febrúar 2022
Sykur og börn
Það er staðreynd að lífið væri bragðlausara án sætunnar. Við njótum þess að fá okkur góða konfektmola eftir kaffisopann, bökum kökur á hátíðisdögum og smákökur í tonnatali á jólunum, enda sætmeti og tyllidagar oftar en ekki tengd órjúfanlegum böndum. Sykurneysla er í mörgum tilfellum vani, þ.e. við erum búin að venja okkur á sætt bragð sem erfitt getur verið að venja okkur af. Eins og dæmin hér að framan sýna. En svo er hversdagurinn líka þannig að við setjum sykur í kaffið, eða sykrum morgunkornið, drekkum orkudrykki og borðum frekar sætu súrmjólkina en ósætu. Og það getur verið erfitt að venja sig af því sem við gerum oftast hugsunarlaust.