febrúar 2025
Mönnun háskólakennara í heilbrigðisvísindum
Ein grunnstoð mönnunar heilbrigðisstétta á Íslandi er skipulag háskólamenntunar sem veitir starfsréttindi í heilbrigðistengdum greinum. Á undanförnum árum hefur Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands leitast við að svara ákalli stjórnvalda um fjölgun nemenda í heilbrigðistengdum greinum, þar á meðal í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sjúkraþjálfun, og notið sértæks stuðnings stjórnvalda í því verkefni. Þannig hefur Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild undanfarið fjölgað nemendum í hjúkrunarfræði úr 120 í 140 en hefur það að markmiði að þau verði 150 árið 2027. Læknadeild hefur nú þegar fjölgað námsplássum í læknisfræði úr 60 í 75, og hefur það að markmiði að fjölga þeim í 90 árið 2027. Þá stendur til að fjölga námsplássum í sjúkraþjálfun á næstu árum úr 35 í 50.