október 2021
Tæknilausnir fyrir lestur og ritun
Í nútímasamfélagi eru miklar kröfur gerðar um málfærni einstaklinga, bæði á tjáningu og skilning, og ekki síður á lestur og ritun. Starfsumhverfi nútímans byggir mikið á samvinnu og samskiptum við mismunandi hópa og því er góð færni í tjáningu og samskiptum eiginleiki sem mjög oft er nefndur í atvinnuauglýsingum. Ýmislegt getur haft neikvæð áhrif á málfærni einstaklinga sem veldur því að þeim sé vísað til talmeinafræðinga. Sjúkdómar og slys geta til að mynda valdið því að einstaklingur missir færni sem hann hafði áður. Eins getur krónískur vandi sem lengi hefur verið til staðar líkt og lesblinda, málþroskaröskun, stam og raddvandi haft hamlandi áhrif í starfi, námi og annarri samfélagsþátttöku. Þó svo að dregið hafi úr bóklestri síðastliðna áratugi liggur lykillinn að samfélaginu ennþá að miklu leyti í gegnum upplýsingar á rituðu formi. Kröfur um handskrift hafa minnkað verulega með tilkomu snjalltækja. Ritun í tölvu er orðinn mikilvægur þáttur fyrir marga, bæði í starfi og einkalífi. Einnig hafa samskipti við vini og ættingja að miklu leyti færst yfir á rituð eða töluð skilaboð í gegnum snjalltæki.