júní 2016
Búum til okkar eigin ævintýri í sumar
Við þekkjum flest þá tilhlökkun sem fylgir því að fara í sumarfrí. Stundum eru miklar væntingar um hið fullkomna frí, svo sem ferðalög til útlanda, þar sem allir eiga að hafa það svo skemmtilegt. En áður en við vitum af nálgast haustið og sumarið er á enda. Stundum geta miklar væntingar valdið kvíða og togstreitu. Jafnvel skemmt ánægjuna að fara saman í frí. Því getur verið gott að minna sig á að þegar upp er staðið er það samvera með okkar nánustu sem skiptir meginmáli þegar sumarfrí er skipulagt. Þó að ferðir til útlanda eða nýjir hluti gleðji þá er það miklu fremur félagsskapurinn og að upplifa eitthvað nýtt sem raunverulega færir okkur hamingju. Sjaldnast þarf að fara langt til að eignast dýrmætar minningar. Með opnum hug er hægt að skapa ævintýri og skemmtun þar sem fjölskyldan nýtur þess að vera saman.