrað árangursrík samskipti. Reynt er að koma til móts við þarfir hópsins hverju sinni og ræða bjargráð í samræmi við það.

Ákveðniþjálfun – samskipti

Markmiðið með ákveðinni framkomu er að gera samskipti hrein og bein og stuðla að gagnkvæmri virðingu. Geta sett öðrum mörk, sagt nei og staðið með sjálfum sér. Ákveðni gefur einnig svigrúm fyrir málamiðlun þegar þarfir og réttur fólks rekst á.

Tengsl

Rætt er um tengsl milli barns og umönnunaraðila þess á fyrstu æviárunum og hugsanlegar afleiðingar fyrir tilfinninga- og félagsþroska. Ef þessi grunnur er ófullnægjandi getur viðkomandi átt erfiðara með að bregðast áföllum og missi síðar í lífinu. Markmiðið með þessari fræðslu er að styrkja innsæi og samhyggð bæði með sjálfum sér og öðrum, þegar uppvaxtarskilyrði hafa verið erfið.

Að lifa í „núinu“

Núvitund eða vakandi athygli (mindfulness) er kynnt. Markmiðið með núvitund er að bæta tengslin milli hugar og líkama. Athyglin er dregin mjúklega að önduninni til að finna hvort eða hvar spenna eða verkir sitji í líkamanum. Læra að sætta sig við það sem er. Þessi aðferð eflir vitund okkar og styrkir eðlilegar varnir og úrræði. Einnig auðveldar hún okkur að taka þátt í líðandi stund. Vakandi nærvera er talin draga úr líkum á bakslagi hjá þeim sem glíma við langvarandi þunglyndi.

Smelltu hér til að skrá þig